Tuesday, August 15, 2006

Árás vatnsslöngunnar eða sagan af Svövu hinni holdvotu

Á mánudagsmorguninn fór ég með bílinn minn í viðgerð. Einhver stelpukjáni var svo indæl að bakka á nefið á honum og setja fallega v-laga dæld í stuðarann. Árekstursstaðurinn var nákvæmlega á miðjum stuðaranum og bílnúmerið stóð út eins og opinn fuglsgoggur eftir höggið. Þar sem bíllinn var verulega skítugur eftir hringferð okkar mæðgna um landið ákvað ég að fara og þvo hann á sunnudaginn. Ómögulegt að mæta með bílinn svona á verkstæðið. Ég var lengi að herða mig upp í að fara en tókst með ótrúlegum viljastyrk að koma mér og bílnum út á þvottaplan næstu Shell stöðvar. Bílaþvottur hefur aldrei verið mitt uppáhald enda fylgir honum oftast blautir fætur og hendur. Jæja, ég greip mér kúst í hönd og skrúfaði einbeitt frá vatninu, aldeilis til í slaginn. Þá losnaði slangan af kústinum og tók að hringsnúast upprétt á planinu alveg eins og eiturslanga. Það var engu líkara en að slangan hvæsti ógnandi um leið og hún jós yfir mig vatni af miklum krafti. Ég stökk að krananum og reyndi að skrúfa fyrir vatnið. Viti menn, haldið þið að kraninn hafi ekki verið bilaður. Það tók því nokkrar mikilvægar sekúndur í viðbót að finna út rétta stöðu fyrir hann til að stoppa árans vatnsrennslið. Loksins tókst mér að loka fyrir vatnið og slangan lyppaðist niður örmagna eftir hamaganginn. Eftir stóð ég, holdvot og frekar pirruð. Bíllinn var enn jafn skítugur og því ekkert annað að gera en að grípa næsta kúst. Sá lak hressilega við endann, en slíkir smámunir skiptu mig ekki máli þar sem það var hvort sem er ekki þurr þráður á mér. Það var frekar köld og vot kona sem staulaðist inn í nýþveginn bílinn sinn kortéri síðar. Það var ekki hamingjubros á hennar vörum, trúið mér.

1 comment:

Anonymous said...

Æ,æ, dúllan mín. Flissaði yfir sögunni en samúðin varð þó yfirsterkari, að sjálfsögðu ...