Thursday, July 06, 2006
Mávahlátur
Í gærkveldi kom ég seint heim eftir velheppnað spilakvöld með fjörugum vinkvensum. Ég var orðin ansi lúin og kastaði mér dauðfegin í rúmið eftir kvöldsturtuna. Ég pakkaði mér vel inn í sængina og fann að ég var þegar að síga inn í draumalandið. Þar sem ég lá þarna milli svefns og vöku rauf hátt og ergjandi hljóð kyrrðina. Fyrst hljómaði þetta eins og ein af þessum pirrandi bílaþjófavörnum. Hljóðið var stöðugt, taktfast Aik aik aik aik aik og var alltaf í sömu tóntegund. Þegar hljóðið hafði verið stöðugt í um 5 mínútur var ég glaðvöknuð, örg og svekkt. Ég kíkti út um gluggann og sá þá máv sitja á ljósastaur andspænis götunnar. Goggurinn á honum var opinn og höfuðið vísaði til himins. Andskotinn, hugsaði ég, ekki getur það verið mávurinn sem er að gefa frá sér þetta sírenuhljóð ?? Ég opnaði gluggann og um leið hækkaði hljóðið um allan helming. Og ójú, þetta var mávurinn. Þarna tróndi hann efst á ljósakúplinum, argandi þetta óþolandi hljóð án hléa. Viltu vinsamlegast halda kjafti sagði ég út í nóttina, meira við sjálfa mig en mávinn, þar sem ég lagði ekki alveg í að öskra á hann klukkan að ganga hálf tvö um nótt. Þessum blessuðum máv virtist liggja mikið á hjarta. Kannski var hann búinn að frétta af fyrirhuguðum fjöldamorðum á vegum borgarinnar og vildi því koma sínum mótmælum á framfæri við mig, borgarstarfsmanninn. Eða kannski var hann óheppinn í ástum og var að tjá vonbrigði sín. Hver svo sem ástæðan var þá hélt þessi elska (sem vonandi verður á vegi meindýraeyða fljótlega) áfram að garga stanslaust í 20 mínútur. Þegar hann loksins þagnaði lá ég beinstíf í rúminu með samanbitnar tennur og löngu komin úr öllu svefnstuði. Eftir um mínútu hlé byrjaði hann aftur en snarþagnaði fljótlega. Mér til mikillar gleði var hann floginn á braut þegar ég leit út um gluggann. Þarf vart að taka fram að ég var frekar þreytuleg í vinnunni í morgun. Mávahlátur hefur kannski vinninginn í keppninni mest óþolandi hljóðið, en munið þið mávar, sá hlær best sem síðast hlær...
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Vá, aldrei heyrt um breimandi máv - en þetta er rétt hjá þér, hann mótmælir bara fyrirhuguðum fjöldamorðum!!!
P.s. TAKKKKK fyrir síðast!
Takk sömuleiðis :-)
Post a Comment