Tuesday, November 30, 2004

Ég fór í bíó bara ber

Í kvöld fór ég í bíó á Bridget Jones - The edge of reason. Ég skemmti mér konunglega, mæli með henni fyrir hvern sem er. Mikið vesen hafði kostað að skipuleggja þessa bíóferð, en það tókst að lokum og það var fullt hús í mætingu, heill hópur af vinkvensum var í bíó og þar að auki mættu Hilda, Svanhildur og Guðlaug dóttir hennar. Nema hvað, þegar ljósin slokknuðu og brandararnir byrjuðu að fjúka byrjuðum við systur að hlæja. Og já, við hlæjum oft ansi hátt. Og innilega. Og lengi. Eftir myndina stóðum við í hnapp fyrir utan í nepjunni og vorum að spjalla áður en haldið væri heim á leið. Þá vatt mín ástkæra dóttir Hilda sér að mér og segir með þjósti: það er ómögulegt að fara með þér í bíó, maður dauðskammast sín ! Þú hlærð svo hátt, það er eins og öskur stundum. Og Svanhildur líka ! Ég reyndi að benda henni á að hún ætti nú að vera vön þessu, enda búin að umgangast fjölskylduna okkar í 11 ár, og við Svanhildur langt í frá einu meðlimir hennar sem reka upp hláturrokur. Hún horfði mig illilega og hvæsti eitthvað um að haga sér svona innan um annað fólk og hún hefði viljað vera í annarri sætaröð. Halló unglíngur ! Gelgjan er komin í bæinn !

3 comments:

Björg said...

AHAHAHAHAHA :D Aumingja Hilda litla!! :D Að eiga svona hallærislega mömmu!!! :D

Steingerdur hin storskorna said...

Mikið skil ég barnið. Oft hef ég skammast mín ofan í skó fyrir ykkur systur mínar. Pent hláturkjöltur mitt er nefnilega svo kurteislegt. Já, það er sorglegt að vita að barnið skuli þurfa að bera þess sár um ævinlöng ár sem aðeins var móður hennar stundarhlátur.

Svava said...

Hláturkjöltur þitt hefur einmitt gefið mér ástæðu til margra tíma umræðu við geðlækninn minn sem er að reyna að vinna úr mínu childhood trauma, öllu systratengdu. Er þegar búin að panta tíma fyrir Hildu, á 18 ára afmælisdaginn hennar.