Friday, January 12, 2007

Nördahápunktur vikunnar !! Halastjarna gripin glóðvolg á morgunhimni

Jæja, loksins tókst mér að sjá halastjörnuna góðu sem ég er búin að eltast við alla vikuna. Í gærmorgun hljóp ég niður í Elliðaárdal áður en ég fór í vinnuna og reyndi að sjá hana. Eina sem ég hafði upp úr krafsinu var að frjósa inn að beini í -8°C sem voru úti þá stundina. Þegar ég kom í vinnuna kvartaði ég sáran við yfirmann minn yfir halastjörnuleysinu og hann tók sig til og dreif alla deildina upp að Perlunni. Þar biðum við dágóða stund en að lokum uppskárum við laun erfiðisins. Allir hinir komu reyndar auga á stjörnuna á undan mér, þar sem ég hafði af einskærri snilld skilið gleraugun eftir heima. En verandi meganörd, var ég auðvitað með litla fuglaskoðunarkíkinn minn með mér. Ég svipti honum upp og viti menn, við blasti þessi líka glæsilega halastjarna sem vinkaði glaðlega til mín með halanum. Ég get því stært mig af því að hafa séð 3 halastjörnur, þær Halley, Hale-Bopp og McNaught. Verst að hafa ekki aðgang að góðum stjörnusjónauka. Kannski gæti ég fundið eina í fyrsta sinn og fengið hana nefnda eftir mér. Þá gæti ég dáið og farið til nördahimna, sæl og södd lífdaga.

Saturday, January 06, 2007

Frostrósirnar urðu mér að falli

Í gærkvöldi brá ég mér af bæ og fór á spilakvöld hjá Helgu vinkonu. Úti var mögnuð slagveðursrigning og ég kom inn til hennar rennandi blaut eftir nokkur skref í úrhellinu. Þegar kominn var tími til að halda heim hafði veðrið breyst all verulega. Komið var frost og stilla og fallegt tunglskin úti. Ég kom að bílnum mínum og starði á hann. Hann var allur þakinn frostrósum. Ekki bara rúðurnar heldur húddið, hliðarnar og þakið ! Þetta var alveg gullfallegt að sjá. Ég skellti mér inn í rósótta bílinn minn og keyrði þessa örfáu metra sem eru á milli húsanna okkar Helgu (hún býr í Austurberginu) og lagði í stæðið mitt. Þegar ég kom út úr bílnum ákvað ég að skoða fallegu frostrósirnar betur. Ég hóf því að rölta í kringum bílinn að skoða mynstrin sem voru alveg ótrúleg og öll mismunandi. Bergnumin tók ég ekki eftir því smáatriði að það var ansi hált á planinu. Það voru mistök, því svo vissi ég ekki fyrr en ég flaug beint á rassinn og rann hálf undir bílinn minn. Mín fyrsta hugsun eftir lendinguna var: hvað brotnar núna ? En mér til mikillar gleði var allt heilt, ég var bara helaum í bossanum og síðunni. Til allrar lukku virtust ekki vera nein vitni. Hefði verið leiðinlegt að þurfa að drepa þau. Þegar ég staulaðist inn leit ég í síðasta sinn á flotta rósótta bílinn og skreiddist svo upp stiganna upp á fjórðu hæð. Beauty is pain fékk nýja merkingu.

Friday, November 24, 2006

Hagamús verður húsamús

Þar sem allir þekkja minn brennandi dýraáhuga var ég sú fyrsta sem kom upp í huga Helenar systur þegar kötturinn hennar dró inn mús um daginn. Músin slasaðist og Helen hringdi í mig til að fá ráðleggingar um framhaldið. Ég sagði henni að fara með hana i hvelli upp á dýraspítala. Þar yrði hún aflífuð (þeas. músin, ekki Helen) ef hún væri of slösuð, annars skyldi ég taka hana og hjúkra henni. Seinna um daginn sá ég að komin voru skilaboð inn á talhólfið mitt. Þau voru frá systur minni sem söng engilblítt: Þú átt litla mús, hún heitir Heiðar... Dýralæknirinn hafði sem sagt kyngreint músina og dæmt hana lífvænlega ef hún bara fengi smá hvíldartíma. Ég sótti því krílið og setti það í eitt af mínum fjölmörgu nagdýrabúrum. Músin, sem fékk nafnið Dangermouse eftir breskri teiknimyndahetju, dafnaði vel og brátt taldi ég hana reiðubúna til að fá frelsið á ný. Það var þó alltaf að frestast. Það var of kalt, of mikil rigning, of dimmt, ég of þreytt... Loks kom að því einn morguninn að músin fékk frelsið. Algerlega án minnar aðstoðar. Jú, litla gerpið hafði sloppið út úr fína nýja búrinu sem ég var búin að setja það í. Nú voru góð ráð dýr. Ég skreið um allt og leitaði að músinni en sú leit bar engan árangur. Enda frekar auðvelt að fela sig þegar maður er í þessari stærð. Þetta gerðist á laugardegi. Þegar músin var ekki fundin á mánudegi fékk ég lánaða "mannúðlega" músagildru hjá meindýraeyðunum í vinnunni. Á hverjum degi kíkti ég vongóð í gildruna - alltaf var sama sagan, engin veiði. Hvergi sást til mýslu en einhver át gat á jógamottuna mína og músaskítur fannst við fataskápinn minn. Á fimmtudagsmorgni kom ég inn í eldhús og sá þá kunnuglega veru undir eldhúsborðinu. Við horfðumst í augu smá stund síðan lét mýsla sig hverfa undir ísskáp. Jæja, að minnsta kosti vissi ég núna hvar músin var. Gildran var flutt í eldhúsið og hurðinni haldið lokaðri til að mýsla slyppi ekki fram. Við Hilda reyndum að lyfta ísskápnum, sáum þar músina en náðum henni ekki þar sem hún stökk undir einhverja járnplötu og hvarf inn í innviði ísskápsins. Ég hafði af því nokkrar áhyggjur, en ísskápurinn kældi sem aldrei fyrr svo litli flóttamaðurinn virtist ekki að valda neinum skaða. Á laugardagskveldi hitti ég mýslu við eldhúsvaskinn. Með leiftursnöggum hreyfingum reyndi ég að fanga hana í kassa en með ótrúlegum stökkum og ljóshraða brunaði hún eftir innréttingunni og klifraði niður ristina aftan á ísskápnum og hvarf. Andskotinn. Ég var komin á fremsta hlunn með að kaupa Ómannúðlega músagildru þegar ég staulaðist fram í eldhús á mánudagsmorgni og viti menn, það var fangi í gildrunni. Mannúðin var ekki meiri í gildrunni en svo að greyið hafði klemmt framlöppina í henni en mér tókst snarlega að bjarga því. Núna dvelur músin í rammgirtu búri og nýtur hjúkrunarkrafta minna enn á ný. Ekki get ég sleppt henni núna, með slasaða framlöpp ?? Komin aftur á byrjunarreit. Sumir hafa ásakað mig um að vilja bara eiga mýslu. Hvernig dettur fólki svona í hug ? Ekki eins og ég hafi safnað svona dýrum í kringum mig. Ahemm. Best að hætta núna..

Thursday, October 26, 2006

Spældar spákonur

Las í Fréttablaðinu í dag að símaspákonur væru afar ósáttar við Símann vegna hárrar gjaldtöku. Spákonurnar taka 200 kr á mínútuna og var það þannig fyrst að Síminn fékk 50 kr af þeirri upphæð og þær rest. Nú hefur Síminn hinsvegar breytt gjaldskránni og tekur nú af þeim 100 kr ! Ég segi nú bara, hefðu þær ekki átt að sjá þetta fyrir .... ?

Saturday, October 14, 2006

Afslappaður karlmaður í herberginu mínu


Hér er karlmaðurinn í lífi mínu núna. Hann vill alltaf vera nálægt mér og kúrir við endann á rúminu mínu. Hann er þögla týpan og er aldrei að rífast við mig. Sumum finnst að ég ætti að fara að drífa mig út og fara að hitta alvöru karl. Skrítið... Posted by Picasa

Friday, September 29, 2006

Myrkraverk í Reykjavík

Það var nú aldeilis gaman að horfa yfir myrkvaða Reykjavíkurborg í gær. Klukkan 10 stakk ég hausnum út um gluggann og ætlaði að skoða birtu næturhiminsins meðan dimman ríkti. Ég dró hausinn fljótt inn aftur enda fékk ég ofbirtu í augun af flóðljósunum á byggingarkrananum sem stendur í Vatnsendahverfinu. Ekki má gleyma götuljósum hesthúsahverfisins sem öll voru kveikt. Eða bílljósunum sem loguðu aldrei fleiri á götunum í kring. Ég ákvað að kíkja út á svalir og sjá hvort meira myrkur væri þar. Vá. Ótrúlegt að fólkið í raðhúsunum við hliðina skuli geta komist inn með óskaddaða sjón þegar það þarf að labba undir aflöngu útidyraljósin sem lýsa jafnskært og ljósaskilti fyrirtækja. Það var nú reyndar slökkt í mörgum gluggum í blokkunum í kring, en bílljósin ljómuðu um allt eins og hinumegin. Eina huggunin var að það var hvort sem er skýjað. Legg til að næst verði bara öllu draslinu kippt úr sambandi. Kannski skilja eftir smá rafmagn á spítulunum samt...

Tuesday, September 19, 2006

Hversu marga þarf til að fjarlægja sauma úr fætinum á heilbrigðisfulltrúa ?

Síðasta miðvikudagskvöld voru saumarnir teknir úr löppinni á mér. Það gerði dýralæknir aðstoðaður af karlkyns hjúkku sem hélt uppi vasaljósi yfir ökklanum sem hvíldi á eldhúskolli. Eftir nokkuð þóf tókst að plokka spottana úr mér, en til öryggis var læknir frá Náttúrulækningahælinu í Hveragerði beðinn að fara yfir verkið. Hann gaf sína blessun og er því naglhreinsiævintýri mínu opinberlega lokið. Ég tek það fram að hér er rétt og satt sagt frá :-)