Wednesday, June 28, 2006

Hversu mikill nörd er ég ?

Þegar ég lá heima í leiðindum mínum var tölvan mín eina björgun. Ég vafraði um veraldarvefinn í fleiri klukkustundir og skoðaði alls kyns vefsíður. Einn daginn datt ég inn á póstur.is og fann þar tengil inn á síðuna postcrossing.com. Þetta er póstkortaskiptivefur, maður skráir sig og sitt heimilisfang, sendir póstkort á aðra meðlimi og skráir hvenær maður fær póstkort frá einhverjum inn á vefinn. Þegar ég sá þetta kviknaði á öllum ljósum í hausnum á mér svo bjart varð í herberginu og ég skráði mig í einum logandi hvelli. "Þetta er gaman", hugsaði ég, "ég get fengið póstkort frá öllum heiminum!" Jæja, nema hvað, ég fyllti samviskusamlega út póstkort og tók það með í vinnuna til að póstleggja það. Það lá á borðinu hjá mér í morgun og einn samstarfsfélagi tók það og fór að skoða það. Ég hóf þegar að segja honum glaðlega frá postcrossing vefnum og öllum póstkortunum sem ég ætti von á. Ég var kát og glöð þar til að ég leit framan í hann og las hinn hræðilega sannleik úr andlitsdráttum hans..... Ég er MEGA NÖRD ! Ímynd mín sem Fröken Súperkæld er í hættu og ég verð að bregðast strax við. Ég mun byrja á því að slátra vitninu og gæta þess að fara í framtíðinni afar leynt með kortin mín. Ahemm, ég meina, ég mun auðvitað ekkert halda áfram þessum kjánalegu póstkortaskiptum.

2 comments:

Anonymous said...

OHHHHH, það er töff að vera nörd!!! Ekki hætta því, plís!!! Svo verður svo gaman að lesa um það´á blogginu þínu þegar þú færð póstkort frá Nýju Delí eða Kasakstan!!!

Svava said...

Jamms, eða frá Mo i Rana í Noregi. Mo i Rana er svo töff nafn...