Sunday, June 25, 2006

Þú ert ekkert

Síðustu tvær vikur hef ég notið lífsins í Búlgaríu. Sól, hiti, sandur og bjór. Afar yndislegt, sérstaklega þegar maður hugsar um þær tíu vikur sem ég eyddi inn í svefnherberginu mínu fyrir ferðina. Þarna var afar gott að vera. Ólíkt Spáni og öðrum stöðum sem ég hef heimsótt voru allir vel mælandi á enska tungu og því auðvelt að hafa samskipti við heimamenn. Einn daginn röltum við mæðgur niður á strönd og stoppuðum í sölubás til að kaupa okkur sólhlíf. Við völdum eina regnbogalita og ég svipti um pening og rétti afgreiðslustúlkunni. Við tókum svo við sólhlífinni og ég brosti mínu blíðasta til stúlkunar og sagði: Thank you very much. Hún brosti alúðlega til baka og sagði: You are nothing. Hmmm. Mér varð orða vant þegar ég gekk í burtu. Hvað átti hún við ? Var þetta djúp heimspekileg pæling um fánýti okkar stutta mannlífs, þar sem við erum ekkert þegar maður horfir á hinn endalausa alheim og óendanlegan tíma ? Eða hafði þessi stúlka horft inn í sál mína og séð þar ekkert nema tóm ? Enginn hefur þorað að skella því beint í andlitið á mér að ég sé hreinlega EKKERT fyrr en þarna. Dóttir mín skemmti sér konunglega yfir þessu og það sem eftir var ferðar var þetta uppáhaldsbrandarinn hennar. Við gengum fram hjá básnum nær daglega og ég þurfti að halda mér til að hlaupa ekki upp að stúlkunni og öskra: I AM SOMETHING, YOU HEAR ME, I AM A GREAT PERSON ! Náði samt að stilla mig. Kannski var hún bara ekki nógu sleip í ensku.

2 comments:

Anonymous said...

Þetta hefur verið sjokkerandi en þú getur alveg skellt þessu á lélega enskukunnáttu. Finnska hljómsveitin Leningrad Cowboys þakkar alltaf fyrir sig á tónleikum með því að segja: „Thank you very many!“ Voða fyndið, kannski viljandi ...

Anonymous said...

ha ha ha.....:)Einu sinni var eg ad versla med tengdo thegar afgreidsludaman spurdi hana kurteisislega "so how would you like to pay for this maam?". Tengdo svarar voda modgun"with money of course" og afgreidsludaman greyjid sagdi "Cash or Credit?"
kv
Huld