Tuesday, July 04, 2006
Steiktur rass
Í gær skellti ég mér í sund með Helen systur. Ég tek það fram að ég athugaði vel hvort hún væri nokkuð að flissa og gelta áður en ég hætti mér af stað með henni. Við fórum í Árbæjarlaugina, hverfislaug Helenar sem hún hefur heimsótt mun oftar en ég. Við sátum drjúga stund og nutum lífsins í heita nuddpottinum. Síðan stakk Helen upp á því að við færum í gufuna. Fínt sagði ég en ég hafði ekki vitað að boðið væri upp á gufu þarna. Jæja, við skellum okkur inn í klefann og Helen kemur sér fyrir út í horni og ég ætla að setjast á bekkinn við hliðina á henni. Mér til skelfingar var bekkurinn sjóðheitur, enda úr málmi. Ég fór að kvarta yfir þessu við Helen sem sagði bara að þetta hefði verið enn verra þegar trébekkirnir voru þarna. Ég prófaði nú margar mismunandi stellingar en ekkert dugði, rassinn á mér var hreinlega að steikjast í gegn. Á meðan sat Helen hin ánægðasta í sínu horni. Hún er greinilega alveg tilfinningalaus í botninum. Loks gafst ég upp og dró hana með mér út úr litla vítisklefanum, með 3. gráðu brunasár á bossanum. Þegar við komum út og inn í lítið andyri fyrir framan gufuna rak ég augun í kassa á veggnum. Í honum voru plastspjöld ætluð til að vernda rassa gufubaðsgesta. Aaa já, ég var búin gleyma þessu, sagði ástkær systir mín. Þurfti að taka á öllu mínu til að sleppa því að dýfa hausnum á henni niður í laugina og halda honum þar. Var aum í rassinum fram að kvöldmat.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Maður á bara ekkert að fara í sund, hvað þá gufu. Þetta er greinilega stórhættulegt. Þú manst hvað kom fyrir fólkið fyrir austan um daginn, það var í sundi. Hef ekki farið í sund í mörg, mörg ár og lifi afskaplega góðu lífi, svona þegar ég kemst á fætur á morgnana ...
Hlakka ekkert smá til að hitta þig með Steinku á morgun!!! STEINgerðarAsafnið bíður eftir okkur!
JEJEJEJE !!!
Post a Comment