Thursday, June 01, 2006
Misskipt er sólbrúnkuláni
Allt frá unga aldri hef ég haft mjög föla, náhvíta húð. Oft og iðulega var andlit mitt yfirlýst á hópmyndum þar sem myndavélarflassið endurkastaðist af því eins og sólarljósið af snjóbreiðu. Svo hvít var ég á veturnar að flugvélar hringsóluðu yfir höfði mér, haldandi að ég væri lendingarljós við flugbrautarenda. Djúpviturt fólk tjáði mér að ég þyrfti bara að fá lit einu sinni og svo myndi þetta vera ekkert mál eftir það. Minn besti árangur varð samt aldrei meira en nokkrar freknur. Loks tókst mér að brenna í framan og varð eldrauð eins og humar. Aha, sögðu hinir djúpvitru, fyrst verður þú rauð og svo kemur brúnkan í ljós! Ég beið og beið, en viti menn: þegar rauði liturinn hvarf kom sá hvíti bara aftur í ljós. Engin brúnka fyrir Svövu. Heimsóknir á sólarstrandir leiddu í ljós þá bráðskemmtilegur staðreynd að ég hef hreinlega ofnæmi fyrir sólinni og fæ glæsilegt sólarexem ef ég gæti mín ekki. Hið ótrúlega gerðist reyndar í fyrra, á Unglingalandsmóti UMFÍ (var þar með dóttur minni sem var að keppa, er hvorki unglingur né íþróttfrík) fékk ég smá lit í andlitið. Það er þó erfitt að gleðjast yfir þessum árangri þegar einkadóttir mín og erfingi sprangar um með gullinbrúnan hörundslit meiri hluta ársins. Það þarf varla annað en að kveikja á lampa nálægt henni, þá er hún orðin eins og súkkulaði. Ég sá þennan mun á húðlit okkar mæðgna í fyrsta sinn sem ég fór með ungabarnið í bað. Þegar ég lagði það á bláhvíta bringuna á mér sást þegar að húð þess var mun dekkri. Í kvöld kom svo téð einkadóttir heim í heiðardalinn og sýndi mér stolt bikinifarið sitt, enda þegar orðin súkkulaðisælubrún, þrátt fyrir kuldaskítaveður í sumarbyrjun. Er þetta réttlátt, ég bara spyr ? Mín eina huggun í þessu máli öllu er sú að ég get alltaf glatt vinkonur mínar þegar þær kvarta yfir því hvað þær eru gráar og guggnar. Þær þurfa ekki annað en að bera sig saman við mig og skapið batnar þá þegar. Reyndar ætti ég bara að hætta þessu röfli og sætta mig við það að ég er bara sérhönnuð fyrir íslenskar aðstæður og á ekki nálægt sólarljósi að koma. Er samt að vona að úti í Búlgaríu gerist kraftaverkið og ég fái jafnvel tíu freknur í ár !
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
4 comments:
Þú ert bara eins og fyrrverandi maðurinn minn!!! Hann er reyndar rauðhærður. En þegar fyrstu sólarbekkirnir komu til landsins keypti hann 10 tíma kort. Ekkert gerðist, hann varð ekki einu sinni rauður. Hann fékk 5 tíma í viðbót án þess að fá brúku. Á endanum fékk hann þessa 15 tíma endurgreidda ef hann lofaði að segja engum hvar hann fór í ljós. Hann hefur held ég skánað með árunum en ég sá hann reyndar undanrennubláan stuttu eftir 3 vikna ferð til Kanarí. Spurði einkason okkar hverju þetta sætti. Jú, sólin skín ekki inn á barina á Kanarí, sagði sonsi!
Mikið er ég óskaplega ánægð með að þú skulir loksins deila með okkur hinum í veröldinni snilld þinni á ritvellinum. Ég hef beðið lengi eftir þessu ljósi í tilveruna :) Takk fyrir mig. Kveðja Iris H
p.s. verst ef þú þarft að vera beinbrotin til að skrifa...
Ég tek undir þetta með Írisi, þú ert frábær penni!!! Maður flissar subbulega yfir skrifunum þínum. Takkkkkk. Annað, mikið eru frændur þínir ofboðslega sætir, fleiri myndir, takkkkkk!!! (Þekki Ragnar og hef þess vegna ógurlega gaman af því að sjá ormana hans :) )
Stefni á að taka smá beinbrotapásu. Handleggsbrot kynni að draga úr skrifgetu minni...
Post a Comment