Wednesday, May 31, 2006
Ótti að nóttu til
Þegar ég var barn var ég mjög myrkfælin. Mitt auðuga ímyndunarafl var fljótt að búa til drauga og ófreskjur úr minnsta skugga í herberginu mínu. Ég var líka dauðhrædd við tunglið, þegar það læddi geislum sínum inn um herbergisgluggann grúfði ég mig undir sæng og reyndi að láta sem minnst á mér bæra. Fimm ára gömul sá ég umslag Queen plötunnar Out of this world, en það skreytti stórt vélmenni sem kramdi hljómsveitarmeðlimina í höndum sér. Ég þorði ekki að vera úti ein í marga mánuði af ótta við að "stálkarlinn" næði mér. Ekki má gleyma sjúklegri hræðslu minni við kjarnorkusprengingar sem stafaði af sífelldum dómsdagsfréttum sem dundu á manni þegar kalda stríðið var í algleymingi. Ég kunni utanað leiðbeiningarnar í símaskránni um hvernig átti að bregðast við kjarnorkuárás og hafði af því miklar áhyggjur að vondu karlarnir myndu dúndra á okkur sprengjunni einmitt á hádegi fyrsta miðvikudag í mánuði þegar æfingar Almannavarna fóru fram. Með svo útsmoginni aðferð myndu þeir koma í veg fyrir að ég gæti notað leiðbeiningarnar og lifað af. Ég svaf illa á næturnar fram til þrettán ára aldurs vegna kvíða og hræðslu, hefði í dag tafarlaust verið greind með kvíðaröskun. En nú er ég hundgömul og lífsreynd. Það kom samt ekki í veg fyrir að ég fengi vægt hjartaáfall af hræðslu áðan. Ég lá hér í rúminu í mesta sakleysi þegar undarlegir skruðningar og skrjáf heyrðist í eldhúsinu. Mig hefði grunað kanínuna um græsku ef hún hefði ekki legið á bringunni á mér, skelfingu lostin með sperrt eyru. Það leið rétt um ein mínúta, svo heyrðist sama hljóðið aftur en nú lauk því með smá dynk og skvampi í vatni. Með dúndrandi hjartslátt hökti ég fram í eldhús, skyndilega orðin aftur átta ára og hrædd við drauga. Nema hvað. Ég var með tvo afleggjara af gömlu jukkuplöntunni minni í skál inni í eldhúsi. Þeir höfðu s.s. dottið niður á gólf og þannig orsakað hin dularfullu hljóð. Þarf vart að taka fram að mér leið eins og heimsins mesta sauð þegar ég skreiddist aftur inn í rúm. Engir ærsladraugar í Möðrufellinu, bara plöntur í sjálfsmorðshugleiðingum. Hef greinilega ekki alveg læknast af hérahjartanu þó liðin séu mörg ár :-)
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Ég er algjör snillingur að finna ástæðu fyrir einhverjum svona hávaða, held að það sé vegna leti. En ansi oft hef ég rétt fyrir mér :)
Þegar ég bjó á Bollagötunni kom eitthvert leiðindaóhljóð sem var að gera Hildu systur geðveika. Ég sagði henni að þetta væri örugglega bandið á flaggstönginni sem slægist til - og viti menn, það var rétt. Ég nennti nefnilega ekki að leita að upptökunum en langaði samt að bjarga henni frá vondum draugum.
Post a Comment