Wednesday, May 31, 2006
Ótti að nóttu til
Þegar ég var barn var ég mjög myrkfælin. Mitt auðuga ímyndunarafl var fljótt að búa til drauga og ófreskjur úr minnsta skugga í herberginu mínu. Ég var líka dauðhrædd við tunglið, þegar það læddi geislum sínum inn um herbergisgluggann grúfði ég mig undir sæng og reyndi að láta sem minnst á mér bæra. Fimm ára gömul sá ég umslag Queen plötunnar Out of this world, en það skreytti stórt vélmenni sem kramdi hljómsveitarmeðlimina í höndum sér. Ég þorði ekki að vera úti ein í marga mánuði af ótta við að "stálkarlinn" næði mér. Ekki má gleyma sjúklegri hræðslu minni við kjarnorkusprengingar sem stafaði af sífelldum dómsdagsfréttum sem dundu á manni þegar kalda stríðið var í algleymingi. Ég kunni utanað leiðbeiningarnar í símaskránni um hvernig átti að bregðast við kjarnorkuárás og hafði af því miklar áhyggjur að vondu karlarnir myndu dúndra á okkur sprengjunni einmitt á hádegi fyrsta miðvikudag í mánuði þegar æfingar Almannavarna fóru fram. Með svo útsmoginni aðferð myndu þeir koma í veg fyrir að ég gæti notað leiðbeiningarnar og lifað af. Ég svaf illa á næturnar fram til þrettán ára aldurs vegna kvíða og hræðslu, hefði í dag tafarlaust verið greind með kvíðaröskun. En nú er ég hundgömul og lífsreynd. Það kom samt ekki í veg fyrir að ég fengi vægt hjartaáfall af hræðslu áðan. Ég lá hér í rúminu í mesta sakleysi þegar undarlegir skruðningar og skrjáf heyrðist í eldhúsinu. Mig hefði grunað kanínuna um græsku ef hún hefði ekki legið á bringunni á mér, skelfingu lostin með sperrt eyru. Það leið rétt um ein mínúta, svo heyrðist sama hljóðið aftur en nú lauk því með smá dynk og skvampi í vatni. Með dúndrandi hjartslátt hökti ég fram í eldhús, skyndilega orðin aftur átta ára og hrædd við drauga. Nema hvað. Ég var með tvo afleggjara af gömlu jukkuplöntunni minni í skál inni í eldhúsi. Þeir höfðu s.s. dottið niður á gólf og þannig orsakað hin dularfullu hljóð. Þarf vart að taka fram að mér leið eins og heimsins mesta sauð þegar ég skreiddist aftur inn í rúm. Engir ærsladraugar í Möðrufellinu, bara plöntur í sjálfsmorðshugleiðingum. Hef greinilega ekki alveg læknast af hérahjartanu þó liðin séu mörg ár :-)
Tuesday, May 30, 2006
Best að ganga hægt um gleðinnar dyr í Flórída
Í leiðindum mínum og eirðarleysi vafra ég um veraldarvefinn í leit að skemmtiefni. Norskt vefblað gladdi mitt svarta hjarta með lítilli frétt um vandamál í ellismellaríkinu Flórída. Vandamálið er að mikil aukning hefur orðið í tíðni kynsjúkdóma meðal gamla fólksins. Orsökin er sú að nú bryðja allir karlar Viagra í tonnatali og stunda villt kynlíf með mörgum konum eins og á æskuárunum. Nú er því farin af stað fræðsla meðal gamla gengisins um hvernig á að nota vin okkar smokkinn. Get ekki annað en velt því fyrir mér hvernig það muni ganga, í ljósi þess hversu erfitt það getur verið að fá eldri borgara til að tileinka sér nýjungar. Minningar um foreldra vinkvenna sem aldrei gátu þekkt muninn á Rec og Play á videoinu svífa hjá, svo og minningin um tilraunir mínar til að kenna mömmu að nota græjurnar sínar. Verður örugglega næsta stríð Bush stjórnarinnar á eftir Íraks vitleysunni, að berjast við að róa eldri kynslóðina niður og kenna þeim rétta notkun hlífðarbúnaðar :-)
Monday, May 29, 2006
Minniháttar meirihluti
Ég get ekki beint sagt að ég sé að kæla kampavínið og kasta upp konfetti eftir að hafa frétt hverjir mynduðu nýjan meirihluta í borgarstjórn. En get ekki sagt að þetta komi mér á óvart. Ljótur mun leiða herfilega ljótan. Gaman gaman. Held í þá von að peningaskápur muni detta í hausinn á þeim á leiðina á fyrsta fundinn. Má alltaf láta sig dreyma...
Sunday, May 28, 2006
Lokatölur smokatölur
Ég var ekki bænheyrð. Það er ljóst að ekki aðeins eru guðirnir geggjaðir, þeir eru heyrnalausir líka.
Guðríður í Kópavogi
Er barnalegt af mér að hafa hlegið eins og vitleysingur þegar Ríkissjónvarpið var að taka viðtal við Gunnar Birgisson og birti svo á skjánum að hann héti Guðríður og væri í Samfylkingunni ?
Guð og allar góðar vættir hjálpi okkur....
Ég ligg á bæn. Ég bið heitt til allra heilagra og einnig ekki svo heilagra vera um að Björn Ingi detti út úr borgarstjórn. Ég bið til BAALs, Óðins, Múhameðs og jafnvel Lúsifers glæsimennisins á neðri hæðinni, látið næstu tölur sýna að hann sé dottinn út. Amen.
Saturday, May 27, 2006
Eru allar kanínur kynóðar ?
Í æsku minni átti ég gullfallega gráa kanínu sem ég af ótrúlegri hugmyndaauðgi skírði Grána. Gráni var í fyrstu nokkuð áttavilltur og virtist halda að hann væri hundur frekar en kanína. Hann lá gjarnan í leyni undir sófa og urraði grimmdarlega, síðan nýtti hann hvert tækifæri sem gafst til að glefsa í hælana á þeim sem í sófanum sátu. Síðar róaðist hann og fór að borða gulrætur eins og kanína er siður. Með tímanum fór hann einnig að sýna annað sígilt kanínueinkenni, nefnilega mikla kynorku. Hann réðist á allt sem fyrir varð og riðlaðist á því. Meðal fórnarlamba voru fætur, handtöskur og skór gesta. Ég man eftir því að hafa dregið kanínuna með hraði undan eldhúsborði þegar hún var að renna sér á fætur vinkvenna mömmu, sem til allrar lukku virtust oftast telja að Gráni væri bara að vera vinalegur. Hámarkinu náði Gráni samt þegar hann stökk á Míu, köttinn hennar Helenar systur, og átti við hana ljúfan ástarfund. Mér er það ennþá ráðgáta að kötturinn skyldi hafa látið sér þetta lynda ? Ef líffræðin hefði ekki verið á móti þessu sambandi hefði verið assgoti gaman að sjá þau afkvæmi sem komið hefðu út úr þessu. Köttur með löng eyru og dindil ? Kjötætukanína með langt skott og hvassar klær ? Gráni lést níu ára gamall, saddur lífdaga og var kynóður alveg fram í andlátið. Nú hef ég eignast aðra kanínu, einnig karlkyns, en sú hefur ekki sýnt neina takta í þessa átt. Ef honum Brad Pitt (svo nefndur til að ég gæti sagst vera með Brad Pitt í rúminu osfrv.) er réttur fótur, leggst hann bara niður og heldur að fóturinn ætli að klappa honum. Skór, töskur og annað vekja heldur engar hvatir hjá honum. Ég hef að vísu ekki boðið honum kött ennþá, en ég held að þessi kanína sé kynköld. Miðað við þetta dýr er orðstír tegundarinnar í kynferðisgeiranum mjög með orðum ýktur. Spurningin er, hvor er undantekningin, Brad eða Gráni ? Þrátt fyrir skort á beinum sönnunum tel ég reyndar að Gráni hafi verið stoltur fullrúi kanína þessa heims, en Brad er sennilega bara náttúrulaus. Það er greinilega ekki nóg að vera nefndur eftir fola.
Thursday, May 25, 2006
Ævintýri á hækjuför
Þar sem ég er nú orðin hressari í vinstri löppinni hef ég aðeins aukið ferðir mínar út úr húsi, en að vísu hefur það kostað slæma verki í hægri löpp á eftir. Það að komast út er samt þjáninganna virði ! Ég hef því neytt nokkra sakleysingja til að keyra mig í ýmsa leiðangra. Þegar ég skellti mér niður á Laugarveginn á föstudaginn síðasta varð ferðin þó aðeins meira ævintýri en ég hafði reiknað með. Helen systir hafði af góðsemi hjartans boðist til að keyra mig niður í bæ að skoða sérstaka heilsusandala sem ég ágirnist mjög um þessar mundir. Við systur vorum komnar á staðinn rétt rúmlega tvö í glampandi sólskini og fengum strax bílastæði rétt hjá búðinni. Sú ótrúlega heppni hefði strax átt að fylla mig grunsemdum, allt var hreinlega of gott til að vera satt. Enda fór fljótlega að bera á vandræðum. Þegar við systur stigum inn í búðina tilkynnti Helen að hún sæi ekki neitt. Mér þóttu þessar fréttir frekar óþægilegar en þegar hún hélt samt áfram inn í búðina hélt ég að þetta hefði verið einhver vitleysa. Ég haltraði því að heilsuskónum og fór að máta. Þá fór gamanið heldur að kárna. Helen kuðlaði sig saman á litlum kolli, flissaði af og til og gelti smá. Full grunsemda spurði ég hana hvort hún hefði borðað nóg fyrir ferðina. Já já, sagði sykursýkissjúklingurinn til 32 ára og gelti glaðlega. Nú voru góð ráð dýr. Ég ákvað að draga hana þegar inn í næstu sjoppu og gefa henni sykur, enda augljóst að þarna var um sígilt blóðsykurfall að ræða. Erfiðlega gekk þó að koma henni þessa fimmtán metra að sjoppunni, enda tókst henni á þessari stuttu leið að hitta tvo sem þekktu hana og reyndu að tala við hana. Með miklu hækjuhoppi og látum tókst mér að koma henni í sjoppuna og byrja að dæla í hana kók og súkkulaði. Mér til sárrar skapraunar virtist hún ekkert skána, auk geltsins og flissins var hún farin að fá kippi í hendurnar. Loks kallaði ég á sjúkrabíl og þá lagaðist hún auðvitað um leið. Bíllinn var samt farinn af stað og við létum indæla sjúkraflutningamenn tékka á henni, fyrst þeir voru nú mættir á staðinn. Ég náði meira að segja að daðra aðeins við þá. Við keyrðum svo að Aktu taktu þar sem ég mokaði í hana samloku og hékk hún eðlileg þar sem eftir var dags. Víst er að eftir þessa reynslu mun ég ekki hætta mér upp í bíl án þess að gera blóðsykurspróf á ökumanninum. Svona ævintýri eru frekar óþægileg fyrir hækjuhöktara. Var samt fyndið að heyra hana gelta....
Tuesday, May 23, 2006
Síbrotakonan margbrotna og brotgjörn ævintýri hennar
Einu sinni var kona sem var venjuleg í alla staði. Hún þráði að vera öðruvísi, vera einstök, vera ofurhetja. Hún reyndi margt til að ná þessu takmarki, en það var sama hvað hún reyndi, hún var alltaf jafn venjuleg. Þar til einn daginn að hún rak höfuðið í spýtu og braut við það hægri ökklann. Brotið var alveg stórfenglegt. Beinin voru kubbuð í smá bita og vöktu röntgenmyndirnar aðdáun hjá geislafræðingum og læknum sem öll óskuðu eftir að fá áritað eintak. Loksins hafði konan náð að slá í gegn. Vinir, ættingjar og aðrir áhugasamir hópuðust að sjúkrasænginni til að sjá dýrðina. Það sem meira var, konan uppgötvaði að brotið færði henni ofurhetjukrafta. Á nóttunni, þegar saklausar sálir sváfu rótt, sveif hún um borgina á annarri hækjunni í leit að illvirkjum. Þegar hún rakst á glæpamenn barði hún þá niður með hinni hækjunni og hringdi svo í þakkláta lögregluna sem lét fjarlægja farlama kvikindin. Konan hafði aldrei verið svona hamingjusöm á ævi sinni. En svo gerðist hið óumflýjanlega. Brotið greri og við það hurfu ofurkraftarnir. Aðdáendurnir hurfu, hversdagslífið tók við og brotakonan varð bara venjuleg á ný. Hvað var nú til ráða ? Eftir mikið japl, jam og fuður tókst brotakonunni að brjóta vinstri ökklann. Í þetta sinn í fjölda vitna viðurvist. Vart þarf að taka fram að aðdáun fólks varð þegar endurvakin, enda um listagott brot að ræða. Opið beinbrot, hvorki meira né minna ! Á spítalanum var henni tekið fagnandi. Allir sérfræðingar spítalans sátu saman með tárin í augunum og rifjuðu upp fyrra brot og dæstu: ef bara allir væru svona góðir í beinbrotum eins og þessi kona. Síbrotakonan lá ánægð í rúmi sínu og fann hvernig ofurkraftarnir streymdu um líkamann á ný. Hún ákvað þegar að nýta krafta sína aftur í þágu hins góða og sveif af stað á hækjunni við fyrsta mögulegt tækifæri. Í þetta sinn einbeitti hún sér að því að berja niður alþingismenn og borgarfulltrúa. Þakklátur almenningur hlóð á hana lofi í sjónvarpi, útvarpi og öðrum fjölmiðlum. Aðdáendabréfin fylltu póstkassann og stofnaður var sértrúarsöfnuður með síbrotakonuna sem guðlega yfirveru. Síbrotakonan sveif yfir borginni á hækjunni sinni og brosti blíðlega. Hún ætlaði aldrei aftur að yfirgefa sína þegna og sökkva í fen meðalmennskunnar. Næst myndi hún brjóta hægri hendina, síðan þá vinstri og svo framvegis, og svo framvegis. Nóg var af beinum að brjóta. 206 í einum kroppi. Síbrotakonan var hamingjusöm. Ekki niðurbrotin lengur. Margbrotinn persónuleiki hennar sveif inn í sólarlagið með söng á vörum og á jörðu niðri tóku allir undir.
Subscribe to:
Posts (Atom)