Saturday, January 06, 2007
Frostrósirnar urðu mér að falli
Í gærkvöldi brá ég mér af bæ og fór á spilakvöld hjá Helgu vinkonu. Úti var mögnuð slagveðursrigning og ég kom inn til hennar rennandi blaut eftir nokkur skref í úrhellinu. Þegar kominn var tími til að halda heim hafði veðrið breyst all verulega. Komið var frost og stilla og fallegt tunglskin úti. Ég kom að bílnum mínum og starði á hann. Hann var allur þakinn frostrósum. Ekki bara rúðurnar heldur húddið, hliðarnar og þakið ! Þetta var alveg gullfallegt að sjá. Ég skellti mér inn í rósótta bílinn minn og keyrði þessa örfáu metra sem eru á milli húsanna okkar Helgu (hún býr í Austurberginu) og lagði í stæðið mitt. Þegar ég kom út úr bílnum ákvað ég að skoða fallegu frostrósirnar betur. Ég hóf því að rölta í kringum bílinn að skoða mynstrin sem voru alveg ótrúleg og öll mismunandi. Bergnumin tók ég ekki eftir því smáatriði að það var ansi hált á planinu. Það voru mistök, því svo vissi ég ekki fyrr en ég flaug beint á rassinn og rann hálf undir bílinn minn. Mín fyrsta hugsun eftir lendinguna var: hvað brotnar núna ? En mér til mikillar gleði var allt heilt, ég var bara helaum í bossanum og síðunni. Til allrar lukku virtust ekki vera nein vitni. Hefði verið leiðinlegt að þurfa að drepa þau. Þegar ég staulaðist inn leit ég í síðasta sinn á flotta rósótta bílinn og skreiddist svo upp stiganna upp á fjórðu hæð. Beauty is pain fékk nýja merkingu.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
Vona að þér líði betur, elskan mín. Frostrósir hafa fellt marga ... en fegurð þeirra er stórfengleg ...
Heheheh, missti mig aðeins. Láttu þér líða vel, ég bíð eftir ykkur Steinku og hlakka til að fá ykkur, vonandi sem fyrst!
Frostrósir blómstra í blíðu
en bossinn á Svövu í stríðu.
Nú er hann blár
og á honum hár
en verður fínn í næstu þíðu.
Aumur er bossalingur
hruflaðir mínir fingur
er augun hafði glatt
ég rann bara og datt
og í skelfdum beinunum syngur
Post a Comment