Friday, July 28, 2006
Pirringur dagsins
Það fer verulega í taugarnar á mér að í fjölmiðlum, blöðum og bókum er nú alltaf talað um að fólk "taki sitt eigið líf" þegar það fremur sjálfsmorð. Halló ! Þetta er ENSKA ! Took his own live etc. Mér finnst þetta svo kauðalegt og hallærislegt. Tók hann sitt eigið líf og fór með það hvert ??? Tökum höndum saman og fremjum sjálfsmorð eða sjálfsvíg eins og í góðu gömlu dagana ! Hmm, ekki taka mig alveg bókstaflega þarna...
Wednesday, July 26, 2006
Svava í mýflugumynd
Ég tók mig til í gærkvöldi og rölti niður að Elliðavatni. Þetta er leið sem ég hef gengið ansi oft síðan ég flutti hingað í Breiðholtið og hef alltaf jafngaman af. Fjarlægðin fram og tilbaka er um 3 km. Leiðin liggur yfir ánna, undir vegbrúnna, meðfram ánni og þýfðum móum niður að stíflunni við vatnið. Í gær var dásamlegt veður. Alveg stillt, hlýtt og sólin ekki of sterk. Ég var því í góðu skapi og létt í spori. Lítill lóuungi spígsporaði á undan mér eftir göngustígnum drjúgan spöl, skúfönd synti á ánni með fjóra litla hnoðra og í grynningunum við brúnna sá ég tvo laxa. Fullkomið kvöld, hugsaði ég um leið og ég nálgaðist stífluna. Ég gekk upp að grindverkinu sem er á garðinum við stífluna og horfði dáleidd yfir spegilslétt vatnið. Lífið var yndislegt í nokkrar sekúndur, síðan birtist fyrsta mýflugan. Svo sú næsta. Þá um tvö þúsund vinir þeirra. Já, bráðum var þarna risapartí og í því ein sem var ekki boðið. Það var alveg sama hvernig ég reyndi að banda flugunum frá mér, þær virtust bara æsast upp við það og þéttu hópinn. Ég brá því á það ráð að ganga til baka hröðum skrefum í von um að stinga flugurnar af. Litlu andskotarnir voru búnir að sjá þessa lausn fyrir og búnir að kalla á liðsauka allt í kring. Það var sama hvert ég gekk, allt var morandi í mýflugum. Sem fylgdu mér eins og þrumuský. Að lokum var ég komin lafmóð í brekkuna upp að húsinu mínu. Flestar flugurnar voru þá búnar að gefast upp en ég hef ekki tölu á þeim sem létu lífið í augnkrókunum á mér, í hárinu þegar ég strauk það frá andlitinu eða í munninum á mér þegar ég tók andköf af mæði. Mun taka með mér brúsa af einhverju eitruðu í næsta göngutúr !
Tuesday, July 25, 2006
Fegurðardís í fegrunarátaki
Á laugardaginn mætti ég galvösk kl. 11 við sundlaugina til að taka þátt í fegrunarátaki borgarstjóra í Breiðholtinu. Eða réttara sagt, dróst fram úr með erfiðismunum og tókst með ótrúlegum viljastyrk að koma mér af stað tímanlega. Borgarstjóri var mættur á staðinn og skoppaði ofvirkur um og tætti upp fífla við sundlaugarvegginn. Ég lét minna á mér bera og greip við fyrsta tækifæri ruslasekk og tínu og hélt svo af stað til að hreinsa græna svæðið fyrir neðan blokkina mína. Ég var klædd í appelsínugult vesti merkt fegrunarátakinu og hef örugglega verið sýnileg úr lofti allt upp í 30.000 feta hæð. Eftir að hafa týnt upp 30 sígarettupakka, slatta af stubbum, skyndibitabréf og 4 notaðar sprautur sá ég að besta leiðin til að hreinsa Breiðholtið er að kála reykingarfólkinu og þeim sem borða skyndibita á svæðinu. Þegar búið er að slátra þessum hópum verður afarhreinlegt og rólegt hér, það er eitt sem víst er. Ruslatínsla mín var aðeins trufluð af því þegar bílar keyrðu framhjá og flautuðu á mig. Ég var ekki lengi að sjá það út að það var vestið sem gerði mig svo kynþokkafulla að allir sáu sig knúna til að liggja á flautunni til að sýna aðdáun sína. Alger fegurðardís, ómótstæðileg og appelsínugul. Eftir 2 klst. ruslatínslu dró ég níðþungan sekkinn að sundlauginni, lagði vestið góða og tínuna á hilluna og stakk af úr bænum. Sæl og ánægð með að hafa uppfyllt þegnskyldu mína og enn að njóta þeirrar athygli sem athafnir dagsins höfðu gefið mér (honk honk bííp bííp). Daginn eftir hringdi vinkona mín, kát og glöð. Á baksíðu sunnudagsmoggans mátti sjá ljósmynd frá fegrunarátakinu. Í bakgrunninum sést illilegur kvenmaður í bláum gallajakka sem horfir hvössum brúnum á skipuleggjandann. Ekki svo kynþokkafull lengur, eh ? Þarf að ná í vestið aftur, það ætti að gera mig spennandi á ný.
Friday, July 21, 2006
Annus horribilis
Svo ég vitni í orð stórvinkonu minnar Betu Bretadrottningar þá hefur árið 2006 verið Annus horribilis fyrir mig. Vissulega hafa börnin mín ekki skilið né kviknað í kastalanum mínum (atburðir sem gerðu Betu lífið leitt '92) en það eru smáatriði eins og erfiðir kjarasamningar, veikindi, einn brotinn ökkli, bilaður bíll, bilandi tölva og svoleiðis sem hafa glatt mig í ár. Kíkjum á síðustu daga: ég var að punga út 37 þúsundum í bílaviðgerðir. Heppin. Tölvan mín hefur tekið upp á því að gera skjáinn brúnan og nær ólæsilegan á milli þess sem hún slökkvir óvænt á sér. Heppin. Báðir ökklarnir á mér, hnén og mjaðmirnar er að drepa mig. Heppin. Blöndunartækin í baðinu eru að gefa sig. Heppin. Gaaa ! Hvað er í gangi ?? Reyndar er þetta ekki fyrsta annus horribilis sem ég upplifi. Frá árinu 2003 hefur óheppnin elt mig á röndum. Ökklabrot, misheppnuð ökklaaðgerð, bílslys, Brad Pitt kaus Angelinu frekar en mig.... gaman gaman. Reyndar viðurkenni ég að það er ekki allt svart. Ég er búin að fara í tvær frábærar utanlandsferðir í ár, alveg slysalaust. Þá hafa ýmsar upplifanir glatt mig hin óhappaárin líka. Svo er málið að fara í Pollýönu leikinn: það eru jú aðrir sem hafa það miklu verra en ég. Að vísu hefði ég getað notað hækjurnar sem hún fékk sendar frá Vetrarhjálpinni og gladdist yfir að þurfa ekki. Æ, stundum langar manni bara að röfla yfir lífinu. Þegar allt bilar samtímis getur verið erfitt að sjá ljósið. Nema kannski ljósið við endann á göngunum þegar maður er genginn í sjóinn. Sjáum samt til, ég ætla í partí til Pollýönu og vona að afganginn af árinu færi mér meiri heppni. P.s. Ef einhver hefur stolið höfuðhári mínu og lagt á mig voodoo bölvun, þá hef ég aðeins eitt við þann aðila að segja: Ég mun finna þig í fjöru !
Monday, July 17, 2006
Sítrónuilmur er lykt hreinlætisins
Í dag stoppaði nágranni mig í stiganum á leiðinni út til að ræða við mig skort á þvottaefni fyrir sameignina. Ég er formaður húsfélagsins og sé því um öll innkaup. "Mundu að kaupa með sítrónulykt", sagði nágranninn ákafur um leið og ég hvarf út um dyrnar. Jahá, hugsaði ég, hvað annað. Síðan ég flutti hér inn fyrir 5 árum hefur alltaf verið sítrónuilmur tengdur þrifum á sameigninni. Fyrst gaus ilmurinn upp vikulega á föstudögum þegar hreingerningaþjónustan okkar kom til að þrífa. Eftir nokkurn tíma komumst við að því að það eina sem útsendarar þjónustunnar gerðu var að ganga upp og niður stigann og úða sítrónuilm til að gabba okkur til að halda að allt væri hreint. Þeim var í kjölfarið sagt upp og við tókum þrifin að okkur sjálf. En sítrónuilmurinn hélt áfram. Þáverandi húfélagsformaður keypti sítrónu Ajax fyrir gólfin og sítrónugluggahreinsi. Ef ekki fannst sítrónuilmur á sunnudegi var nokkuð víst að einhver var ekki að standa sig í sameignarþrifum. Enda kepptust flestir við að úða sítrónuhreinsinum á allt sem fyrir varð til að sanna að búið væri að þrífa. Nú er greinilega svo komið að fólkið hér er orðið háð sítrónuilminum. Þegar ég fór að hugsa um þetta fór ég svo að skoða hreinisefnin mín fyrir heimilið. Klósetthreinsirinn, leysigeislinn og uppþvottalögurinn eru allir með sítrónuilmi ! Og sérstöku Ajax klósetthreinsiklútarnir líka. Fimm ár hér í húsinu gera mann sem sagt að sítrónulyktarfíkil ! Hver eru meðferðarúrræðin ??
Thursday, July 13, 2006
Vírklippukanínan slær til enn á ný
Mín beið óvænt ánægja þegar ég kom heim úr vinnunni í dag. Kanínan hafði brugðið sér að sjónvarpinu og hakkað í sundur sjónvarpssnúruna. Þannig vildi hún forða mér frá of miklum amerískum áhrifum og lélegu sjónvarpsefni. Þó ég sé þakklát fyrir umhyggju hennar verð ég að segja að þetta var frekar óheppilegt. Ég hafði nefnilega hugsað mér að eyða kveldinu fyrir framan imbann og horfa á raunveruleikasjónvarp. Nú neyðist ég til að vera menningarleg og lesa þar til einhver mágur getur komið og reddað málum. Veit ekki alveg hvað unglingurinn á heimilinu mun segja við þessu...
Tuesday, July 11, 2006
Færa fjögurra laufa smárar manni lukku ?
Nýjasta æðið hjá mér er tölvuleikur á leikjanet.is sem heitir Lucky clover. Leikurinn er sáraeinfaldur, hann felst í því að leita í gegnum smárabreiðu að 7 fjögurra laufa smárum sem þar eru faldir. Fyrst gekk ekkert sérstaklega vel að finna þá en brátt var ég farin að finna 6 af 7 í flestum spilum. Því miður gekk illa að finna þann sjöunda, ekki bætir úr skák að spilið virðist hafa eigin skoðanir á því hvenær tíminn er útrunninn. Þó svo talið sé niður úr 300 sekúndum hættir spilið snögglega á bilinu 40-70 og maður er kvaddur með virktum. Fnys. En þrátt fyrir ágallana er ég sjúk í spilið og hefur mér nú lukkast að finna alla sjö smárana í einu spili. Svo tekur við að reyna að bæta metið. Ástæðan fyrir því hve vel mér fellur við leikinn er falin í fortíðinni. Þegar ég var barn elskaði ég að leita að fjögurra laufa smárum hingað og þangað um hverfið. Þrátt fyrir ítrekaða leit tókst mér ekki að finna fjögurra laufa smára fyrr en kvöld eitt þegar ég var 12 ára og var að leika mér við Æfingaskólann. Ég var orðin þreytt og lét mig fallast niður í grasið á baklóðinni og lenti beint í smárabreiðu. Af gömlum vana renndi ég augunum eftir henni og viti menn ! Við mér blasti fjögurra laufa smári !! Ég kallaði á hina krakkana í hvelli og allir fóru að leita að fleiri lukkugripum í breiðunni. Eftir skamma stund fann önnur stúlka ferlaufung. Svo fann ég tvo með fimm laufum. Og svo einn með sex laufum !! Hmm, við vorum greinilega lent í stökkbreyttri smáraáras úr geimnum. Ég fór með herfangið heim og spurði mömmu hvort meiri heppni fylgdi fimm og sex laufa smárum ? Mamma leyfði sér að vera efins í því að maður græddi eitthvað á aukalaufunum. Í mörg ár hafði ég smárana góðu innrammaða í herberginu mínu. Loks pakkaði ég þeim niður og týndi þegar ég var komin á fullorðinsár. Enda hefur heppni mín verið eftir því. Ég þarf að finna annan fjögurra laufa smára. Ekki bara í spilinu, heldur einn ekta lukkusmára. Miðað við atburði síðustu ára þarfnast ég kannski fimm eða sex laufa smára, jafnvel sjölaufa ? Tölti kannski fram hjá gömlu skólalóðinni við tækifæri. Ef til vill leynist lukkusmári þar enn.
Thursday, July 06, 2006
Mávahlátur
Í gærkveldi kom ég seint heim eftir velheppnað spilakvöld með fjörugum vinkvensum. Ég var orðin ansi lúin og kastaði mér dauðfegin í rúmið eftir kvöldsturtuna. Ég pakkaði mér vel inn í sængina og fann að ég var þegar að síga inn í draumalandið. Þar sem ég lá þarna milli svefns og vöku rauf hátt og ergjandi hljóð kyrrðina. Fyrst hljómaði þetta eins og ein af þessum pirrandi bílaþjófavörnum. Hljóðið var stöðugt, taktfast Aik aik aik aik aik og var alltaf í sömu tóntegund. Þegar hljóðið hafði verið stöðugt í um 5 mínútur var ég glaðvöknuð, örg og svekkt. Ég kíkti út um gluggann og sá þá máv sitja á ljósastaur andspænis götunnar. Goggurinn á honum var opinn og höfuðið vísaði til himins. Andskotinn, hugsaði ég, ekki getur það verið mávurinn sem er að gefa frá sér þetta sírenuhljóð ?? Ég opnaði gluggann og um leið hækkaði hljóðið um allan helming. Og ójú, þetta var mávurinn. Þarna tróndi hann efst á ljósakúplinum, argandi þetta óþolandi hljóð án hléa. Viltu vinsamlegast halda kjafti sagði ég út í nóttina, meira við sjálfa mig en mávinn, þar sem ég lagði ekki alveg í að öskra á hann klukkan að ganga hálf tvö um nótt. Þessum blessuðum máv virtist liggja mikið á hjarta. Kannski var hann búinn að frétta af fyrirhuguðum fjöldamorðum á vegum borgarinnar og vildi því koma sínum mótmælum á framfæri við mig, borgarstarfsmanninn. Eða kannski var hann óheppinn í ástum og var að tjá vonbrigði sín. Hver svo sem ástæðan var þá hélt þessi elska (sem vonandi verður á vegi meindýraeyða fljótlega) áfram að garga stanslaust í 20 mínútur. Þegar hann loksins þagnaði lá ég beinstíf í rúminu með samanbitnar tennur og löngu komin úr öllu svefnstuði. Eftir um mínútu hlé byrjaði hann aftur en snarþagnaði fljótlega. Mér til mikillar gleði var hann floginn á braut þegar ég leit út um gluggann. Þarf vart að taka fram að ég var frekar þreytuleg í vinnunni í morgun. Mávahlátur hefur kannski vinninginn í keppninni mest óþolandi hljóðið, en munið þið mávar, sá hlær best sem síðast hlær...
Tuesday, July 04, 2006
Steiktur rass
Í gær skellti ég mér í sund með Helen systur. Ég tek það fram að ég athugaði vel hvort hún væri nokkuð að flissa og gelta áður en ég hætti mér af stað með henni. Við fórum í Árbæjarlaugina, hverfislaug Helenar sem hún hefur heimsótt mun oftar en ég. Við sátum drjúga stund og nutum lífsins í heita nuddpottinum. Síðan stakk Helen upp á því að við færum í gufuna. Fínt sagði ég en ég hafði ekki vitað að boðið væri upp á gufu þarna. Jæja, við skellum okkur inn í klefann og Helen kemur sér fyrir út í horni og ég ætla að setjast á bekkinn við hliðina á henni. Mér til skelfingar var bekkurinn sjóðheitur, enda úr málmi. Ég fór að kvarta yfir þessu við Helen sem sagði bara að þetta hefði verið enn verra þegar trébekkirnir voru þarna. Ég prófaði nú margar mismunandi stellingar en ekkert dugði, rassinn á mér var hreinlega að steikjast í gegn. Á meðan sat Helen hin ánægðasta í sínu horni. Hún er greinilega alveg tilfinningalaus í botninum. Loks gafst ég upp og dró hana með mér út úr litla vítisklefanum, með 3. gráðu brunasár á bossanum. Þegar við komum út og inn í lítið andyri fyrir framan gufuna rak ég augun í kassa á veggnum. Í honum voru plastspjöld ætluð til að vernda rassa gufubaðsgesta. Aaa já, ég var búin gleyma þessu, sagði ástkær systir mín. Þurfti að taka á öllu mínu til að sleppa því að dýfa hausnum á henni niður í laugina og halda honum þar. Var aum í rassinum fram að kvöldmat.
Sunday, July 02, 2006
Harðir dómar í USA
Þeir í Ameríkunni eru alveg ótrúlegir. Var að lesa frétt um dómara nokkurn sem var að fá á sig dóm fyrir ósæmilegt athæfi í réttarsalnum. Hið ósæmilega fólst í því að dómarinn var með typpapumpu undir skikkju sinni og fróaði sér með henni þegar hann var að kveða upp dóma. Upp komst um strákinn Tuma þegar lögreglumaður rak augun í tækið milli fóta hans þegar hann stóð upp við borðið hans. Þegar sannleikurinn var kominn í ljós og búið að gera pumpuna góðu upptæka fór starfsfólk réttarins að rifja upp einkennilegt hljóð sem það hafði oft heyrt við dómsuppkvaðningu. Fólk hafði spurt dómarann hvort hann heyrði líka hljóðið, sem minnti á hviss í hjólapumpu. Karl hafði brugðist illa við þessum spurningum, ekki sagst heyra neitt og sagði þeim að einbeita sér að störfum réttarins. Má segja að maðurinn hafi verið harður dómari...
Subscribe to:
Posts (Atom)