Sjúkraþjálfarinn minn er alveg einstakur maður. Hann tekur á móti manni skælbrosandi, spyr mann hvernig maður hefur það og síðan hefst hann handa við að pynta mann á hinn hroðalegasta hátt. Einstök leikni hans við að finna viðkvæma bletti er eitthvað sem gagnast hefði KGB og STASI hér á árum áður. Og já, ég veit að þetta er allt gert til góðs, ég verð betri í skrokknum á eftir en það gerir þetta ekki minna sársaukafullt. Um daginn var hann búinn að finna hvellaumt svæði upp við hryggsúluna og var á fullu að skemmta sér þar þegar barið var að dyrum. Þar var annar sjúkraþjálfari kominn til að fá smá ráðleggingar. Á meðan þau spjölluðu rólega saman hélt hann áfram að djöflast og þurfti ég að berjast við ólýsanlegan sársauka og nær óviðráðanlega löngun til að spretta upp og kyrkja sjúkraþjálfarann í nauðvörn. Aðeins með ótrúlegri hörku og stjórn á sjálfri mér tókst mér að bæla öll viðbrögð niður. Eins gott, annars hefði ég þurft að drepa vitnið líka. Á einum tímapunkti var ég farin að sjá afa og ömmu vinka til mín frá endanum á ljósgöngunum. Ég verð samt að játa að ég er muuuun betri þrátt fyrir hörmungarnar. Ekki vera samt hissa ef forsíðan á DV fjallar um sjúkraþjálfara sem verður fyrir árás snargeggjaðs skjólstæðings.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment