Thursday, August 31, 2006

You wanna go where everybody knows your name...

Það er eiginlega aðeins of mikið að mæta á bæklunarskurðdeild og hjúkkan sem sér um hana heilsar þér glaðlega og rifjar upp fyrri aðgerðir og yfirmaður deildarinnar kemur inn að hitta sjúkling, sér þig og segir: Nei, er þetta ekki Svava ! Komin í naglhreinsun ?

Wednesday, August 30, 2006

Pödduhúsaáhrifin

Greinilegt að loftslagið er að breytast á Íslandi. Ég er búin að sjá undarleg skordýr í allt sumar sem ég hef ekki séð áður. Sá risastóra gulröndótta fiðrildalirfu í Elliðaárdalnum í gær, getur ekki hafa tilheyrt neinni íslenskri tegund ! Var að ræða þetta í morgun í vinnunni, aðrir hafa ekki tekið eftir þessu. Kannski er ég sú eina sem er alltaf að horfa á pöddur....hmmmmm

Friday, August 25, 2006

Hversu erfitt er að bóka eina aðgerð ??

Eins og alþjóð veit braut ég á mér ökklann nú á vordögum. Við það tilefni stungu læknarnir tveimur teinum inn í ökklann og þremur ansi stórum skrúfum. Nú er sem sagt fyrirhugað að fjarlægja fyrrnefnda teina, skrúfurnar fá hinsvegar að vera á sínum stað þar til ég hrekk upp af. Verður gaman fyrir fornleifafræðinga að krukka í mín bein. Læknirinn minn sagði mér í júlí að aðgerðin yrði gerð um miðjan ágúst. Hringt yrði í mig í byrjun mánaðarins til að gefa mér dagsetningu. Jæja, júlí endar og ágúst byrjar. Fyrsta vikan í mánuðinum líður. Svo fer að líða á aðra vikuna. Þann 11. ágúst hringi ég í spítalann og tala við konuna sem sér um að bóka aðgerðir. Hún sagði mér að deildin væri enn lokuð, læknarnir meira eða minna í fríi og ég fengi ekki tíma fyrir aðgerð fyrr en 30. ágúst. Allt í lagi, 30. flokkast seint sem miður mánuður, en að minnsta kosti var þetta í ágúst. Vitandi þessa dagsetningu bókaði ég mig í eftirlit og fundi í vinnunni og sagði yfirmönnum að ég færi undir hnífinn þennan dag. Á mánudagseftirmiðdaginn síðasta hringir svo gemsinn. Þá er það konan góða að hringja og spyrja hvort ég kæmist í aðgerð á miðvikudagsmorguninn. Nei, ekki væri það hægt, ég var jú búin að gera ýmsar skuldbindingar þar sem ég reiknaði með 30. Ég útskýrði þetta fyrir henni og hún sagðist þá hafa mig áfram á upphaflega deginum. Svo rennur upp fimmtudagur. Hringir ekki vinkona mín frá spítalanum og spyr hvort ég geti samþykkt að flytja aðgerðina á mánudaginn 28. ? Nei, eiginlega ekki, svaraði ég henni og útskýrði aftur með fundarbókun og sýnatökur. Já, segir hún, þá dregst þetta nú örugglega. Ekki leist mér á það, svo ég sagði henni að ef ekki væri hægt að halda sig við 30. yrði ég að taka þann 28. til að losna við bölvaða teinana. Ég get spurt lækninn segir hún. Svo ítrekar hún að sleppi ég 28. muni aðgerðin dragast. Ég bið hana aftur að tala við lækninn og gá hvort hægt sé að halda sig við 30., þar sem ég vilji ekki vera skorin í september.Þá segir konan pirruð: ég get ekki hringt aftur, þú verður að velja annanhvorn daginn núna. Nú, segi ég, er s.s. 30. enn inni í myndinni, ég hélt að þetta myndi dragast fram í september. Ég nefndi aldrei september, veldu annan daginn segir konan æst. Nú, ég tek 30. segi ég. Það gæti dregist, segir konan þá. Á þessum tímapunkti langaði mig að öskra. Er 30. sem sagt ekki örugg dagsetning spyr ég ? Allt getur breyst, segir konan leyndardómsfull eins og véfrétt og kvaddi. Er það bara ég sem myndi telja að ef aðgerð dregst eitthvað fram yfir 30. ágúst er orðið ansi líklegt að hún endi í september ?? Sem sagt, ég er "sennilega" að fara í aðgerð þann 30. Hef farið í tvær aðrar aðgerðir og þá var ekkert mál að finna dagsetningu. Ó þeir gömlu góðu dagar !

Wednesday, August 23, 2006

Sjálfshjálparbók: Hvernig ná skal móður sinni út af læstu baðherbergi

Síðustu helgi dvaldi ég í góðu yfirlæti í sumarbústað í Ölfusborgum sem móðir mín hafði tekið á leigu. Ég var með Steingrím litla stuðningsson minn með og Helen systir mætti einnig á svæðið með Sölku, tíu ára stelpu sem hún var að passa. Að sjálfsögðu var heitur pottur á staðnum og við systur ákváðum að skella okkur í hann og slappa af. Mamma ætlaði líka í pottinn en hana var hvergi að sjá þegar við systur vorum komnar ofan í. Eftir smá stund fóru einkennileg högg að berast innan úr bústaðnum. Okkur þótti þetta fremur skrýtið og ég kallaði inn: "Ertu farin að reka smíðaverkstæði þarna inni mamma ?". Ekkert svar barst en barsmíðarnar héldu áfram. Loks sagði Salka litla: "Ég held að mamma ykkar sé læst inni á klósetti". Við Helen litum hvor á aðra. Gat þetta virkilega verið ? Við sprungum að sjálfsögðu úr hlátri. Helen spratt svo upp úr pottinum og fór að klósetthurðinni. Ojú, mikið rétt, sú gamla var harðlæst inni og búin að djöflast á hurðinni nokkra stund. Á milli þess sem hún flissaði glaðlega reyndi Helen að hjálpa henni að opna en ekkert gekk. Þá kom ég og reyndi mitt besta. Enginn árangur. Salka litla spurði áhyggjufull hvort hún gæti nokkuð dáið þarna inni ? Við höfðum nú litlar áhyggjur af því, enda baðherbergi sennilega með bestu herbergjum til að læsast inni í þar sem nóg er vatnið og klósett til staðar. Loks höfðum við gert allt sem við gátum. Það var bara eitt eftir í stöðunni. Og það var að hringja í Svanhildi systur og deila með henni þessum bráðfyndna atburði. Vart þarf að taka fram að henni fannst þetta ekkert sérlega sorglegt. Helen fór svo og reddaði númeri hjá umsjónamanni bústaðanna og kom hún á staðinn með verkfæratösku og reyndi að skrúfa húninn úr. Helen rétti mömmu bjór inn um gluggann til að róa taugar gömlu konunnar. Við vorum farnar að sjá fyrir okkur að þurfa að senda henni matarbirgðir sömu leið. Jæja, umsjónarkonan gat ekkert gert og var því kallaður til karlmaður úr næsta bústað sem sparkaði upp hurðinni. Mamma var frelsinu fegin og lofaði það að nú væri að minnsta kosti ómögulegt að læsa sig þarna inni aftur. Við stungum þá upp á því að hún reyndi að læsa sig inni í geymslunni næst. Heldur tók hún fálega í það. Þetta var óvænt skemmtun sem mun skilja eftir minningar sem við systur getum yljað okkur við í mörg ár.

Friday, August 18, 2006

Eigum við að skreppa í efnalaugina ?

Tengdarmamma Sifjar vinkonu var að segja mér að sundlaugin á Eskifirði er nú í daglegu tali nefnd "Efnalaugin". Muahaahahhahha :-)

Tuesday, August 15, 2006

Árás vatnsslöngunnar eða sagan af Svövu hinni holdvotu

Á mánudagsmorguninn fór ég með bílinn minn í viðgerð. Einhver stelpukjáni var svo indæl að bakka á nefið á honum og setja fallega v-laga dæld í stuðarann. Árekstursstaðurinn var nákvæmlega á miðjum stuðaranum og bílnúmerið stóð út eins og opinn fuglsgoggur eftir höggið. Þar sem bíllinn var verulega skítugur eftir hringferð okkar mæðgna um landið ákvað ég að fara og þvo hann á sunnudaginn. Ómögulegt að mæta með bílinn svona á verkstæðið. Ég var lengi að herða mig upp í að fara en tókst með ótrúlegum viljastyrk að koma mér og bílnum út á þvottaplan næstu Shell stöðvar. Bílaþvottur hefur aldrei verið mitt uppáhald enda fylgir honum oftast blautir fætur og hendur. Jæja, ég greip mér kúst í hönd og skrúfaði einbeitt frá vatninu, aldeilis til í slaginn. Þá losnaði slangan af kústinum og tók að hringsnúast upprétt á planinu alveg eins og eiturslanga. Það var engu líkara en að slangan hvæsti ógnandi um leið og hún jós yfir mig vatni af miklum krafti. Ég stökk að krananum og reyndi að skrúfa fyrir vatnið. Viti menn, haldið þið að kraninn hafi ekki verið bilaður. Það tók því nokkrar mikilvægar sekúndur í viðbót að finna út rétta stöðu fyrir hann til að stoppa árans vatnsrennslið. Loksins tókst mér að loka fyrir vatnið og slangan lyppaðist niður örmagna eftir hamaganginn. Eftir stóð ég, holdvot og frekar pirruð. Bíllinn var enn jafn skítugur og því ekkert annað að gera en að grípa næsta kúst. Sá lak hressilega við endann, en slíkir smámunir skiptu mig ekki máli þar sem það var hvort sem er ekki þurr þráður á mér. Það var frekar köld og vot kona sem staulaðist inn í nýþveginn bílinn sinn kortéri síðar. Það var ekki hamingjubros á hennar vörum, trúið mér.