Friday, September 29, 2006

Myrkraverk í Reykjavík

Það var nú aldeilis gaman að horfa yfir myrkvaða Reykjavíkurborg í gær. Klukkan 10 stakk ég hausnum út um gluggann og ætlaði að skoða birtu næturhiminsins meðan dimman ríkti. Ég dró hausinn fljótt inn aftur enda fékk ég ofbirtu í augun af flóðljósunum á byggingarkrananum sem stendur í Vatnsendahverfinu. Ekki má gleyma götuljósum hesthúsahverfisins sem öll voru kveikt. Eða bílljósunum sem loguðu aldrei fleiri á götunum í kring. Ég ákvað að kíkja út á svalir og sjá hvort meira myrkur væri þar. Vá. Ótrúlegt að fólkið í raðhúsunum við hliðina skuli geta komist inn með óskaddaða sjón þegar það þarf að labba undir aflöngu útidyraljósin sem lýsa jafnskært og ljósaskilti fyrirtækja. Það var nú reyndar slökkt í mörgum gluggum í blokkunum í kring, en bílljósin ljómuðu um allt eins og hinumegin. Eina huggunin var að það var hvort sem er skýjað. Legg til að næst verði bara öllu draslinu kippt úr sambandi. Kannski skilja eftir smá rafmagn á spítulunum samt...

Tuesday, September 19, 2006

Hversu marga þarf til að fjarlægja sauma úr fætinum á heilbrigðisfulltrúa ?

Síðasta miðvikudagskvöld voru saumarnir teknir úr löppinni á mér. Það gerði dýralæknir aðstoðaður af karlkyns hjúkku sem hélt uppi vasaljósi yfir ökklanum sem hvíldi á eldhúskolli. Eftir nokkuð þóf tókst að plokka spottana úr mér, en til öryggis var læknir frá Náttúrulækningahælinu í Hveragerði beðinn að fara yfir verkið. Hann gaf sína blessun og er því naglhreinsiævintýri mínu opinberlega lokið. Ég tek það fram að hér er rétt og satt sagt frá :-)

Tuesday, September 05, 2006

Undarleg augnatillit

Ég fékk undarleg augnatillit síðasta sunnudag þegar ég labbaði niður göngustíg við golfvöllinn í Mosfellsbæ með fýl í höndunum. Ég starði á móti með augnaráði sem sagði: Og hvað, má maður ekki fara í göngutúr með fýlinn sinn í þessum bæ ??? Ég bar höfuðið hátt um leið og ég skálmaði fram hjá golfskálanum og hélt fýlnum beint fyrir framan mig eins og hann væri nýja Gucci veskið sem ég væri að monta mig af. Ég klöngraðist niður í fjöru með fýlinn og sleppti honum. Undarlegu augnatillitin fylgdu mér enn þegar ég gekk aftur að bílnum. Var eiginlega betra þegar ég var með fýlinn, fannst ég hreinlega nakin án hans á bakaleiðinni. Mæli frekar með veskjum en fýlum sem aukahlutum fyrir göngutúr, þau lykta betur.