Friday, June 02, 2006

Hávaðasamt heilnudd

Í dag fór ég í Baðhúsið til að fá 50 mínútna heildnudd. Tvær vinkonur mínar höfðu af gæsku sinni gefði mér gjafakort fyrir nuddinu í afmælisgjöf, en ég var fyrst að skella mér núna vegna kjarasamningsviðræðna/veikinda/beinbrots...blah ! Ég hef aldrei komið í Baðhúsið fyrr og var það mér sérstök gleði að komast að því að móttakan er á annarri hæð og lyftan stoppar ekki þar. Frábært. Ég skrölti á hækjunum upp í móttökuna og fleygði í þær gjafabréfinu. Þá tilkynntu þær mér að innifalið í nuddinu væri afslöppun í heitum potti og gufu. Það vissi ég ekki og var því ekki með sundföt. Ég spurði því af minni alkunnu fyndni hvort ég ætti ekki bara að láta sloppinn falla og fara í pottinn nakin. Afgreiðslustúlkunum þremur stökk ekki bros en sögðust geta lánað mér bol. Ég get svo sem ekki sagt að ég lái þeim, ekki hefði mig langað að sjá mig nakta með visna fótinn minn með Frankenstein örunum. Ein stúlkan gekk nú með mér inn í búningsklefann og útskýrði fyrir mér þessa venjulegu hluti sem útskýrðir eru fyrir hálfvitum á hækjum, svo sem hvernig ætti að smella hengilás á fataskápinn og hvar væri vasi á sloppnum svo ég gæti geymt lykilinn á meðan ég væri í nuddinu. Mér lukkaðist að meðtaka þetta í fyrstu tilraun og þá sýndi hún mér hvar nuddið færi fram. Hún var verulega vandræðaleg þegar hún benti mér niður langan hringstiga að herbergi úti í horni. Auðvitað, gat ekki annað verið en að ég þyrfti að renna mér í fleiri stiga. Ég tróð mér í sloppinn í hvelli, setti lykilinn í vasann eins og lög gerðu ráð fyrir og klöngraðist niður. Stiginn hringaði sig um hugljúfan gosbrunn og þar fyrir neðan var heitur pottur baðaður mjúku ljósi. Fyrir framan nuddherbergið var hálfmyrkvað biðsvæði með mjúkum leðursófum og Bee Gees lög hljómuðu lágt í hátalara. Fullkomið hugsaði ég um leið og nuddarinn leiddi mig inn í nuddklefann sem var lýstur upp með kertaljósum. Ég lagðist alsæl á bekkinn og stúlkan hóf nuddið. Þá heyrðist skyndilega hár hvellur og svo glumdi í gegnum vegginn: EINN TVEIR ÞRÍR FJÓR JE ! Síðan upphófst dúndrandi danstónlist með nokkrum JE JE ÁFRAM TAKA Á öskrum inn á milli. Bee Gees áttu ekki sjens í þetta. Hva, bara stuð, sagði ég við nuddarann. Já, sagði hún vandræðalega, þetta er hádegistíminn. Við nuddararnir höfum oft kvartað yfir hávaðanum. Ég ákvað að láta þetta ekki trufla mig. Í raun gladdi það mig ósegjanlega að ég lá á nuddbekknum að láta dekra við mig meðan fullur salur af konum þurfti að sprikla í klukkutíma við þennan hávaða. Að loknum 50 mínútum reis ég upp af bekknum, alsæl með lífið og tilveruna. Man bara næst að bóka ekki nuddtíma klukkan tólf á hádegi.

1 comment:

Anonymous said...

Nuddkonan hefur ekki reynt að selja þér Herbalife eða Tupperware?
Ein beisk