Friday, January 12, 2007
Nördahápunktur vikunnar !! Halastjarna gripin glóðvolg á morgunhimni
Jæja, loksins tókst mér að sjá halastjörnuna góðu sem ég er búin að eltast við alla vikuna. Í gærmorgun hljóp ég niður í Elliðaárdal áður en ég fór í vinnuna og reyndi að sjá hana. Eina sem ég hafði upp úr krafsinu var að frjósa inn að beini í -8°C sem voru úti þá stundina. Þegar ég kom í vinnuna kvartaði ég sáran við yfirmann minn yfir halastjörnuleysinu og hann tók sig til og dreif alla deildina upp að Perlunni. Þar biðum við dágóða stund en að lokum uppskárum við laun erfiðisins. Allir hinir komu reyndar auga á stjörnuna á undan mér, þar sem ég hafði af einskærri snilld skilið gleraugun eftir heima. En verandi meganörd, var ég auðvitað með litla fuglaskoðunarkíkinn minn með mér. Ég svipti honum upp og viti menn, við blasti þessi líka glæsilega halastjarna sem vinkaði glaðlega til mín með halanum. Ég get því stært mig af því að hafa séð 3 halastjörnur, þær Halley, Hale-Bopp og McNaught. Verst að hafa ekki aðgang að góðum stjörnusjónauka. Kannski gæti ég fundið eina í fyrsta sinn og fengið hana nefnda eftir mér. Þá gæti ég dáið og farið til nördahimna, sæl og södd lífdaga.
Saturday, January 06, 2007
Frostrósirnar urðu mér að falli
Í gærkvöldi brá ég mér af bæ og fór á spilakvöld hjá Helgu vinkonu. Úti var mögnuð slagveðursrigning og ég kom inn til hennar rennandi blaut eftir nokkur skref í úrhellinu. Þegar kominn var tími til að halda heim hafði veðrið breyst all verulega. Komið var frost og stilla og fallegt tunglskin úti. Ég kom að bílnum mínum og starði á hann. Hann var allur þakinn frostrósum. Ekki bara rúðurnar heldur húddið, hliðarnar og þakið ! Þetta var alveg gullfallegt að sjá. Ég skellti mér inn í rósótta bílinn minn og keyrði þessa örfáu metra sem eru á milli húsanna okkar Helgu (hún býr í Austurberginu) og lagði í stæðið mitt. Þegar ég kom út úr bílnum ákvað ég að skoða fallegu frostrósirnar betur. Ég hóf því að rölta í kringum bílinn að skoða mynstrin sem voru alveg ótrúleg og öll mismunandi. Bergnumin tók ég ekki eftir því smáatriði að það var ansi hált á planinu. Það voru mistök, því svo vissi ég ekki fyrr en ég flaug beint á rassinn og rann hálf undir bílinn minn. Mín fyrsta hugsun eftir lendinguna var: hvað brotnar núna ? En mér til mikillar gleði var allt heilt, ég var bara helaum í bossanum og síðunni. Til allrar lukku virtust ekki vera nein vitni. Hefði verið leiðinlegt að þurfa að drepa þau. Þegar ég staulaðist inn leit ég í síðasta sinn á flotta rósótta bílinn og skreiddist svo upp stiganna upp á fjórðu hæð. Beauty is pain fékk nýja merkingu.
Subscribe to:
Posts (Atom)