Tuesday, May 23, 2006

Síbrotakonan margbrotna og brotgjörn ævintýri hennar

Einu sinni var kona sem var venjuleg í alla staði. Hún þráði að vera öðruvísi, vera einstök, vera ofurhetja. Hún reyndi margt til að ná þessu takmarki, en það var sama hvað hún reyndi, hún var alltaf jafn venjuleg. Þar til einn daginn að hún rak höfuðið í spýtu og braut við það hægri ökklann. Brotið var alveg stórfenglegt. Beinin voru kubbuð í smá bita og vöktu röntgenmyndirnar aðdáun hjá geislafræðingum og læknum sem öll óskuðu eftir að fá áritað eintak. Loksins hafði konan náð að slá í gegn. Vinir, ættingjar og aðrir áhugasamir hópuðust að sjúkrasænginni til að sjá dýrðina. Það sem meira var, konan uppgötvaði að brotið færði henni ofurhetjukrafta. Á nóttunni, þegar saklausar sálir sváfu rótt, sveif hún um borgina á annarri hækjunni í leit að illvirkjum. Þegar hún rakst á glæpamenn barði hún þá niður með hinni hækjunni og hringdi svo í þakkláta lögregluna sem lét fjarlægja farlama kvikindin. Konan hafði aldrei verið svona hamingjusöm á ævi sinni. En svo gerðist hið óumflýjanlega. Brotið greri og við það hurfu ofurkraftarnir. Aðdáendurnir hurfu, hversdagslífið tók við og brotakonan varð bara venjuleg á ný. Hvað var nú til ráða ? Eftir mikið japl, jam og fuður tókst brotakonunni að brjóta vinstri ökklann. Í þetta sinn í fjölda vitna viðurvist. Vart þarf að taka fram að aðdáun fólks varð þegar endurvakin, enda um listagott brot að ræða. Opið beinbrot, hvorki meira né minna ! Á spítalanum var henni tekið fagnandi. Allir sérfræðingar spítalans sátu saman með tárin í augunum og rifjuðu upp fyrra brot og dæstu: ef bara allir væru svona góðir í beinbrotum eins og þessi kona. Síbrotakonan lá ánægð í rúmi sínu og fann hvernig ofurkraftarnir streymdu um líkamann á ný. Hún ákvað þegar að nýta krafta sína aftur í þágu hins góða og sveif af stað á hækjunni við fyrsta mögulegt tækifæri. Í þetta sinn einbeitti hún sér að því að berja niður alþingismenn og borgarfulltrúa. Þakklátur almenningur hlóð á hana lofi í sjónvarpi, útvarpi og öðrum fjölmiðlum. Aðdáendabréfin fylltu póstkassann og stofnaður var sértrúarsöfnuður með síbrotakonuna sem guðlega yfirveru. Síbrotakonan sveif yfir borginni á hækjunni sinni og brosti blíðlega. Hún ætlaði aldrei aftur að yfirgefa sína þegna og sökkva í fen meðalmennskunnar. Næst myndi hún brjóta hægri hendina, síðan þá vinstri og svo framvegis, og svo framvegis. Nóg var af beinum að brjóta. 206 í einum kroppi. Síbrotakonan var hamingjusöm. Ekki niðurbrotin lengur. Margbrotinn persónuleiki hennar sveif inn í sólarlagið með söng á vörum og á jörðu niðri tóku allir undir.

1 comment:

Anonymous said...

Þetta líkar mér!! :OD