Tuesday, July 11, 2006
Færa fjögurra laufa smárar manni lukku ?
Nýjasta æðið hjá mér er tölvuleikur á leikjanet.is sem heitir Lucky clover. Leikurinn er sáraeinfaldur, hann felst í því að leita í gegnum smárabreiðu að 7 fjögurra laufa smárum sem þar eru faldir. Fyrst gekk ekkert sérstaklega vel að finna þá en brátt var ég farin að finna 6 af 7 í flestum spilum. Því miður gekk illa að finna þann sjöunda, ekki bætir úr skák að spilið virðist hafa eigin skoðanir á því hvenær tíminn er útrunninn. Þó svo talið sé niður úr 300 sekúndum hættir spilið snögglega á bilinu 40-70 og maður er kvaddur með virktum. Fnys. En þrátt fyrir ágallana er ég sjúk í spilið og hefur mér nú lukkast að finna alla sjö smárana í einu spili. Svo tekur við að reyna að bæta metið. Ástæðan fyrir því hve vel mér fellur við leikinn er falin í fortíðinni. Þegar ég var barn elskaði ég að leita að fjögurra laufa smárum hingað og þangað um hverfið. Þrátt fyrir ítrekaða leit tókst mér ekki að finna fjögurra laufa smára fyrr en kvöld eitt þegar ég var 12 ára og var að leika mér við Æfingaskólann. Ég var orðin þreytt og lét mig fallast niður í grasið á baklóðinni og lenti beint í smárabreiðu. Af gömlum vana renndi ég augunum eftir henni og viti menn ! Við mér blasti fjögurra laufa smári !! Ég kallaði á hina krakkana í hvelli og allir fóru að leita að fleiri lukkugripum í breiðunni. Eftir skamma stund fann önnur stúlka ferlaufung. Svo fann ég tvo með fimm laufum. Og svo einn með sex laufum !! Hmm, við vorum greinilega lent í stökkbreyttri smáraáras úr geimnum. Ég fór með herfangið heim og spurði mömmu hvort meiri heppni fylgdi fimm og sex laufa smárum ? Mamma leyfði sér að vera efins í því að maður græddi eitthvað á aukalaufunum. Í mörg ár hafði ég smárana góðu innrammaða í herberginu mínu. Loks pakkaði ég þeim niður og týndi þegar ég var komin á fullorðinsár. Enda hefur heppni mín verið eftir því. Ég þarf að finna annan fjögurra laufa smára. Ekki bara í spilinu, heldur einn ekta lukkusmára. Miðað við atburði síðustu ára þarfnast ég kannski fimm eða sex laufa smára, jafnvel sjölaufa ? Tölti kannski fram hjá gömlu skólalóðinni við tækifæri. Ef til vill leynist lukkusmári þar enn.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
6 comments:
I did not understand nothing. But I think that it must be un excellent blog.
Hmmm, þessi pía á undan mér er bara að reyna að lokka þig á síðuna sína ... eða hvað? Er ég orðin of tortryggin út í mannfólkið? En nú ætla ég beint á leikjanet.is og prófa Lucky clover. Takk fyrir the ábends! Orðin þreytt á Spider-kapal og Jewel Quest, eða svona bráðum. Lucky dæmið er bara á Netinu, ekki satt? Þannig að ég fer á hausinn.
Huh, og þessi pía er með tvöfalda neitun í setningu, skamm skamm, þarf að læra ensku áður en hún treður kommentum inn á blogg annarra :-)
Hehhe, tók ekki eftir því. En þegar ég var au pair í London (talaði litla ensku til að byrja með) var þetta eitt af því fyrsta sem ég lærði, mér fannst ég strax orðin betri í enskunni en margir nágrannar okkar í Acton Town. Samt var ég hjá íslensku fólki! Joan, mamma Jane og Paul, talaði alltaf svona en ég fyrirgaf henni því að henni fundust íslenskar pönnukökur betri en þær bresku!
Keep up the good work. thnx!
»
Really amazing! Useful information. All the best.
»
Post a Comment