Tuesday, November 30, 2004

Ég fór í bíó bara ber

Í kvöld fór ég í bíó á Bridget Jones - The edge of reason. Ég skemmti mér konunglega, mæli með henni fyrir hvern sem er. Mikið vesen hafði kostað að skipuleggja þessa bíóferð, en það tókst að lokum og það var fullt hús í mætingu, heill hópur af vinkvensum var í bíó og þar að auki mættu Hilda, Svanhildur og Guðlaug dóttir hennar. Nema hvað, þegar ljósin slokknuðu og brandararnir byrjuðu að fjúka byrjuðum við systur að hlæja. Og já, við hlæjum oft ansi hátt. Og innilega. Og lengi. Eftir myndina stóðum við í hnapp fyrir utan í nepjunni og vorum að spjalla áður en haldið væri heim á leið. Þá vatt mín ástkæra dóttir Hilda sér að mér og segir með þjósti: það er ómögulegt að fara með þér í bíó, maður dauðskammast sín ! Þú hlærð svo hátt, það er eins og öskur stundum. Og Svanhildur líka ! Ég reyndi að benda henni á að hún ætti nú að vera vön þessu, enda búin að umgangast fjölskylduna okkar í 11 ár, og við Svanhildur langt í frá einu meðlimir hennar sem reka upp hláturrokur. Hún horfði mig illilega og hvæsti eitthvað um að haga sér svona innan um annað fólk og hún hefði viljað vera í annarri sætaröð. Halló unglíngur ! Gelgjan er komin í bæinn !

Friday, November 26, 2004

Ég vann, ég vann !!!!!!!!!!!!!!

Jæja, lukkan er með mér! Um daginn var ég inni á heimasíðu Brüel og Kjær (sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í hljóðmælum og öllu sem varðar hljóðmál). Ég var að leita að nýjum mæli fyrir vinnuna og þá rakst ég á litla auglýsingu í horni heimasíðunnar. Maður átti að svara 3 spurningum um nýja hljóðmælinn þeirra og þá komst maður í pott til að vinna 64 MB minnislykil í laginu eins og hljóðmæli. Ég tók þátt og viti menn, í dag fékk ég pakka frá Danmörku með minnislykli !!!! Hann er verulega sætur ;-) Gaman að vinna í samkeppni á alþjóðlegri heimasíðu :D

Wednesday, November 24, 2004

Sjúkrapyntingar

Sjúkraþjálfarinn minn er alveg einstakur maður. Hann tekur á móti manni skælbrosandi, spyr mann hvernig maður hefur það og síðan hefst hann handa við að pynta mann á hinn hroðalegasta hátt. Einstök leikni hans við að finna viðkvæma bletti er eitthvað sem gagnast hefði KGB og STASI hér á árum áður. Og já, ég veit að þetta er allt gert til góðs, ég verð betri í skrokknum á eftir en það gerir þetta ekki minna sársaukafullt. Um daginn var hann búinn að finna hvellaumt svæði upp við hryggsúluna og var á fullu að skemmta sér þar þegar barið var að dyrum. Þar var annar sjúkraþjálfari kominn til að fá smá ráðleggingar. Á meðan þau spjölluðu rólega saman hélt hann áfram að djöflast og þurfti ég að berjast við ólýsanlegan sársauka og nær óviðráðanlega löngun til að spretta upp og kyrkja sjúkraþjálfarann í nauðvörn. Aðeins með ótrúlegri hörku og stjórn á sjálfri mér tókst mér að bæla öll viðbrögð niður. Eins gott, annars hefði ég þurft að drepa vitnið líka. Á einum tímapunkti var ég farin að sjá afa og ömmu vinka til mín frá endanum á ljósgöngunum. Ég verð samt að játa að ég er muuuun betri þrátt fyrir hörmungarnar. Ekki vera samt hissa ef forsíðan á DV fjallar um sjúkraþjálfara sem verður fyrir árás snargeggjaðs skjólstæðings.

Wednesday, November 17, 2004

Bakverkir

Jæja, nú ætlar bakhelvítið algerlega að drepa mig. Vaknaði síðustu nótt með nístandi verki og þurfti að ganga um gólf í kortér áður en ég varð nógu góð til að leggjast niður aftur. GAAAA. Fór að íhuga hvort ekki væri góð hugmynd bara að fremja harakiri og losna þannig við allt fótavesenið. Fór inn í eldhús, kíkti aðeins á brauðhnífinn minn og komst að því að hann er ekki beinlínis af sömu gæðum og Hattori Hanzo sverð. Hætti því við þá athöfn. Tók minn ástkæra naggrís upp og klappaði honum til að leiða hugann að öðru en logandi bakinu. Tókst ágætlega, þar til hann fór að halda uppi samræðum við föður sinn sem er hér í pössun í stofunni. Þetta endaði með kurri og purri, svo ég setti hann í búrið aftur. Er líf mitt ekki æsispennandi ? Ætli framleiðendur Íbúfens veiti verðlaun þeim sem kaupir flest glös á ári ? Er afar pirrandi að aðeins má kaupa eitt glas af 400 mg íbúfen í apótekunum, er einhver regla til að koma í veg fyrir ofnotkun. Eins og það stoppi mig ! Fer bara í næsta apótek og kaupi annað glas ! Eru hvort sem er 3 apótek í Mjóddinni. Hah ! In your face, Lyfjastofnun !