Friday, January 12, 2007
Nördahápunktur vikunnar !! Halastjarna gripin glóðvolg á morgunhimni
Jæja, loksins tókst mér að sjá halastjörnuna góðu sem ég er búin að eltast við alla vikuna. Í gærmorgun hljóp ég niður í Elliðaárdal áður en ég fór í vinnuna og reyndi að sjá hana. Eina sem ég hafði upp úr krafsinu var að frjósa inn að beini í -8°C sem voru úti þá stundina. Þegar ég kom í vinnuna kvartaði ég sáran við yfirmann minn yfir halastjörnuleysinu og hann tók sig til og dreif alla deildina upp að Perlunni. Þar biðum við dágóða stund en að lokum uppskárum við laun erfiðisins. Allir hinir komu reyndar auga á stjörnuna á undan mér, þar sem ég hafði af einskærri snilld skilið gleraugun eftir heima. En verandi meganörd, var ég auðvitað með litla fuglaskoðunarkíkinn minn með mér. Ég svipti honum upp og viti menn, við blasti þessi líka glæsilega halastjarna sem vinkaði glaðlega til mín með halanum. Ég get því stært mig af því að hafa séð 3 halastjörnur, þær Halley, Hale-Bopp og McNaught. Verst að hafa ekki aðgang að góðum stjörnusjónauka. Kannski gæti ég fundið eina í fyrsta sinn og fengið hana nefnda eftir mér. Þá gæti ég dáið og farið til nördahimna, sæl og södd lífdaga.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Gosto de fazer amizade com lealdade e mostrar o lado bom, maravilhoso e lindo do meu país Brasil, o seu país também é lindo!
abraço Elizabeth Beirão
Post a Comment