Friday, November 24, 2006

Hagamús verður húsamús

Þar sem allir þekkja minn brennandi dýraáhuga var ég sú fyrsta sem kom upp í huga Helenar systur þegar kötturinn hennar dró inn mús um daginn. Músin slasaðist og Helen hringdi í mig til að fá ráðleggingar um framhaldið. Ég sagði henni að fara með hana i hvelli upp á dýraspítala. Þar yrði hún aflífuð (þeas. músin, ekki Helen) ef hún væri of slösuð, annars skyldi ég taka hana og hjúkra henni. Seinna um daginn sá ég að komin voru skilaboð inn á talhólfið mitt. Þau voru frá systur minni sem söng engilblítt: Þú átt litla mús, hún heitir Heiðar... Dýralæknirinn hafði sem sagt kyngreint músina og dæmt hana lífvænlega ef hún bara fengi smá hvíldartíma. Ég sótti því krílið og setti það í eitt af mínum fjölmörgu nagdýrabúrum. Músin, sem fékk nafnið Dangermouse eftir breskri teiknimyndahetju, dafnaði vel og brátt taldi ég hana reiðubúna til að fá frelsið á ný. Það var þó alltaf að frestast. Það var of kalt, of mikil rigning, of dimmt, ég of þreytt... Loks kom að því einn morguninn að músin fékk frelsið. Algerlega án minnar aðstoðar. Jú, litla gerpið hafði sloppið út úr fína nýja búrinu sem ég var búin að setja það í. Nú voru góð ráð dýr. Ég skreið um allt og leitaði að músinni en sú leit bar engan árangur. Enda frekar auðvelt að fela sig þegar maður er í þessari stærð. Þetta gerðist á laugardegi. Þegar músin var ekki fundin á mánudegi fékk ég lánaða "mannúðlega" músagildru hjá meindýraeyðunum í vinnunni. Á hverjum degi kíkti ég vongóð í gildruna - alltaf var sama sagan, engin veiði. Hvergi sást til mýslu en einhver át gat á jógamottuna mína og músaskítur fannst við fataskápinn minn. Á fimmtudagsmorgni kom ég inn í eldhús og sá þá kunnuglega veru undir eldhúsborðinu. Við horfðumst í augu smá stund síðan lét mýsla sig hverfa undir ísskáp. Jæja, að minnsta kosti vissi ég núna hvar músin var. Gildran var flutt í eldhúsið og hurðinni haldið lokaðri til að mýsla slyppi ekki fram. Við Hilda reyndum að lyfta ísskápnum, sáum þar músina en náðum henni ekki þar sem hún stökk undir einhverja járnplötu og hvarf inn í innviði ísskápsins. Ég hafði af því nokkrar áhyggjur, en ísskápurinn kældi sem aldrei fyrr svo litli flóttamaðurinn virtist ekki að valda neinum skaða. Á laugardagskveldi hitti ég mýslu við eldhúsvaskinn. Með leiftursnöggum hreyfingum reyndi ég að fanga hana í kassa en með ótrúlegum stökkum og ljóshraða brunaði hún eftir innréttingunni og klifraði niður ristina aftan á ísskápnum og hvarf. Andskotinn. Ég var komin á fremsta hlunn með að kaupa Ómannúðlega músagildru þegar ég staulaðist fram í eldhús á mánudagsmorgni og viti menn, það var fangi í gildrunni. Mannúðin var ekki meiri í gildrunni en svo að greyið hafði klemmt framlöppina í henni en mér tókst snarlega að bjarga því. Núna dvelur músin í rammgirtu búri og nýtur hjúkrunarkrafta minna enn á ný. Ekki get ég sleppt henni núna, með slasaða framlöpp ?? Komin aftur á byrjunarreit. Sumir hafa ásakað mig um að vilja bara eiga mýslu. Hvernig dettur fólki svona í hug ? Ekki eins og ég hafi safnað svona dýrum í kringum mig. Ahemm. Best að hætta núna..