Friday, August 25, 2006

Hversu erfitt er að bóka eina aðgerð ??

Eins og alþjóð veit braut ég á mér ökklann nú á vordögum. Við það tilefni stungu læknarnir tveimur teinum inn í ökklann og þremur ansi stórum skrúfum. Nú er sem sagt fyrirhugað að fjarlægja fyrrnefnda teina, skrúfurnar fá hinsvegar að vera á sínum stað þar til ég hrekk upp af. Verður gaman fyrir fornleifafræðinga að krukka í mín bein. Læknirinn minn sagði mér í júlí að aðgerðin yrði gerð um miðjan ágúst. Hringt yrði í mig í byrjun mánaðarins til að gefa mér dagsetningu. Jæja, júlí endar og ágúst byrjar. Fyrsta vikan í mánuðinum líður. Svo fer að líða á aðra vikuna. Þann 11. ágúst hringi ég í spítalann og tala við konuna sem sér um að bóka aðgerðir. Hún sagði mér að deildin væri enn lokuð, læknarnir meira eða minna í fríi og ég fengi ekki tíma fyrir aðgerð fyrr en 30. ágúst. Allt í lagi, 30. flokkast seint sem miður mánuður, en að minnsta kosti var þetta í ágúst. Vitandi þessa dagsetningu bókaði ég mig í eftirlit og fundi í vinnunni og sagði yfirmönnum að ég færi undir hnífinn þennan dag. Á mánudagseftirmiðdaginn síðasta hringir svo gemsinn. Þá er það konan góða að hringja og spyrja hvort ég kæmist í aðgerð á miðvikudagsmorguninn. Nei, ekki væri það hægt, ég var jú búin að gera ýmsar skuldbindingar þar sem ég reiknaði með 30. Ég útskýrði þetta fyrir henni og hún sagðist þá hafa mig áfram á upphaflega deginum. Svo rennur upp fimmtudagur. Hringir ekki vinkona mín frá spítalanum og spyr hvort ég geti samþykkt að flytja aðgerðina á mánudaginn 28. ? Nei, eiginlega ekki, svaraði ég henni og útskýrði aftur með fundarbókun og sýnatökur. Já, segir hún, þá dregst þetta nú örugglega. Ekki leist mér á það, svo ég sagði henni að ef ekki væri hægt að halda sig við 30. yrði ég að taka þann 28. til að losna við bölvaða teinana. Ég get spurt lækninn segir hún. Svo ítrekar hún að sleppi ég 28. muni aðgerðin dragast. Ég bið hana aftur að tala við lækninn og gá hvort hægt sé að halda sig við 30., þar sem ég vilji ekki vera skorin í september.Þá segir konan pirruð: ég get ekki hringt aftur, þú verður að velja annanhvorn daginn núna. Nú, segi ég, er s.s. 30. enn inni í myndinni, ég hélt að þetta myndi dragast fram í september. Ég nefndi aldrei september, veldu annan daginn segir konan æst. Nú, ég tek 30. segi ég. Það gæti dregist, segir konan þá. Á þessum tímapunkti langaði mig að öskra. Er 30. sem sagt ekki örugg dagsetning spyr ég ? Allt getur breyst, segir konan leyndardómsfull eins og véfrétt og kvaddi. Er það bara ég sem myndi telja að ef aðgerð dregst eitthvað fram yfir 30. ágúst er orðið ansi líklegt að hún endi í september ?? Sem sagt, ég er "sennilega" að fara í aðgerð þann 30. Hef farið í tvær aðrar aðgerðir og þá var ekkert mál að finna dagsetningu. Ó þeir gömlu góðu dagar !

2 comments:

Anonymous said...

Kræst! Rosalega fer allur þessi sparnaður í taugarnar á mér, og greinilega starfsfólkinu líka.
Ég á bók sem heitir „Do it yourself í læknisfræði“. Ég skal hjálpa þér að ná þessu drasli úr löppinni á þér. Ég er viss um að saman gætum við það vel. Hver þarf geðilla lækna og klikkaðar hjúkkur (af vítamínskorti vegna lækkaðra launa kannski) ef maður bara getur þetta sjálfur? Ókeypis og allt. Svo þekki ég gaur sem veit hvar maður getur reddað morfíni!

Svava said...

Líst vel á þetta plan. Amk ef við náum í morfínið. Eftir fyrra ökklabrotið voru mér gefnar tvær morfínsprautur á staðnum. Lífið var undir eins léttara og ég fór að reyna við sjúkraflutningsmennina á leiðinni á sjúkrahúsið. Morfín rokkar feitt. Spurning hvort við reynum að stela röntgenmynd frá spítalanum, myndi sennilega hjálpa að vita hvar teinarnir eru staðsettir, annars verður subbulegt.