Thursday, May 25, 2006
Ævintýri á hækjuför
Þar sem ég er nú orðin hressari í vinstri löppinni hef ég aðeins aukið ferðir mínar út úr húsi, en að vísu hefur það kostað slæma verki í hægri löpp á eftir. Það að komast út er samt þjáninganna virði ! Ég hef því neytt nokkra sakleysingja til að keyra mig í ýmsa leiðangra. Þegar ég skellti mér niður á Laugarveginn á föstudaginn síðasta varð ferðin þó aðeins meira ævintýri en ég hafði reiknað með. Helen systir hafði af góðsemi hjartans boðist til að keyra mig niður í bæ að skoða sérstaka heilsusandala sem ég ágirnist mjög um þessar mundir. Við systur vorum komnar á staðinn rétt rúmlega tvö í glampandi sólskini og fengum strax bílastæði rétt hjá búðinni. Sú ótrúlega heppni hefði strax átt að fylla mig grunsemdum, allt var hreinlega of gott til að vera satt. Enda fór fljótlega að bera á vandræðum. Þegar við systur stigum inn í búðina tilkynnti Helen að hún sæi ekki neitt. Mér þóttu þessar fréttir frekar óþægilegar en þegar hún hélt samt áfram inn í búðina hélt ég að þetta hefði verið einhver vitleysa. Ég haltraði því að heilsuskónum og fór að máta. Þá fór gamanið heldur að kárna. Helen kuðlaði sig saman á litlum kolli, flissaði af og til og gelti smá. Full grunsemda spurði ég hana hvort hún hefði borðað nóg fyrir ferðina. Já já, sagði sykursýkissjúklingurinn til 32 ára og gelti glaðlega. Nú voru góð ráð dýr. Ég ákvað að draga hana þegar inn í næstu sjoppu og gefa henni sykur, enda augljóst að þarna var um sígilt blóðsykurfall að ræða. Erfiðlega gekk þó að koma henni þessa fimmtán metra að sjoppunni, enda tókst henni á þessari stuttu leið að hitta tvo sem þekktu hana og reyndu að tala við hana. Með miklu hækjuhoppi og látum tókst mér að koma henni í sjoppuna og byrja að dæla í hana kók og súkkulaði. Mér til sárrar skapraunar virtist hún ekkert skána, auk geltsins og flissins var hún farin að fá kippi í hendurnar. Loks kallaði ég á sjúkrabíl og þá lagaðist hún auðvitað um leið. Bíllinn var samt farinn af stað og við létum indæla sjúkraflutningamenn tékka á henni, fyrst þeir voru nú mættir á staðinn. Ég náði meira að segja að daðra aðeins við þá. Við keyrðum svo að Aktu taktu þar sem ég mokaði í hana samloku og hékk hún eðlileg þar sem eftir var dags. Víst er að eftir þessa reynslu mun ég ekki hætta mér upp í bíl án þess að gera blóðsykurspróf á ökumanninum. Svona ævintýri eru frekar óþægileg fyrir hækjuhöktara. Var samt fyndið að heyra hana gelta....
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Gvuuði sé lof að enginn vissi að flissandi, geltandi geðsjúklingurinn og hækjuhöktarinn eru hluti af mínu nánasta skylduliði.
Man það næst að vera í t-shirt með áletruninni: Ég er systir Steingerðar
Post a Comment