Thursday, June 29, 2006
Lessa í boltanum
Boltaíþróttir kvenna hafa það orðspor að aðeins lesbíur vilji taka þar þátt. Fólk sem telur sig nokkuð þroskað pirrar sig á þessum fordómum og reynir að kæfa þá niður. Fréttin sem ég las á visir.is í dag kemur ekki til með að hjálpa málstaðnum. Fyrirsögnin var: "Lessa til Fylkis". Þeir voru s.s. að fá til liðs við sig leikmann að nafni Christine Lessa. Af öllum löndum sem þessi blessuð stúlka hefði getað valið til að stunda kvennafótbolta í, þá þurfti hún að velja Ísland.
Wednesday, June 28, 2006
Hversu mikill nörd er ég ?
Þegar ég lá heima í leiðindum mínum var tölvan mín eina björgun. Ég vafraði um veraldarvefinn í fleiri klukkustundir og skoðaði alls kyns vefsíður. Einn daginn datt ég inn á póstur.is og fann þar tengil inn á síðuna postcrossing.com. Þetta er póstkortaskiptivefur, maður skráir sig og sitt heimilisfang, sendir póstkort á aðra meðlimi og skráir hvenær maður fær póstkort frá einhverjum inn á vefinn. Þegar ég sá þetta kviknaði á öllum ljósum í hausnum á mér svo bjart varð í herberginu og ég skráði mig í einum logandi hvelli. "Þetta er gaman", hugsaði ég, "ég get fengið póstkort frá öllum heiminum!" Jæja, nema hvað, ég fyllti samviskusamlega út póstkort og tók það með í vinnuna til að póstleggja það. Það lá á borðinu hjá mér í morgun og einn samstarfsfélagi tók það og fór að skoða það. Ég hóf þegar að segja honum glaðlega frá postcrossing vefnum og öllum póstkortunum sem ég ætti von á. Ég var kát og glöð þar til að ég leit framan í hann og las hinn hræðilega sannleik úr andlitsdráttum hans..... Ég er MEGA NÖRD ! Ímynd mín sem Fröken Súperkæld er í hættu og ég verð að bregðast strax við. Ég mun byrja á því að slátra vitninu og gæta þess að fara í framtíðinni afar leynt með kortin mín. Ahemm, ég meina, ég mun auðvitað ekkert halda áfram þessum kjánalegu póstkortaskiptum.
Tilvitnun vikunnar
Var hjá Júllu vinkonu áðan í mat. Hún var að ræða við dóttur sína um þá ákvörðun þeirrar stuttu að borða með reiðhjólahjálm á höfðinu og mælti þá þessa ódauðlegu setningu: "Ætlarðu að borða með matinn á höfðinu ???" Fékk svo margar skemmtilegar myndir í hugann...
Heilabilun og drykkjuvandamál
Ég er nú mætt til vinnu aftur eftir nær þriggja mánaða veikindafrí og finnst það afar hressandi að vera innan um fólk á ný. Kanínan er ágætur félagsskapur en ekkert sérstaklega ræðin. Það versta er að ég virðist þurfa að læra að vera í mannlegu samfélagi aftur og sjá um einföldustu hluti eins og að næra mig stórslysalaust. Það hefur nefnilega ekkert gengið snuðrulaust að mæta aftur! Ég hef þróað með mér drykkjuvandamál, sem fellst í því að ég hitti ekki á munninn þegar ég reyni að drekka eða helli helmingnum af drykknum á gólfið. Ég missi mat í kjöltuna á mér og missi hnífapör á gólfið. Ég gleymi nöfnum náinna samstarfsaðila og vina og er sífellt að segja bandvitlaus orð í samræðum svo ég hljóma eins og alger hálfviti. Jafnvel stóð mig að því að stama í dag ?? Svo rek ég hausinn í bíldyr og rek tærnar í allt í kringum mig. Hjálp ! Þetta rjátlar vonandi af mér þegar líða fer á vikuna... annars er ég hælismatur.
Sunday, June 25, 2006
Þú ert ekkert
Síðustu tvær vikur hef ég notið lífsins í Búlgaríu. Sól, hiti, sandur og bjór. Afar yndislegt, sérstaklega þegar maður hugsar um þær tíu vikur sem ég eyddi inn í svefnherberginu mínu fyrir ferðina. Þarna var afar gott að vera. Ólíkt Spáni og öðrum stöðum sem ég hef heimsótt voru allir vel mælandi á enska tungu og því auðvelt að hafa samskipti við heimamenn. Einn daginn röltum við mæðgur niður á strönd og stoppuðum í sölubás til að kaupa okkur sólhlíf. Við völdum eina regnbogalita og ég svipti um pening og rétti afgreiðslustúlkunni. Við tókum svo við sólhlífinni og ég brosti mínu blíðasta til stúlkunar og sagði: Thank you very much. Hún brosti alúðlega til baka og sagði: You are nothing. Hmmm. Mér varð orða vant þegar ég gekk í burtu. Hvað átti hún við ? Var þetta djúp heimspekileg pæling um fánýti okkar stutta mannlífs, þar sem við erum ekkert þegar maður horfir á hinn endalausa alheim og óendanlegan tíma ? Eða hafði þessi stúlka horft inn í sál mína og séð þar ekkert nema tóm ? Enginn hefur þorað að skella því beint í andlitið á mér að ég sé hreinlega EKKERT fyrr en þarna. Dóttir mín skemmti sér konunglega yfir þessu og það sem eftir var ferðar var þetta uppáhaldsbrandarinn hennar. Við gengum fram hjá básnum nær daglega og ég þurfti að halda mér til að hlaupa ekki upp að stúlkunni og öskra: I AM SOMETHING, YOU HEAR ME, I AM A GREAT PERSON ! Náði samt að stilla mig. Kannski var hún bara ekki nógu sleip í ensku.
Tuesday, June 06, 2006
Stuðlaðar fyrirsagnir fyrirséðar og heyrðar
Humm. Ég sé það núna að sumar fyrirsagnirnar á póstunum mínum eru eins og teknar úr Séð og heyrt. Sú venja þeirra að stuðla fyrirsagnir (Fjórar í fríi, Glaðlegur glaumgosi) hefur smitast yfir í bloggið mitt. Hef oft velt því fyrir mér hversvegna blaðið hefur þetta svona. Ekki það að þessar fyrirsagnir hafa oft fengið mig til að hlæja upphátt. Uppáhaldið mitt er og verður "Lúmskar lesbíur". Næst mun ég sennilega taka upp þann sið að setja aldur þeirra sem ég tala um í sviga fyrir aftan nöfnin: Svava (34) fór í bíó með Hildu (13) og hitti þar Helen (44). Svövu var svo vísað út fyrir óspektir af Siggu sætavísu (16).
Saturday, June 03, 2006
Risaambaba ræður ríkjum í rúminu
Eitt af því sem uppeldissérfræðingar vara við er að venja börnin sín á að sofa uppi í rúmi hjá sér. Þessum aðvörunum er sérstaklega beint til hjóna og sambýlisfólks þar sem svefnleysi og annarsskonar leysi sem fylgir dvöl barnanna í rúminu gæti valdið sambúðarerfiðleikum. Sumir halda því fram að þetta gæti endað með skilnaði. Verandi bráðgáfuð, eins og allir vita, hef ég ítrekað bent vinum mínum á hvílík mistök þeir séu að gera ef þeir leyfa börnunum að sofa upp í . Sérstaklega hef ég verið harðorð í þeim dæmum þar sem annar sambúðaraðilinn hefur kosið á flýja hjónarúmið á næturnar til að sleppa við börnin. Ah, það er alltaf svo gaman að kasta steinum í glerhúsi. Maður þarf bara að passa að kasta steinunum út í gegnum veggina en ekki þakið, annars endar maður á að fá glerbrotin í hausinn. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að dóttir mín hefur ansi oft fengið að sofa uppi í rúmi hjá mér. Reyndar liggur hún einmitt núna við hliðina á mér og steinsefur. Ég þarf að vísu ekki að hafa áhyggjur af því að vera hennar í rúminu eyðileggi fyrir mér neitt samband, né hef ég þurft að hafa þær áhyggjur allt hennar líf. Annað mál er með svefnleysið. Á því tímabili sem ég átti 70 cm breitt rúm hafði dóttir mín 65 cm til umráða fyrir sig þegar hún svaf hjá mér, ég hafði auma 5. Síðan fékk ég mér 140 cm rúm úti í Danmörku. Dóttirin fékk þá 135 cm, ég sat enn uppi með 5. Það skiptir engu máli hver stærð rúmsins er, plássið mitt er alltaf jafn lítið. Allt frá því hún var pínulítil hafði Hilda þann hæfileika að skjóta út frá sér ótal útlimum og flæða svo eftir rúminu eins og amaba. Smá saman tókst amöbunni að ýta mér út á ystu brún rúmsins og þá skaut hún fálmurunum sínum yfir mig og umlukti mig. Þetta var ekki beint til þess fallið að tryggja mér góðan nætursvefn, sérstaklega ekki í þeim tilfellum þar sem einn af fálmurunum skall beint á andliti mínu. Oftast gat ég bjargað mér með því að ýta amöbunni út í hinn endann á rúminu og keypti mér þannig dýrmætan svefntíma áður en hún rann yfir í minn enda aftur. Reyndar svaf litla amaban oftast í sínu rúmi en henni þótti alltaf gott að fá að stelast í mömmu rúm svona af og til. Í dag á ég 130 cm breitt rúm. Ég á þrettán ára dóttur sem er um 170 cm að lengd og fílsterk í þokkabót. Amaban er orðin að risaamöbu. Risaamöbunni finnst ennþá gott að kúra hjá mömmu og mamma er svo veik fyrir einkabarninu að hún fær það. Það er hinsvegar lífsins ómögulegt að ýta risaamöbunni yfir í hinn endann á rúminu. Hún berst á móti og er allt of þung. Fálmararnir eru líka miklu þyngri og skella af meiri krafti á fórnarlambinu. Það er að lokum gersamlega ómögulegt að taka hana og bera yfir í sitt eigið rúm. Það yrði þá það síðasta sem ég gerði. Fólk með börn á þessum aldri er venjulega hætt að hafa þetta vandamál en hún er mitt eitt og allt og ég rígheld í litla barnið mitt eins lengi og ég get. Þó það kosti marbletti og hryggskekkju. En auðvitað er þetta óráðlegt hjá öllum öðrum, munið það. Verð að hætta að skrifa, risaamaban var að skella olboganum inn í barkakýlið á mér og ég er að kafna. Góðar stundir.
Friday, June 02, 2006
Hávaðasamt heilnudd
Í dag fór ég í Baðhúsið til að fá 50 mínútna heildnudd. Tvær vinkonur mínar höfðu af gæsku sinni gefði mér gjafakort fyrir nuddinu í afmælisgjöf, en ég var fyrst að skella mér núna vegna kjarasamningsviðræðna/veikinda/beinbrots...blah ! Ég hef aldrei komið í Baðhúsið fyrr og var það mér sérstök gleði að komast að því að móttakan er á annarri hæð og lyftan stoppar ekki þar. Frábært. Ég skrölti á hækjunum upp í móttökuna og fleygði í þær gjafabréfinu. Þá tilkynntu þær mér að innifalið í nuddinu væri afslöppun í heitum potti og gufu. Það vissi ég ekki og var því ekki með sundföt. Ég spurði því af minni alkunnu fyndni hvort ég ætti ekki bara að láta sloppinn falla og fara í pottinn nakin. Afgreiðslustúlkunum þremur stökk ekki bros en sögðust geta lánað mér bol. Ég get svo sem ekki sagt að ég lái þeim, ekki hefði mig langað að sjá mig nakta með visna fótinn minn með Frankenstein örunum. Ein stúlkan gekk nú með mér inn í búningsklefann og útskýrði fyrir mér þessa venjulegu hluti sem útskýrðir eru fyrir hálfvitum á hækjum, svo sem hvernig ætti að smella hengilás á fataskápinn og hvar væri vasi á sloppnum svo ég gæti geymt lykilinn á meðan ég væri í nuddinu. Mér lukkaðist að meðtaka þetta í fyrstu tilraun og þá sýndi hún mér hvar nuddið færi fram. Hún var verulega vandræðaleg þegar hún benti mér niður langan hringstiga að herbergi úti í horni. Auðvitað, gat ekki annað verið en að ég þyrfti að renna mér í fleiri stiga. Ég tróð mér í sloppinn í hvelli, setti lykilinn í vasann eins og lög gerðu ráð fyrir og klöngraðist niður. Stiginn hringaði sig um hugljúfan gosbrunn og þar fyrir neðan var heitur pottur baðaður mjúku ljósi. Fyrir framan nuddherbergið var hálfmyrkvað biðsvæði með mjúkum leðursófum og Bee Gees lög hljómuðu lágt í hátalara. Fullkomið hugsaði ég um leið og nuddarinn leiddi mig inn í nuddklefann sem var lýstur upp með kertaljósum. Ég lagðist alsæl á bekkinn og stúlkan hóf nuddið. Þá heyrðist skyndilega hár hvellur og svo glumdi í gegnum vegginn: EINN TVEIR ÞRÍR FJÓR JE ! Síðan upphófst dúndrandi danstónlist með nokkrum JE JE ÁFRAM TAKA Á öskrum inn á milli. Bee Gees áttu ekki sjens í þetta. Hva, bara stuð, sagði ég við nuddarann. Já, sagði hún vandræðalega, þetta er hádegistíminn. Við nuddararnir höfum oft kvartað yfir hávaðanum. Ég ákvað að láta þetta ekki trufla mig. Í raun gladdi það mig ósegjanlega að ég lá á nuddbekknum að láta dekra við mig meðan fullur salur af konum þurfti að sprikla í klukkutíma við þennan hávaða. Að loknum 50 mínútum reis ég upp af bekknum, alsæl með lífið og tilveruna. Man bara næst að bóka ekki nuddtíma klukkan tólf á hádegi.
Thursday, June 01, 2006
Misskipt er sólbrúnkuláni
Allt frá unga aldri hef ég haft mjög föla, náhvíta húð. Oft og iðulega var andlit mitt yfirlýst á hópmyndum þar sem myndavélarflassið endurkastaðist af því eins og sólarljósið af snjóbreiðu. Svo hvít var ég á veturnar að flugvélar hringsóluðu yfir höfði mér, haldandi að ég væri lendingarljós við flugbrautarenda. Djúpviturt fólk tjáði mér að ég þyrfti bara að fá lit einu sinni og svo myndi þetta vera ekkert mál eftir það. Minn besti árangur varð samt aldrei meira en nokkrar freknur. Loks tókst mér að brenna í framan og varð eldrauð eins og humar. Aha, sögðu hinir djúpvitru, fyrst verður þú rauð og svo kemur brúnkan í ljós! Ég beið og beið, en viti menn: þegar rauði liturinn hvarf kom sá hvíti bara aftur í ljós. Engin brúnka fyrir Svövu. Heimsóknir á sólarstrandir leiddu í ljós þá bráðskemmtilegur staðreynd að ég hef hreinlega ofnæmi fyrir sólinni og fæ glæsilegt sólarexem ef ég gæti mín ekki. Hið ótrúlega gerðist reyndar í fyrra, á Unglingalandsmóti UMFÍ (var þar með dóttur minni sem var að keppa, er hvorki unglingur né íþróttfrík) fékk ég smá lit í andlitið. Það er þó erfitt að gleðjast yfir þessum árangri þegar einkadóttir mín og erfingi sprangar um með gullinbrúnan hörundslit meiri hluta ársins. Það þarf varla annað en að kveikja á lampa nálægt henni, þá er hún orðin eins og súkkulaði. Ég sá þennan mun á húðlit okkar mæðgna í fyrsta sinn sem ég fór með ungabarnið í bað. Þegar ég lagði það á bláhvíta bringuna á mér sást þegar að húð þess var mun dekkri. Í kvöld kom svo téð einkadóttir heim í heiðardalinn og sýndi mér stolt bikinifarið sitt, enda þegar orðin súkkulaðisælubrún, þrátt fyrir kuldaskítaveður í sumarbyrjun. Er þetta réttlátt, ég bara spyr ? Mín eina huggun í þessu máli öllu er sú að ég get alltaf glatt vinkonur mínar þegar þær kvarta yfir því hvað þær eru gráar og guggnar. Þær þurfa ekki annað en að bera sig saman við mig og skapið batnar þá þegar. Reyndar ætti ég bara að hætta þessu röfli og sætta mig við það að ég er bara sérhönnuð fyrir íslenskar aðstæður og á ekki nálægt sólarljósi að koma. Er samt að vona að úti í Búlgaríu gerist kraftaverkið og ég fái jafnvel tíu freknur í ár !
Subscribe to:
Posts (Atom)