Monday, July 17, 2006

Sítrónuilmur er lykt hreinlætisins

Í dag stoppaði nágranni mig í stiganum á leiðinni út til að ræða við mig skort á þvottaefni fyrir sameignina. Ég er formaður húsfélagsins og sé því um öll innkaup. "Mundu að kaupa með sítrónulykt", sagði nágranninn ákafur um leið og ég hvarf út um dyrnar. Jahá, hugsaði ég, hvað annað. Síðan ég flutti hér inn fyrir 5 árum hefur alltaf verið sítrónuilmur tengdur þrifum á sameigninni. Fyrst gaus ilmurinn upp vikulega á föstudögum þegar hreingerningaþjónustan okkar kom til að þrífa. Eftir nokkurn tíma komumst við að því að það eina sem útsendarar þjónustunnar gerðu var að ganga upp og niður stigann og úða sítrónuilm til að gabba okkur til að halda að allt væri hreint. Þeim var í kjölfarið sagt upp og við tókum þrifin að okkur sjálf. En sítrónuilmurinn hélt áfram. Þáverandi húfélagsformaður keypti sítrónu Ajax fyrir gólfin og sítrónugluggahreinsi. Ef ekki fannst sítrónuilmur á sunnudegi var nokkuð víst að einhver var ekki að standa sig í sameignarþrifum. Enda kepptust flestir við að úða sítrónuhreinsinum á allt sem fyrir varð til að sanna að búið væri að þrífa. Nú er greinilega svo komið að fólkið hér er orðið háð sítrónuilminum. Þegar ég fór að hugsa um þetta fór ég svo að skoða hreinisefnin mín fyrir heimilið. Klósetthreinsirinn, leysigeislinn og uppþvottalögurinn eru allir með sítrónuilmi ! Og sérstöku Ajax klósetthreinsiklútarnir líka. Fimm ár hér í húsinu gera mann sem sagt að sítrónulyktarfíkil ! Hver eru meðferðarúrræðin ??

4 comments:

Anonymous said...

Því miður er engin lækning við þessu. Eina ráðið er að flytja út. Hehehhe, fyndinn stigagangur hjá þér.

Anonymous said...

Gott ráð er að prufa kaupa hreinsiefni með öðrum ilm og athuga hvort það komi samt sem áður ekki sama hreinlætistilfinningin.

Gott væri að byrja á uppþvottaleginum, hann er oft í notkun og þú gætir vanist nýrri lykt, t.d. eplailm :)

Bestu kveðjur
Magga ráðagóða

Svava said...

Ég ætla að nota þetta ráð og byrja hægt, á uppþvottaleginum. Ég býst við fullum stuðningi frá þér Magnea :-)

Anonymous said...

Your site is on top of my favourites - Great work I like it.
»