Saturday, June 03, 2006
Risaambaba ræður ríkjum í rúminu
Eitt af því sem uppeldissérfræðingar vara við er að venja börnin sín á að sofa uppi í rúmi hjá sér. Þessum aðvörunum er sérstaklega beint til hjóna og sambýlisfólks þar sem svefnleysi og annarsskonar leysi sem fylgir dvöl barnanna í rúminu gæti valdið sambúðarerfiðleikum. Sumir halda því fram að þetta gæti endað með skilnaði. Verandi bráðgáfuð, eins og allir vita, hef ég ítrekað bent vinum mínum á hvílík mistök þeir séu að gera ef þeir leyfa börnunum að sofa upp í . Sérstaklega hef ég verið harðorð í þeim dæmum þar sem annar sambúðaraðilinn hefur kosið á flýja hjónarúmið á næturnar til að sleppa við börnin. Ah, það er alltaf svo gaman að kasta steinum í glerhúsi. Maður þarf bara að passa að kasta steinunum út í gegnum veggina en ekki þakið, annars endar maður á að fá glerbrotin í hausinn. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að dóttir mín hefur ansi oft fengið að sofa uppi í rúmi hjá mér. Reyndar liggur hún einmitt núna við hliðina á mér og steinsefur. Ég þarf að vísu ekki að hafa áhyggjur af því að vera hennar í rúminu eyðileggi fyrir mér neitt samband, né hef ég þurft að hafa þær áhyggjur allt hennar líf. Annað mál er með svefnleysið. Á því tímabili sem ég átti 70 cm breitt rúm hafði dóttir mín 65 cm til umráða fyrir sig þegar hún svaf hjá mér, ég hafði auma 5. Síðan fékk ég mér 140 cm rúm úti í Danmörku. Dóttirin fékk þá 135 cm, ég sat enn uppi með 5. Það skiptir engu máli hver stærð rúmsins er, plássið mitt er alltaf jafn lítið. Allt frá því hún var pínulítil hafði Hilda þann hæfileika að skjóta út frá sér ótal útlimum og flæða svo eftir rúminu eins og amaba. Smá saman tókst amöbunni að ýta mér út á ystu brún rúmsins og þá skaut hún fálmurunum sínum yfir mig og umlukti mig. Þetta var ekki beint til þess fallið að tryggja mér góðan nætursvefn, sérstaklega ekki í þeim tilfellum þar sem einn af fálmurunum skall beint á andliti mínu. Oftast gat ég bjargað mér með því að ýta amöbunni út í hinn endann á rúminu og keypti mér þannig dýrmætan svefntíma áður en hún rann yfir í minn enda aftur. Reyndar svaf litla amaban oftast í sínu rúmi en henni þótti alltaf gott að fá að stelast í mömmu rúm svona af og til. Í dag á ég 130 cm breitt rúm. Ég á þrettán ára dóttur sem er um 170 cm að lengd og fílsterk í þokkabót. Amaban er orðin að risaamöbu. Risaamöbunni finnst ennþá gott að kúra hjá mömmu og mamma er svo veik fyrir einkabarninu að hún fær það. Það er hinsvegar lífsins ómögulegt að ýta risaamöbunni yfir í hinn endann á rúminu. Hún berst á móti og er allt of þung. Fálmararnir eru líka miklu þyngri og skella af meiri krafti á fórnarlambinu. Það er að lokum gersamlega ómögulegt að taka hana og bera yfir í sitt eigið rúm. Það yrði þá það síðasta sem ég gerði. Fólk með börn á þessum aldri er venjulega hætt að hafa þetta vandamál en hún er mitt eitt og allt og ég rígheld í litla barnið mitt eins lengi og ég get. Þó það kosti marbletti og hryggskekkju. En auðvitað er þetta óráðlegt hjá öllum öðrum, munið það. Verð að hætta að skrifa, risaamaban var að skella olboganum inn í barkakýlið á mér og ég er að kafna. Góðar stundir.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Vá, þetta er stórmál!!! Hvernig er rúmið hennar? Geturðu ekki laumað þér í það og sofið þar ... flutt svo dótið þitt smám saman þangað, skipt á rúmum þegar hún veit ekki af osfrv.??? Ætli hún myndi elta þig hvert sem þú ferð, það gæti nú alveg verið. Hehehehehhe!
Æi, þau eru svo miklar dúllur ...
Ég kannast við svona amöbur. Reyndar eru mínar kafloðnar nú orðið en engu að síður öflugar.
Post a Comment