Wednesday, July 26, 2006
Svava í mýflugumynd
Ég tók mig til í gærkvöldi og rölti niður að Elliðavatni. Þetta er leið sem ég hef gengið ansi oft síðan ég flutti hingað í Breiðholtið og hef alltaf jafngaman af. Fjarlægðin fram og tilbaka er um 3 km. Leiðin liggur yfir ánna, undir vegbrúnna, meðfram ánni og þýfðum móum niður að stíflunni við vatnið. Í gær var dásamlegt veður. Alveg stillt, hlýtt og sólin ekki of sterk. Ég var því í góðu skapi og létt í spori. Lítill lóuungi spígsporaði á undan mér eftir göngustígnum drjúgan spöl, skúfönd synti á ánni með fjóra litla hnoðra og í grynningunum við brúnna sá ég tvo laxa. Fullkomið kvöld, hugsaði ég um leið og ég nálgaðist stífluna. Ég gekk upp að grindverkinu sem er á garðinum við stífluna og horfði dáleidd yfir spegilslétt vatnið. Lífið var yndislegt í nokkrar sekúndur, síðan birtist fyrsta mýflugan. Svo sú næsta. Þá um tvö þúsund vinir þeirra. Já, bráðum var þarna risapartí og í því ein sem var ekki boðið. Það var alveg sama hvernig ég reyndi að banda flugunum frá mér, þær virtust bara æsast upp við það og þéttu hópinn. Ég brá því á það ráð að ganga til baka hröðum skrefum í von um að stinga flugurnar af. Litlu andskotarnir voru búnir að sjá þessa lausn fyrir og búnir að kalla á liðsauka allt í kring. Það var sama hvert ég gekk, allt var morandi í mýflugum. Sem fylgdu mér eins og þrumuský. Að lokum var ég komin lafmóð í brekkuna upp að húsinu mínu. Flestar flugurnar voru þá búnar að gefast upp en ég hef ekki tölu á þeim sem létu lífið í augnkrókunum á mér, í hárinu þegar ég strauk það frá andlitinu eða í munninum á mér þegar ég tók andköf af mæði. Mun taka með mér brúsa af einhverju eitruðu í næsta göngutúr !
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
5 comments:
Hef ég ekki alltaf haldið því fram að það sé nauðsynlegt að reykja? Og það bara til að geta brugðist rétt við í svona aðstæðum ... kveikt sér í!
Þú ert allt of heilbrigð! Þú getur líka tekið mig með í næstu gönguferð, ég skal reykja fyrir okkur báðar.
Það er aðeins eitt ráð við mýflugum og það er hið fornkveðna If you can't beat them join them. Sá sem vill verða mýfluga getur losnað við óþægindi af þessu tagi. Aðrir verða bara að reyna umgangast þær í mýflugumynd.
Flott Gurrí, þú virkar s.s. sem flugnaeitrið mitt í næsta göngutúr :-) En miðað við fjöldann þarftu örugglega að reykja nokkra stóra vindla.
Nice idea with this site its better than most of the rubbish I come across.
»
This site is one of the best I have ever seen, wish I had one like this.
»
Post a Comment