Wednesday, August 23, 2006
Sjálfshjálparbók: Hvernig ná skal móður sinni út af læstu baðherbergi
Síðustu helgi dvaldi ég í góðu yfirlæti í sumarbústað í Ölfusborgum sem móðir mín hafði tekið á leigu. Ég var með Steingrím litla stuðningsson minn með og Helen systir mætti einnig á svæðið með Sölku, tíu ára stelpu sem hún var að passa. Að sjálfsögðu var heitur pottur á staðnum og við systur ákváðum að skella okkur í hann og slappa af. Mamma ætlaði líka í pottinn en hana var hvergi að sjá þegar við systur vorum komnar ofan í. Eftir smá stund fóru einkennileg högg að berast innan úr bústaðnum. Okkur þótti þetta fremur skrýtið og ég kallaði inn: "Ertu farin að reka smíðaverkstæði þarna inni mamma ?". Ekkert svar barst en barsmíðarnar héldu áfram. Loks sagði Salka litla: "Ég held að mamma ykkar sé læst inni á klósetti". Við Helen litum hvor á aðra. Gat þetta virkilega verið ? Við sprungum að sjálfsögðu úr hlátri. Helen spratt svo upp úr pottinum og fór að klósetthurðinni. Ojú, mikið rétt, sú gamla var harðlæst inni og búin að djöflast á hurðinni nokkra stund. Á milli þess sem hún flissaði glaðlega reyndi Helen að hjálpa henni að opna en ekkert gekk. Þá kom ég og reyndi mitt besta. Enginn árangur. Salka litla spurði áhyggjufull hvort hún gæti nokkuð dáið þarna inni ? Við höfðum nú litlar áhyggjur af því, enda baðherbergi sennilega með bestu herbergjum til að læsast inni í þar sem nóg er vatnið og klósett til staðar. Loks höfðum við gert allt sem við gátum. Það var bara eitt eftir í stöðunni. Og það var að hringja í Svanhildi systur og deila með henni þessum bráðfyndna atburði. Vart þarf að taka fram að henni fannst þetta ekkert sérlega sorglegt. Helen fór svo og reddaði númeri hjá umsjónamanni bústaðanna og kom hún á staðinn með verkfæratösku og reyndi að skrúfa húninn úr. Helen rétti mömmu bjór inn um gluggann til að róa taugar gömlu konunnar. Við vorum farnar að sjá fyrir okkur að þurfa að senda henni matarbirgðir sömu leið. Jæja, umsjónarkonan gat ekkert gert og var því kallaður til karlmaður úr næsta bústað sem sparkaði upp hurðinni. Mamma var frelsinu fegin og lofaði það að nú væri að minnsta kosti ómögulegt að læsa sig þarna inni aftur. Við stungum þá upp á því að hún reyndi að læsa sig inni í geymslunni næst. Heldur tók hún fálega í það. Þetta var óvænt skemmtun sem mun skilja eftir minningar sem við systur getum yljað okkur við í mörg ár.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
5 comments:
Miðað við hvað þið systur virkið allar dásamlegar er skrýtið að uppgötva svona mikinn skepnuskap hjá ykkur.
Við höfum bara aðrar aðferðir til að sýna ást okkar og umhyggju...
Btw Gurrí, þú ert ekkert smá flott í dag :-)
Þú ert ekki svo slæm heldur!
Verst er að hafa ekki verið viðstödd sjálf, og þó þetta stendur mér samt svo bráðlifandi fyrir hugskotssjónum
Post a Comment