Saturday, May 27, 2006

Eru allar kanínur kynóðar ?

Í æsku minni átti ég gullfallega gráa kanínu sem ég af ótrúlegri hugmyndaauðgi skírði Grána. Gráni var í fyrstu nokkuð áttavilltur og virtist halda að hann væri hundur frekar en kanína. Hann lá gjarnan í leyni undir sófa og urraði grimmdarlega, síðan nýtti hann hvert tækifæri sem gafst til að glefsa í hælana á þeim sem í sófanum sátu. Síðar róaðist hann og fór að borða gulrætur eins og kanína er siður. Með tímanum fór hann einnig að sýna annað sígilt kanínueinkenni, nefnilega mikla kynorku. Hann réðist á allt sem fyrir varð og riðlaðist á því. Meðal fórnarlamba voru fætur, handtöskur og skór gesta. Ég man eftir því að hafa dregið kanínuna með hraði undan eldhúsborði þegar hún var að renna sér á fætur vinkvenna mömmu, sem til allrar lukku virtust oftast telja að Gráni væri bara að vera vinalegur. Hámarkinu náði Gráni samt þegar hann stökk á Míu, köttinn hennar Helenar systur, og átti við hana ljúfan ástarfund. Mér er það ennþá ráðgáta að kötturinn skyldi hafa látið sér þetta lynda ? Ef líffræðin hefði ekki verið á móti þessu sambandi hefði verið assgoti gaman að sjá þau afkvæmi sem komið hefðu út úr þessu. Köttur með löng eyru og dindil ? Kjötætukanína með langt skott og hvassar klær ? Gráni lést níu ára gamall, saddur lífdaga og var kynóður alveg fram í andlátið. Nú hef ég eignast aðra kanínu, einnig karlkyns, en sú hefur ekki sýnt neina takta í þessa átt. Ef honum Brad Pitt (svo nefndur til að ég gæti sagst vera með Brad Pitt í rúminu osfrv.) er réttur fótur, leggst hann bara niður og heldur að fóturinn ætli að klappa honum. Skór, töskur og annað vekja heldur engar hvatir hjá honum. Ég hef að vísu ekki boðið honum kött ennþá, en ég held að þessi kanína sé kynköld. Miðað við þetta dýr er orðstír tegundarinnar í kynferðisgeiranum mjög með orðum ýktur. Spurningin er, hvor er undantekningin, Brad eða Gráni ? Þrátt fyrir skort á beinum sönnunum tel ég reyndar að Gráni hafi verið stoltur fullrúi kanína þessa heims, en Brad er sennilega bara náttúrulaus. Það er greinilega ekki nóg að vera nefndur eftir fola.

No comments: