Friday, November 24, 2006

Hagamús verður húsamús

Þar sem allir þekkja minn brennandi dýraáhuga var ég sú fyrsta sem kom upp í huga Helenar systur þegar kötturinn hennar dró inn mús um daginn. Músin slasaðist og Helen hringdi í mig til að fá ráðleggingar um framhaldið. Ég sagði henni að fara með hana i hvelli upp á dýraspítala. Þar yrði hún aflífuð (þeas. músin, ekki Helen) ef hún væri of slösuð, annars skyldi ég taka hana og hjúkra henni. Seinna um daginn sá ég að komin voru skilaboð inn á talhólfið mitt. Þau voru frá systur minni sem söng engilblítt: Þú átt litla mús, hún heitir Heiðar... Dýralæknirinn hafði sem sagt kyngreint músina og dæmt hana lífvænlega ef hún bara fengi smá hvíldartíma. Ég sótti því krílið og setti það í eitt af mínum fjölmörgu nagdýrabúrum. Músin, sem fékk nafnið Dangermouse eftir breskri teiknimyndahetju, dafnaði vel og brátt taldi ég hana reiðubúna til að fá frelsið á ný. Það var þó alltaf að frestast. Það var of kalt, of mikil rigning, of dimmt, ég of þreytt... Loks kom að því einn morguninn að músin fékk frelsið. Algerlega án minnar aðstoðar. Jú, litla gerpið hafði sloppið út úr fína nýja búrinu sem ég var búin að setja það í. Nú voru góð ráð dýr. Ég skreið um allt og leitaði að músinni en sú leit bar engan árangur. Enda frekar auðvelt að fela sig þegar maður er í þessari stærð. Þetta gerðist á laugardegi. Þegar músin var ekki fundin á mánudegi fékk ég lánaða "mannúðlega" músagildru hjá meindýraeyðunum í vinnunni. Á hverjum degi kíkti ég vongóð í gildruna - alltaf var sama sagan, engin veiði. Hvergi sást til mýslu en einhver át gat á jógamottuna mína og músaskítur fannst við fataskápinn minn. Á fimmtudagsmorgni kom ég inn í eldhús og sá þá kunnuglega veru undir eldhúsborðinu. Við horfðumst í augu smá stund síðan lét mýsla sig hverfa undir ísskáp. Jæja, að minnsta kosti vissi ég núna hvar músin var. Gildran var flutt í eldhúsið og hurðinni haldið lokaðri til að mýsla slyppi ekki fram. Við Hilda reyndum að lyfta ísskápnum, sáum þar músina en náðum henni ekki þar sem hún stökk undir einhverja járnplötu og hvarf inn í innviði ísskápsins. Ég hafði af því nokkrar áhyggjur, en ísskápurinn kældi sem aldrei fyrr svo litli flóttamaðurinn virtist ekki að valda neinum skaða. Á laugardagskveldi hitti ég mýslu við eldhúsvaskinn. Með leiftursnöggum hreyfingum reyndi ég að fanga hana í kassa en með ótrúlegum stökkum og ljóshraða brunaði hún eftir innréttingunni og klifraði niður ristina aftan á ísskápnum og hvarf. Andskotinn. Ég var komin á fremsta hlunn með að kaupa Ómannúðlega músagildru þegar ég staulaðist fram í eldhús á mánudagsmorgni og viti menn, það var fangi í gildrunni. Mannúðin var ekki meiri í gildrunni en svo að greyið hafði klemmt framlöppina í henni en mér tókst snarlega að bjarga því. Núna dvelur músin í rammgirtu búri og nýtur hjúkrunarkrafta minna enn á ný. Ekki get ég sleppt henni núna, með slasaða framlöpp ?? Komin aftur á byrjunarreit. Sumir hafa ásakað mig um að vilja bara eiga mýslu. Hvernig dettur fólki svona í hug ? Ekki eins og ég hafi safnað svona dýrum í kringum mig. Ahemm. Best að hætta núna..

Thursday, October 26, 2006

Spældar spákonur

Las í Fréttablaðinu í dag að símaspákonur væru afar ósáttar við Símann vegna hárrar gjaldtöku. Spákonurnar taka 200 kr á mínútuna og var það þannig fyrst að Síminn fékk 50 kr af þeirri upphæð og þær rest. Nú hefur Síminn hinsvegar breytt gjaldskránni og tekur nú af þeim 100 kr ! Ég segi nú bara, hefðu þær ekki átt að sjá þetta fyrir .... ?

Saturday, October 14, 2006

Afslappaður karlmaður í herberginu mínu


Hér er karlmaðurinn í lífi mínu núna. Hann vill alltaf vera nálægt mér og kúrir við endann á rúminu mínu. Hann er þögla týpan og er aldrei að rífast við mig. Sumum finnst að ég ætti að fara að drífa mig út og fara að hitta alvöru karl. Skrítið... Posted by Picasa

Friday, September 29, 2006

Myrkraverk í Reykjavík

Það var nú aldeilis gaman að horfa yfir myrkvaða Reykjavíkurborg í gær. Klukkan 10 stakk ég hausnum út um gluggann og ætlaði að skoða birtu næturhiminsins meðan dimman ríkti. Ég dró hausinn fljótt inn aftur enda fékk ég ofbirtu í augun af flóðljósunum á byggingarkrananum sem stendur í Vatnsendahverfinu. Ekki má gleyma götuljósum hesthúsahverfisins sem öll voru kveikt. Eða bílljósunum sem loguðu aldrei fleiri á götunum í kring. Ég ákvað að kíkja út á svalir og sjá hvort meira myrkur væri þar. Vá. Ótrúlegt að fólkið í raðhúsunum við hliðina skuli geta komist inn með óskaddaða sjón þegar það þarf að labba undir aflöngu útidyraljósin sem lýsa jafnskært og ljósaskilti fyrirtækja. Það var nú reyndar slökkt í mörgum gluggum í blokkunum í kring, en bílljósin ljómuðu um allt eins og hinumegin. Eina huggunin var að það var hvort sem er skýjað. Legg til að næst verði bara öllu draslinu kippt úr sambandi. Kannski skilja eftir smá rafmagn á spítulunum samt...

Tuesday, September 19, 2006

Hversu marga þarf til að fjarlægja sauma úr fætinum á heilbrigðisfulltrúa ?

Síðasta miðvikudagskvöld voru saumarnir teknir úr löppinni á mér. Það gerði dýralæknir aðstoðaður af karlkyns hjúkku sem hélt uppi vasaljósi yfir ökklanum sem hvíldi á eldhúskolli. Eftir nokkuð þóf tókst að plokka spottana úr mér, en til öryggis var læknir frá Náttúrulækningahælinu í Hveragerði beðinn að fara yfir verkið. Hann gaf sína blessun og er því naglhreinsiævintýri mínu opinberlega lokið. Ég tek það fram að hér er rétt og satt sagt frá :-)

Tuesday, September 05, 2006

Undarleg augnatillit

Ég fékk undarleg augnatillit síðasta sunnudag þegar ég labbaði niður göngustíg við golfvöllinn í Mosfellsbæ með fýl í höndunum. Ég starði á móti með augnaráði sem sagði: Og hvað, má maður ekki fara í göngutúr með fýlinn sinn í þessum bæ ??? Ég bar höfuðið hátt um leið og ég skálmaði fram hjá golfskálanum og hélt fýlnum beint fyrir framan mig eins og hann væri nýja Gucci veskið sem ég væri að monta mig af. Ég klöngraðist niður í fjöru með fýlinn og sleppti honum. Undarlegu augnatillitin fylgdu mér enn þegar ég gekk aftur að bílnum. Var eiginlega betra þegar ég var með fýlinn, fannst ég hreinlega nakin án hans á bakaleiðinni. Mæli frekar með veskjum en fýlum sem aukahlutum fyrir göngutúr, þau lykta betur.

Thursday, August 31, 2006

You wanna go where everybody knows your name...

Það er eiginlega aðeins of mikið að mæta á bæklunarskurðdeild og hjúkkan sem sér um hana heilsar þér glaðlega og rifjar upp fyrri aðgerðir og yfirmaður deildarinnar kemur inn að hitta sjúkling, sér þig og segir: Nei, er þetta ekki Svava ! Komin í naglhreinsun ?

Wednesday, August 30, 2006

Pödduhúsaáhrifin

Greinilegt að loftslagið er að breytast á Íslandi. Ég er búin að sjá undarleg skordýr í allt sumar sem ég hef ekki séð áður. Sá risastóra gulröndótta fiðrildalirfu í Elliðaárdalnum í gær, getur ekki hafa tilheyrt neinni íslenskri tegund ! Var að ræða þetta í morgun í vinnunni, aðrir hafa ekki tekið eftir þessu. Kannski er ég sú eina sem er alltaf að horfa á pöddur....hmmmmm

Friday, August 25, 2006

Hversu erfitt er að bóka eina aðgerð ??

Eins og alþjóð veit braut ég á mér ökklann nú á vordögum. Við það tilefni stungu læknarnir tveimur teinum inn í ökklann og þremur ansi stórum skrúfum. Nú er sem sagt fyrirhugað að fjarlægja fyrrnefnda teina, skrúfurnar fá hinsvegar að vera á sínum stað þar til ég hrekk upp af. Verður gaman fyrir fornleifafræðinga að krukka í mín bein. Læknirinn minn sagði mér í júlí að aðgerðin yrði gerð um miðjan ágúst. Hringt yrði í mig í byrjun mánaðarins til að gefa mér dagsetningu. Jæja, júlí endar og ágúst byrjar. Fyrsta vikan í mánuðinum líður. Svo fer að líða á aðra vikuna. Þann 11. ágúst hringi ég í spítalann og tala við konuna sem sér um að bóka aðgerðir. Hún sagði mér að deildin væri enn lokuð, læknarnir meira eða minna í fríi og ég fengi ekki tíma fyrir aðgerð fyrr en 30. ágúst. Allt í lagi, 30. flokkast seint sem miður mánuður, en að minnsta kosti var þetta í ágúst. Vitandi þessa dagsetningu bókaði ég mig í eftirlit og fundi í vinnunni og sagði yfirmönnum að ég færi undir hnífinn þennan dag. Á mánudagseftirmiðdaginn síðasta hringir svo gemsinn. Þá er það konan góða að hringja og spyrja hvort ég kæmist í aðgerð á miðvikudagsmorguninn. Nei, ekki væri það hægt, ég var jú búin að gera ýmsar skuldbindingar þar sem ég reiknaði með 30. Ég útskýrði þetta fyrir henni og hún sagðist þá hafa mig áfram á upphaflega deginum. Svo rennur upp fimmtudagur. Hringir ekki vinkona mín frá spítalanum og spyr hvort ég geti samþykkt að flytja aðgerðina á mánudaginn 28. ? Nei, eiginlega ekki, svaraði ég henni og útskýrði aftur með fundarbókun og sýnatökur. Já, segir hún, þá dregst þetta nú örugglega. Ekki leist mér á það, svo ég sagði henni að ef ekki væri hægt að halda sig við 30. yrði ég að taka þann 28. til að losna við bölvaða teinana. Ég get spurt lækninn segir hún. Svo ítrekar hún að sleppi ég 28. muni aðgerðin dragast. Ég bið hana aftur að tala við lækninn og gá hvort hægt sé að halda sig við 30., þar sem ég vilji ekki vera skorin í september.Þá segir konan pirruð: ég get ekki hringt aftur, þú verður að velja annanhvorn daginn núna. Nú, segi ég, er s.s. 30. enn inni í myndinni, ég hélt að þetta myndi dragast fram í september. Ég nefndi aldrei september, veldu annan daginn segir konan æst. Nú, ég tek 30. segi ég. Það gæti dregist, segir konan þá. Á þessum tímapunkti langaði mig að öskra. Er 30. sem sagt ekki örugg dagsetning spyr ég ? Allt getur breyst, segir konan leyndardómsfull eins og véfrétt og kvaddi. Er það bara ég sem myndi telja að ef aðgerð dregst eitthvað fram yfir 30. ágúst er orðið ansi líklegt að hún endi í september ?? Sem sagt, ég er "sennilega" að fara í aðgerð þann 30. Hef farið í tvær aðrar aðgerðir og þá var ekkert mál að finna dagsetningu. Ó þeir gömlu góðu dagar !

Wednesday, August 23, 2006

Sjálfshjálparbók: Hvernig ná skal móður sinni út af læstu baðherbergi

Síðustu helgi dvaldi ég í góðu yfirlæti í sumarbústað í Ölfusborgum sem móðir mín hafði tekið á leigu. Ég var með Steingrím litla stuðningsson minn með og Helen systir mætti einnig á svæðið með Sölku, tíu ára stelpu sem hún var að passa. Að sjálfsögðu var heitur pottur á staðnum og við systur ákváðum að skella okkur í hann og slappa af. Mamma ætlaði líka í pottinn en hana var hvergi að sjá þegar við systur vorum komnar ofan í. Eftir smá stund fóru einkennileg högg að berast innan úr bústaðnum. Okkur þótti þetta fremur skrýtið og ég kallaði inn: "Ertu farin að reka smíðaverkstæði þarna inni mamma ?". Ekkert svar barst en barsmíðarnar héldu áfram. Loks sagði Salka litla: "Ég held að mamma ykkar sé læst inni á klósetti". Við Helen litum hvor á aðra. Gat þetta virkilega verið ? Við sprungum að sjálfsögðu úr hlátri. Helen spratt svo upp úr pottinum og fór að klósetthurðinni. Ojú, mikið rétt, sú gamla var harðlæst inni og búin að djöflast á hurðinni nokkra stund. Á milli þess sem hún flissaði glaðlega reyndi Helen að hjálpa henni að opna en ekkert gekk. Þá kom ég og reyndi mitt besta. Enginn árangur. Salka litla spurði áhyggjufull hvort hún gæti nokkuð dáið þarna inni ? Við höfðum nú litlar áhyggjur af því, enda baðherbergi sennilega með bestu herbergjum til að læsast inni í þar sem nóg er vatnið og klósett til staðar. Loks höfðum við gert allt sem við gátum. Það var bara eitt eftir í stöðunni. Og það var að hringja í Svanhildi systur og deila með henni þessum bráðfyndna atburði. Vart þarf að taka fram að henni fannst þetta ekkert sérlega sorglegt. Helen fór svo og reddaði númeri hjá umsjónamanni bústaðanna og kom hún á staðinn með verkfæratösku og reyndi að skrúfa húninn úr. Helen rétti mömmu bjór inn um gluggann til að róa taugar gömlu konunnar. Við vorum farnar að sjá fyrir okkur að þurfa að senda henni matarbirgðir sömu leið. Jæja, umsjónarkonan gat ekkert gert og var því kallaður til karlmaður úr næsta bústað sem sparkaði upp hurðinni. Mamma var frelsinu fegin og lofaði það að nú væri að minnsta kosti ómögulegt að læsa sig þarna inni aftur. Við stungum þá upp á því að hún reyndi að læsa sig inni í geymslunni næst. Heldur tók hún fálega í það. Þetta var óvænt skemmtun sem mun skilja eftir minningar sem við systur getum yljað okkur við í mörg ár.

Friday, August 18, 2006

Eigum við að skreppa í efnalaugina ?

Tengdarmamma Sifjar vinkonu var að segja mér að sundlaugin á Eskifirði er nú í daglegu tali nefnd "Efnalaugin". Muahaahahhahha :-)

Tuesday, August 15, 2006

Árás vatnsslöngunnar eða sagan af Svövu hinni holdvotu

Á mánudagsmorguninn fór ég með bílinn minn í viðgerð. Einhver stelpukjáni var svo indæl að bakka á nefið á honum og setja fallega v-laga dæld í stuðarann. Árekstursstaðurinn var nákvæmlega á miðjum stuðaranum og bílnúmerið stóð út eins og opinn fuglsgoggur eftir höggið. Þar sem bíllinn var verulega skítugur eftir hringferð okkar mæðgna um landið ákvað ég að fara og þvo hann á sunnudaginn. Ómögulegt að mæta með bílinn svona á verkstæðið. Ég var lengi að herða mig upp í að fara en tókst með ótrúlegum viljastyrk að koma mér og bílnum út á þvottaplan næstu Shell stöðvar. Bílaþvottur hefur aldrei verið mitt uppáhald enda fylgir honum oftast blautir fætur og hendur. Jæja, ég greip mér kúst í hönd og skrúfaði einbeitt frá vatninu, aldeilis til í slaginn. Þá losnaði slangan af kústinum og tók að hringsnúast upprétt á planinu alveg eins og eiturslanga. Það var engu líkara en að slangan hvæsti ógnandi um leið og hún jós yfir mig vatni af miklum krafti. Ég stökk að krananum og reyndi að skrúfa fyrir vatnið. Viti menn, haldið þið að kraninn hafi ekki verið bilaður. Það tók því nokkrar mikilvægar sekúndur í viðbót að finna út rétta stöðu fyrir hann til að stoppa árans vatnsrennslið. Loksins tókst mér að loka fyrir vatnið og slangan lyppaðist niður örmagna eftir hamaganginn. Eftir stóð ég, holdvot og frekar pirruð. Bíllinn var enn jafn skítugur og því ekkert annað að gera en að grípa næsta kúst. Sá lak hressilega við endann, en slíkir smámunir skiptu mig ekki máli þar sem það var hvort sem er ekki þurr þráður á mér. Það var frekar köld og vot kona sem staulaðist inn í nýþveginn bílinn sinn kortéri síðar. Það var ekki hamingjubros á hennar vörum, trúið mér.

Friday, July 28, 2006

Pirringur dagsins

Það fer verulega í taugarnar á mér að í fjölmiðlum, blöðum og bókum er nú alltaf talað um að fólk "taki sitt eigið líf" þegar það fremur sjálfsmorð. Halló ! Þetta er ENSKA ! Took his own live etc. Mér finnst þetta svo kauðalegt og hallærislegt. Tók hann sitt eigið líf og fór með það hvert ??? Tökum höndum saman og fremjum sjálfsmorð eða sjálfsvíg eins og í góðu gömlu dagana ! Hmm, ekki taka mig alveg bókstaflega þarna...

Wednesday, July 26, 2006

Svava í mýflugumynd

Ég tók mig til í gærkvöldi og rölti niður að Elliðavatni. Þetta er leið sem ég hef gengið ansi oft síðan ég flutti hingað í Breiðholtið og hef alltaf jafngaman af. Fjarlægðin fram og tilbaka er um 3 km. Leiðin liggur yfir ánna, undir vegbrúnna, meðfram ánni og þýfðum móum niður að stíflunni við vatnið. Í gær var dásamlegt veður. Alveg stillt, hlýtt og sólin ekki of sterk. Ég var því í góðu skapi og létt í spori. Lítill lóuungi spígsporaði á undan mér eftir göngustígnum drjúgan spöl, skúfönd synti á ánni með fjóra litla hnoðra og í grynningunum við brúnna sá ég tvo laxa. Fullkomið kvöld, hugsaði ég um leið og ég nálgaðist stífluna. Ég gekk upp að grindverkinu sem er á garðinum við stífluna og horfði dáleidd yfir spegilslétt vatnið. Lífið var yndislegt í nokkrar sekúndur, síðan birtist fyrsta mýflugan. Svo sú næsta. Þá um tvö þúsund vinir þeirra. Já, bráðum var þarna risapartí og í því ein sem var ekki boðið. Það var alveg sama hvernig ég reyndi að banda flugunum frá mér, þær virtust bara æsast upp við það og þéttu hópinn. Ég brá því á það ráð að ganga til baka hröðum skrefum í von um að stinga flugurnar af. Litlu andskotarnir voru búnir að sjá þessa lausn fyrir og búnir að kalla á liðsauka allt í kring. Það var sama hvert ég gekk, allt var morandi í mýflugum. Sem fylgdu mér eins og þrumuský. Að lokum var ég komin lafmóð í brekkuna upp að húsinu mínu. Flestar flugurnar voru þá búnar að gefast upp en ég hef ekki tölu á þeim sem létu lífið í augnkrókunum á mér, í hárinu þegar ég strauk það frá andlitinu eða í munninum á mér þegar ég tók andköf af mæði. Mun taka með mér brúsa af einhverju eitruðu í næsta göngutúr !

Tuesday, July 25, 2006

Fegurðardís í fegrunarátaki

Á laugardaginn mætti ég galvösk kl. 11 við sundlaugina til að taka þátt í fegrunarátaki borgarstjóra í Breiðholtinu. Eða réttara sagt, dróst fram úr með erfiðismunum og tókst með ótrúlegum viljastyrk að koma mér af stað tímanlega. Borgarstjóri var mættur á staðinn og skoppaði ofvirkur um og tætti upp fífla við sundlaugarvegginn. Ég lét minna á mér bera og greip við fyrsta tækifæri ruslasekk og tínu og hélt svo af stað til að hreinsa græna svæðið fyrir neðan blokkina mína. Ég var klædd í appelsínugult vesti merkt fegrunarátakinu og hef örugglega verið sýnileg úr lofti allt upp í 30.000 feta hæð. Eftir að hafa týnt upp 30 sígarettupakka, slatta af stubbum, skyndibitabréf og 4 notaðar sprautur sá ég að besta leiðin til að hreinsa Breiðholtið er að kála reykingarfólkinu og þeim sem borða skyndibita á svæðinu. Þegar búið er að slátra þessum hópum verður afarhreinlegt og rólegt hér, það er eitt sem víst er. Ruslatínsla mín var aðeins trufluð af því þegar bílar keyrðu framhjá og flautuðu á mig. Ég var ekki lengi að sjá það út að það var vestið sem gerði mig svo kynþokkafulla að allir sáu sig knúna til að liggja á flautunni til að sýna aðdáun sína. Alger fegurðardís, ómótstæðileg og appelsínugul. Eftir 2 klst. ruslatínslu dró ég níðþungan sekkinn að sundlauginni, lagði vestið góða og tínuna á hilluna og stakk af úr bænum. Sæl og ánægð með að hafa uppfyllt þegnskyldu mína og enn að njóta þeirrar athygli sem athafnir dagsins höfðu gefið mér (honk honk bííp bííp). Daginn eftir hringdi vinkona mín, kát og glöð. Á baksíðu sunnudagsmoggans mátti sjá ljósmynd frá fegrunarátakinu. Í bakgrunninum sést illilegur kvenmaður í bláum gallajakka sem horfir hvössum brúnum á skipuleggjandann. Ekki svo kynþokkafull lengur, eh ? Þarf að ná í vestið aftur, það ætti að gera mig spennandi á ný.

Friday, July 21, 2006

Annus horribilis

Svo ég vitni í orð stórvinkonu minnar Betu Bretadrottningar þá hefur árið 2006 verið Annus horribilis fyrir mig. Vissulega hafa börnin mín ekki skilið né kviknað í kastalanum mínum (atburðir sem gerðu Betu lífið leitt '92) en það eru smáatriði eins og erfiðir kjarasamningar, veikindi, einn brotinn ökkli, bilaður bíll, bilandi tölva og svoleiðis sem hafa glatt mig í ár. Kíkjum á síðustu daga: ég var að punga út 37 þúsundum í bílaviðgerðir. Heppin. Tölvan mín hefur tekið upp á því að gera skjáinn brúnan og nær ólæsilegan á milli þess sem hún slökkvir óvænt á sér. Heppin. Báðir ökklarnir á mér, hnén og mjaðmirnar er að drepa mig. Heppin. Blöndunartækin í baðinu eru að gefa sig. Heppin. Gaaa ! Hvað er í gangi ?? Reyndar er þetta ekki fyrsta annus horribilis sem ég upplifi. Frá árinu 2003 hefur óheppnin elt mig á röndum. Ökklabrot, misheppnuð ökklaaðgerð, bílslys, Brad Pitt kaus Angelinu frekar en mig.... gaman gaman. Reyndar viðurkenni ég að það er ekki allt svart. Ég er búin að fara í tvær frábærar utanlandsferðir í ár, alveg slysalaust. Þá hafa ýmsar upplifanir glatt mig hin óhappaárin líka. Svo er málið að fara í Pollýönu leikinn: það eru jú aðrir sem hafa það miklu verra en ég. Að vísu hefði ég getað notað hækjurnar sem hún fékk sendar frá Vetrarhjálpinni og gladdist yfir að þurfa ekki. Æ, stundum langar manni bara að röfla yfir lífinu. Þegar allt bilar samtímis getur verið erfitt að sjá ljósið. Nema kannski ljósið við endann á göngunum þegar maður er genginn í sjóinn. Sjáum samt til, ég ætla í partí til Pollýönu og vona að afganginn af árinu færi mér meiri heppni. P.s. Ef einhver hefur stolið höfuðhári mínu og lagt á mig voodoo bölvun, þá hef ég aðeins eitt við þann aðila að segja: Ég mun finna þig í fjöru !

Monday, July 17, 2006

Sítrónuilmur er lykt hreinlætisins

Í dag stoppaði nágranni mig í stiganum á leiðinni út til að ræða við mig skort á þvottaefni fyrir sameignina. Ég er formaður húsfélagsins og sé því um öll innkaup. "Mundu að kaupa með sítrónulykt", sagði nágranninn ákafur um leið og ég hvarf út um dyrnar. Jahá, hugsaði ég, hvað annað. Síðan ég flutti hér inn fyrir 5 árum hefur alltaf verið sítrónuilmur tengdur þrifum á sameigninni. Fyrst gaus ilmurinn upp vikulega á föstudögum þegar hreingerningaþjónustan okkar kom til að þrífa. Eftir nokkurn tíma komumst við að því að það eina sem útsendarar þjónustunnar gerðu var að ganga upp og niður stigann og úða sítrónuilm til að gabba okkur til að halda að allt væri hreint. Þeim var í kjölfarið sagt upp og við tókum þrifin að okkur sjálf. En sítrónuilmurinn hélt áfram. Þáverandi húfélagsformaður keypti sítrónu Ajax fyrir gólfin og sítrónugluggahreinsi. Ef ekki fannst sítrónuilmur á sunnudegi var nokkuð víst að einhver var ekki að standa sig í sameignarþrifum. Enda kepptust flestir við að úða sítrónuhreinsinum á allt sem fyrir varð til að sanna að búið væri að þrífa. Nú er greinilega svo komið að fólkið hér er orðið háð sítrónuilminum. Þegar ég fór að hugsa um þetta fór ég svo að skoða hreinisefnin mín fyrir heimilið. Klósetthreinsirinn, leysigeislinn og uppþvottalögurinn eru allir með sítrónuilmi ! Og sérstöku Ajax klósetthreinsiklútarnir líka. Fimm ár hér í húsinu gera mann sem sagt að sítrónulyktarfíkil ! Hver eru meðferðarúrræðin ??

Thursday, July 13, 2006

Vírklippukanínan slær til enn á ný

Mín beið óvænt ánægja þegar ég kom heim úr vinnunni í dag. Kanínan hafði brugðið sér að sjónvarpinu og hakkað í sundur sjónvarpssnúruna. Þannig vildi hún forða mér frá of miklum amerískum áhrifum og lélegu sjónvarpsefni. Þó ég sé þakklát fyrir umhyggju hennar verð ég að segja að þetta var frekar óheppilegt. Ég hafði nefnilega hugsað mér að eyða kveldinu fyrir framan imbann og horfa á raunveruleikasjónvarp. Nú neyðist ég til að vera menningarleg og lesa þar til einhver mágur getur komið og reddað málum. Veit ekki alveg hvað unglingurinn á heimilinu mun segja við þessu...

Tuesday, July 11, 2006

Færa fjögurra laufa smárar manni lukku ?

Nýjasta æðið hjá mér er tölvuleikur á leikjanet.is sem heitir Lucky clover. Leikurinn er sáraeinfaldur, hann felst í því að leita í gegnum smárabreiðu að 7 fjögurra laufa smárum sem þar eru faldir. Fyrst gekk ekkert sérstaklega vel að finna þá en brátt var ég farin að finna 6 af 7 í flestum spilum. Því miður gekk illa að finna þann sjöunda, ekki bætir úr skák að spilið virðist hafa eigin skoðanir á því hvenær tíminn er útrunninn. Þó svo talið sé niður úr 300 sekúndum hættir spilið snögglega á bilinu 40-70 og maður er kvaddur með virktum. Fnys. En þrátt fyrir ágallana er ég sjúk í spilið og hefur mér nú lukkast að finna alla sjö smárana í einu spili. Svo tekur við að reyna að bæta metið. Ástæðan fyrir því hve vel mér fellur við leikinn er falin í fortíðinni. Þegar ég var barn elskaði ég að leita að fjögurra laufa smárum hingað og þangað um hverfið. Þrátt fyrir ítrekaða leit tókst mér ekki að finna fjögurra laufa smára fyrr en kvöld eitt þegar ég var 12 ára og var að leika mér við Æfingaskólann. Ég var orðin þreytt og lét mig fallast niður í grasið á baklóðinni og lenti beint í smárabreiðu. Af gömlum vana renndi ég augunum eftir henni og viti menn ! Við mér blasti fjögurra laufa smári !! Ég kallaði á hina krakkana í hvelli og allir fóru að leita að fleiri lukkugripum í breiðunni. Eftir skamma stund fann önnur stúlka ferlaufung. Svo fann ég tvo með fimm laufum. Og svo einn með sex laufum !! Hmm, við vorum greinilega lent í stökkbreyttri smáraáras úr geimnum. Ég fór með herfangið heim og spurði mömmu hvort meiri heppni fylgdi fimm og sex laufa smárum ? Mamma leyfði sér að vera efins í því að maður græddi eitthvað á aukalaufunum. Í mörg ár hafði ég smárana góðu innrammaða í herberginu mínu. Loks pakkaði ég þeim niður og týndi þegar ég var komin á fullorðinsár. Enda hefur heppni mín verið eftir því. Ég þarf að finna annan fjögurra laufa smára. Ekki bara í spilinu, heldur einn ekta lukkusmára. Miðað við atburði síðustu ára þarfnast ég kannski fimm eða sex laufa smára, jafnvel sjölaufa ? Tölti kannski fram hjá gömlu skólalóðinni við tækifæri. Ef til vill leynist lukkusmári þar enn.

Thursday, July 06, 2006

Mávahlátur

Í gærkveldi kom ég seint heim eftir velheppnað spilakvöld með fjörugum vinkvensum. Ég var orðin ansi lúin og kastaði mér dauðfegin í rúmið eftir kvöldsturtuna. Ég pakkaði mér vel inn í sængina og fann að ég var þegar að síga inn í draumalandið. Þar sem ég lá þarna milli svefns og vöku rauf hátt og ergjandi hljóð kyrrðina. Fyrst hljómaði þetta eins og ein af þessum pirrandi bílaþjófavörnum. Hljóðið var stöðugt, taktfast Aik aik aik aik aik og var alltaf í sömu tóntegund. Þegar hljóðið hafði verið stöðugt í um 5 mínútur var ég glaðvöknuð, örg og svekkt. Ég kíkti út um gluggann og sá þá máv sitja á ljósastaur andspænis götunnar. Goggurinn á honum var opinn og höfuðið vísaði til himins. Andskotinn, hugsaði ég, ekki getur það verið mávurinn sem er að gefa frá sér þetta sírenuhljóð ?? Ég opnaði gluggann og um leið hækkaði hljóðið um allan helming. Og ójú, þetta var mávurinn. Þarna tróndi hann efst á ljósakúplinum, argandi þetta óþolandi hljóð án hléa. Viltu vinsamlegast halda kjafti sagði ég út í nóttina, meira við sjálfa mig en mávinn, þar sem ég lagði ekki alveg í að öskra á hann klukkan að ganga hálf tvö um nótt. Þessum blessuðum máv virtist liggja mikið á hjarta. Kannski var hann búinn að frétta af fyrirhuguðum fjöldamorðum á vegum borgarinnar og vildi því koma sínum mótmælum á framfæri við mig, borgarstarfsmanninn. Eða kannski var hann óheppinn í ástum og var að tjá vonbrigði sín. Hver svo sem ástæðan var þá hélt þessi elska (sem vonandi verður á vegi meindýraeyða fljótlega) áfram að garga stanslaust í 20 mínútur. Þegar hann loksins þagnaði lá ég beinstíf í rúminu með samanbitnar tennur og löngu komin úr öllu svefnstuði. Eftir um mínútu hlé byrjaði hann aftur en snarþagnaði fljótlega. Mér til mikillar gleði var hann floginn á braut þegar ég leit út um gluggann. Þarf vart að taka fram að ég var frekar þreytuleg í vinnunni í morgun. Mávahlátur hefur kannski vinninginn í keppninni mest óþolandi hljóðið, en munið þið mávar, sá hlær best sem síðast hlær...

Tuesday, July 04, 2006

Steiktur rass

Í gær skellti ég mér í sund með Helen systur. Ég tek það fram að ég athugaði vel hvort hún væri nokkuð að flissa og gelta áður en ég hætti mér af stað með henni. Við fórum í Árbæjarlaugina, hverfislaug Helenar sem hún hefur heimsótt mun oftar en ég. Við sátum drjúga stund og nutum lífsins í heita nuddpottinum. Síðan stakk Helen upp á því að við færum í gufuna. Fínt sagði ég en ég hafði ekki vitað að boðið væri upp á gufu þarna. Jæja, við skellum okkur inn í klefann og Helen kemur sér fyrir út í horni og ég ætla að setjast á bekkinn við hliðina á henni. Mér til skelfingar var bekkurinn sjóðheitur, enda úr málmi. Ég fór að kvarta yfir þessu við Helen sem sagði bara að þetta hefði verið enn verra þegar trébekkirnir voru þarna. Ég prófaði nú margar mismunandi stellingar en ekkert dugði, rassinn á mér var hreinlega að steikjast í gegn. Á meðan sat Helen hin ánægðasta í sínu horni. Hún er greinilega alveg tilfinningalaus í botninum. Loks gafst ég upp og dró hana með mér út úr litla vítisklefanum, með 3. gráðu brunasár á bossanum. Þegar við komum út og inn í lítið andyri fyrir framan gufuna rak ég augun í kassa á veggnum. Í honum voru plastspjöld ætluð til að vernda rassa gufubaðsgesta. Aaa já, ég var búin gleyma þessu, sagði ástkær systir mín. Þurfti að taka á öllu mínu til að sleppa því að dýfa hausnum á henni niður í laugina og halda honum þar. Var aum í rassinum fram að kvöldmat.

Sunday, July 02, 2006

Harðir dómar í USA

Þeir í Ameríkunni eru alveg ótrúlegir. Var að lesa frétt um dómara nokkurn sem var að fá á sig dóm fyrir ósæmilegt athæfi í réttarsalnum. Hið ósæmilega fólst í því að dómarinn var með typpapumpu undir skikkju sinni og fróaði sér með henni þegar hann var að kveða upp dóma. Upp komst um strákinn Tuma þegar lögreglumaður rak augun í tækið milli fóta hans þegar hann stóð upp við borðið hans. Þegar sannleikurinn var kominn í ljós og búið að gera pumpuna góðu upptæka fór starfsfólk réttarins að rifja upp einkennilegt hljóð sem það hafði oft heyrt við dómsuppkvaðningu. Fólk hafði spurt dómarann hvort hann heyrði líka hljóðið, sem minnti á hviss í hjólapumpu. Karl hafði brugðist illa við þessum spurningum, ekki sagst heyra neitt og sagði þeim að einbeita sér að störfum réttarins. Má segja að maðurinn hafi verið harður dómari...

Thursday, June 29, 2006

Lessa í boltanum

Boltaíþróttir kvenna hafa það orðspor að aðeins lesbíur vilji taka þar þátt. Fólk sem telur sig nokkuð þroskað pirrar sig á þessum fordómum og reynir að kæfa þá niður. Fréttin sem ég las á visir.is í dag kemur ekki til með að hjálpa málstaðnum. Fyrirsögnin var: "Lessa til Fylkis". Þeir voru s.s. að fá til liðs við sig leikmann að nafni Christine Lessa. Af öllum löndum sem þessi blessuð stúlka hefði getað valið til að stunda kvennafótbolta í, þá þurfti hún að velja Ísland.

Wednesday, June 28, 2006

Hversu mikill nörd er ég ?

Þegar ég lá heima í leiðindum mínum var tölvan mín eina björgun. Ég vafraði um veraldarvefinn í fleiri klukkustundir og skoðaði alls kyns vefsíður. Einn daginn datt ég inn á póstur.is og fann þar tengil inn á síðuna postcrossing.com. Þetta er póstkortaskiptivefur, maður skráir sig og sitt heimilisfang, sendir póstkort á aðra meðlimi og skráir hvenær maður fær póstkort frá einhverjum inn á vefinn. Þegar ég sá þetta kviknaði á öllum ljósum í hausnum á mér svo bjart varð í herberginu og ég skráði mig í einum logandi hvelli. "Þetta er gaman", hugsaði ég, "ég get fengið póstkort frá öllum heiminum!" Jæja, nema hvað, ég fyllti samviskusamlega út póstkort og tók það með í vinnuna til að póstleggja það. Það lá á borðinu hjá mér í morgun og einn samstarfsfélagi tók það og fór að skoða það. Ég hóf þegar að segja honum glaðlega frá postcrossing vefnum og öllum póstkortunum sem ég ætti von á. Ég var kát og glöð þar til að ég leit framan í hann og las hinn hræðilega sannleik úr andlitsdráttum hans..... Ég er MEGA NÖRD ! Ímynd mín sem Fröken Súperkæld er í hættu og ég verð að bregðast strax við. Ég mun byrja á því að slátra vitninu og gæta þess að fara í framtíðinni afar leynt með kortin mín. Ahemm, ég meina, ég mun auðvitað ekkert halda áfram þessum kjánalegu póstkortaskiptum.

Tilvitnun vikunnar

Var hjá Júllu vinkonu áðan í mat. Hún var að ræða við dóttur sína um þá ákvörðun þeirrar stuttu að borða með reiðhjólahjálm á höfðinu og mælti þá þessa ódauðlegu setningu: "Ætlarðu að borða með matinn á höfðinu ???" Fékk svo margar skemmtilegar myndir í hugann...

Heilabilun og drykkjuvandamál

Ég er nú mætt til vinnu aftur eftir nær þriggja mánaða veikindafrí og finnst það afar hressandi að vera innan um fólk á ný. Kanínan er ágætur félagsskapur en ekkert sérstaklega ræðin. Það versta er að ég virðist þurfa að læra að vera í mannlegu samfélagi aftur og sjá um einföldustu hluti eins og að næra mig stórslysalaust. Það hefur nefnilega ekkert gengið snuðrulaust að mæta aftur! Ég hef þróað með mér drykkjuvandamál, sem fellst í því að ég hitti ekki á munninn þegar ég reyni að drekka eða helli helmingnum af drykknum á gólfið. Ég missi mat í kjöltuna á mér og missi hnífapör á gólfið. Ég gleymi nöfnum náinna samstarfsaðila og vina og er sífellt að segja bandvitlaus orð í samræðum svo ég hljóma eins og alger hálfviti. Jafnvel stóð mig að því að stama í dag ?? Svo rek ég hausinn í bíldyr og rek tærnar í allt í kringum mig. Hjálp ! Þetta rjátlar vonandi af mér þegar líða fer á vikuna... annars er ég hælismatur.

Sunday, June 25, 2006

Þú ert ekkert

Síðustu tvær vikur hef ég notið lífsins í Búlgaríu. Sól, hiti, sandur og bjór. Afar yndislegt, sérstaklega þegar maður hugsar um þær tíu vikur sem ég eyddi inn í svefnherberginu mínu fyrir ferðina. Þarna var afar gott að vera. Ólíkt Spáni og öðrum stöðum sem ég hef heimsótt voru allir vel mælandi á enska tungu og því auðvelt að hafa samskipti við heimamenn. Einn daginn röltum við mæðgur niður á strönd og stoppuðum í sölubás til að kaupa okkur sólhlíf. Við völdum eina regnbogalita og ég svipti um pening og rétti afgreiðslustúlkunni. Við tókum svo við sólhlífinni og ég brosti mínu blíðasta til stúlkunar og sagði: Thank you very much. Hún brosti alúðlega til baka og sagði: You are nothing. Hmmm. Mér varð orða vant þegar ég gekk í burtu. Hvað átti hún við ? Var þetta djúp heimspekileg pæling um fánýti okkar stutta mannlífs, þar sem við erum ekkert þegar maður horfir á hinn endalausa alheim og óendanlegan tíma ? Eða hafði þessi stúlka horft inn í sál mína og séð þar ekkert nema tóm ? Enginn hefur þorað að skella því beint í andlitið á mér að ég sé hreinlega EKKERT fyrr en þarna. Dóttir mín skemmti sér konunglega yfir þessu og það sem eftir var ferðar var þetta uppáhaldsbrandarinn hennar. Við gengum fram hjá básnum nær daglega og ég þurfti að halda mér til að hlaupa ekki upp að stúlkunni og öskra: I AM SOMETHING, YOU HEAR ME, I AM A GREAT PERSON ! Náði samt að stilla mig. Kannski var hún bara ekki nógu sleip í ensku.

Tuesday, June 06, 2006

Stuðlaðar fyrirsagnir fyrirséðar og heyrðar

Humm. Ég sé það núna að sumar fyrirsagnirnar á póstunum mínum eru eins og teknar úr Séð og heyrt. Sú venja þeirra að stuðla fyrirsagnir (Fjórar í fríi, Glaðlegur glaumgosi) hefur smitast yfir í bloggið mitt. Hef oft velt því fyrir mér hversvegna blaðið hefur þetta svona. Ekki það að þessar fyrirsagnir hafa oft fengið mig til að hlæja upphátt. Uppáhaldið mitt er og verður "Lúmskar lesbíur". Næst mun ég sennilega taka upp þann sið að setja aldur þeirra sem ég tala um í sviga fyrir aftan nöfnin: Svava (34) fór í bíó með Hildu (13) og hitti þar Helen (44). Svövu var svo vísað út fyrir óspektir af Siggu sætavísu (16).

Saturday, June 03, 2006


Auga amöbunnar Posted by Picasa

Risaambaba ræður ríkjum í rúminu

Eitt af því sem uppeldissérfræðingar vara við er að venja börnin sín á að sofa uppi í rúmi hjá sér. Þessum aðvörunum er sérstaklega beint til hjóna og sambýlisfólks þar sem svefnleysi og annarsskonar leysi sem fylgir dvöl barnanna í rúminu gæti valdið sambúðarerfiðleikum. Sumir halda því fram að þetta gæti endað með skilnaði. Verandi bráðgáfuð, eins og allir vita, hef ég ítrekað bent vinum mínum á hvílík mistök þeir séu að gera ef þeir leyfa börnunum að sofa upp í . Sérstaklega hef ég verið harðorð í þeim dæmum þar sem annar sambúðaraðilinn hefur kosið á flýja hjónarúmið á næturnar til að sleppa við börnin. Ah, það er alltaf svo gaman að kasta steinum í glerhúsi. Maður þarf bara að passa að kasta steinunum út í gegnum veggina en ekki þakið, annars endar maður á að fá glerbrotin í hausinn. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að dóttir mín hefur ansi oft fengið að sofa uppi í rúmi hjá mér. Reyndar liggur hún einmitt núna við hliðina á mér og steinsefur. Ég þarf að vísu ekki að hafa áhyggjur af því að vera hennar í rúminu eyðileggi fyrir mér neitt samband, né hef ég þurft að hafa þær áhyggjur allt hennar líf. Annað mál er með svefnleysið. Á því tímabili sem ég átti 70 cm breitt rúm hafði dóttir mín 65 cm til umráða fyrir sig þegar hún svaf hjá mér, ég hafði auma 5. Síðan fékk ég mér 140 cm rúm úti í Danmörku. Dóttirin fékk þá 135 cm, ég sat enn uppi með 5. Það skiptir engu máli hver stærð rúmsins er, plássið mitt er alltaf jafn lítið. Allt frá því hún var pínulítil hafði Hilda þann hæfileika að skjóta út frá sér ótal útlimum og flæða svo eftir rúminu eins og amaba. Smá saman tókst amöbunni að ýta mér út á ystu brún rúmsins og þá skaut hún fálmurunum sínum yfir mig og umlukti mig. Þetta var ekki beint til þess fallið að tryggja mér góðan nætursvefn, sérstaklega ekki í þeim tilfellum þar sem einn af fálmurunum skall beint á andliti mínu. Oftast gat ég bjargað mér með því að ýta amöbunni út í hinn endann á rúminu og keypti mér þannig dýrmætan svefntíma áður en hún rann yfir í minn enda aftur. Reyndar svaf litla amaban oftast í sínu rúmi en henni þótti alltaf gott að fá að stelast í mömmu rúm svona af og til. Í dag á ég 130 cm breitt rúm. Ég á þrettán ára dóttur sem er um 170 cm að lengd og fílsterk í þokkabót. Amaban er orðin að risaamöbu. Risaamöbunni finnst ennþá gott að kúra hjá mömmu og mamma er svo veik fyrir einkabarninu að hún fær það. Það er hinsvegar lífsins ómögulegt að ýta risaamöbunni yfir í hinn endann á rúminu. Hún berst á móti og er allt of þung. Fálmararnir eru líka miklu þyngri og skella af meiri krafti á fórnarlambinu. Það er að lokum gersamlega ómögulegt að taka hana og bera yfir í sitt eigið rúm. Það yrði þá það síðasta sem ég gerði. Fólk með börn á þessum aldri er venjulega hætt að hafa þetta vandamál en hún er mitt eitt og allt og ég rígheld í litla barnið mitt eins lengi og ég get. Þó það kosti marbletti og hryggskekkju. En auðvitað er þetta óráðlegt hjá öllum öðrum, munið það. Verð að hætta að skrifa, risaamaban var að skella olboganum inn í barkakýlið á mér og ég er að kafna. Góðar stundir.

Friday, June 02, 2006

Hávaðasamt heilnudd

Í dag fór ég í Baðhúsið til að fá 50 mínútna heildnudd. Tvær vinkonur mínar höfðu af gæsku sinni gefði mér gjafakort fyrir nuddinu í afmælisgjöf, en ég var fyrst að skella mér núna vegna kjarasamningsviðræðna/veikinda/beinbrots...blah ! Ég hef aldrei komið í Baðhúsið fyrr og var það mér sérstök gleði að komast að því að móttakan er á annarri hæð og lyftan stoppar ekki þar. Frábært. Ég skrölti á hækjunum upp í móttökuna og fleygði í þær gjafabréfinu. Þá tilkynntu þær mér að innifalið í nuddinu væri afslöppun í heitum potti og gufu. Það vissi ég ekki og var því ekki með sundföt. Ég spurði því af minni alkunnu fyndni hvort ég ætti ekki bara að láta sloppinn falla og fara í pottinn nakin. Afgreiðslustúlkunum þremur stökk ekki bros en sögðust geta lánað mér bol. Ég get svo sem ekki sagt að ég lái þeim, ekki hefði mig langað að sjá mig nakta með visna fótinn minn með Frankenstein örunum. Ein stúlkan gekk nú með mér inn í búningsklefann og útskýrði fyrir mér þessa venjulegu hluti sem útskýrðir eru fyrir hálfvitum á hækjum, svo sem hvernig ætti að smella hengilás á fataskápinn og hvar væri vasi á sloppnum svo ég gæti geymt lykilinn á meðan ég væri í nuddinu. Mér lukkaðist að meðtaka þetta í fyrstu tilraun og þá sýndi hún mér hvar nuddið færi fram. Hún var verulega vandræðaleg þegar hún benti mér niður langan hringstiga að herbergi úti í horni. Auðvitað, gat ekki annað verið en að ég þyrfti að renna mér í fleiri stiga. Ég tróð mér í sloppinn í hvelli, setti lykilinn í vasann eins og lög gerðu ráð fyrir og klöngraðist niður. Stiginn hringaði sig um hugljúfan gosbrunn og þar fyrir neðan var heitur pottur baðaður mjúku ljósi. Fyrir framan nuddherbergið var hálfmyrkvað biðsvæði með mjúkum leðursófum og Bee Gees lög hljómuðu lágt í hátalara. Fullkomið hugsaði ég um leið og nuddarinn leiddi mig inn í nuddklefann sem var lýstur upp með kertaljósum. Ég lagðist alsæl á bekkinn og stúlkan hóf nuddið. Þá heyrðist skyndilega hár hvellur og svo glumdi í gegnum vegginn: EINN TVEIR ÞRÍR FJÓR JE ! Síðan upphófst dúndrandi danstónlist með nokkrum JE JE ÁFRAM TAKA Á öskrum inn á milli. Bee Gees áttu ekki sjens í þetta. Hva, bara stuð, sagði ég við nuddarann. Já, sagði hún vandræðalega, þetta er hádegistíminn. Við nuddararnir höfum oft kvartað yfir hávaðanum. Ég ákvað að láta þetta ekki trufla mig. Í raun gladdi það mig ósegjanlega að ég lá á nuddbekknum að láta dekra við mig meðan fullur salur af konum þurfti að sprikla í klukkutíma við þennan hávaða. Að loknum 50 mínútum reis ég upp af bekknum, alsæl með lífið og tilveruna. Man bara næst að bóka ekki nuddtíma klukkan tólf á hádegi.

Thursday, June 01, 2006

Misskipt er sólbrúnkuláni

Allt frá unga aldri hef ég haft mjög föla, náhvíta húð. Oft og iðulega var andlit mitt yfirlýst á hópmyndum þar sem myndavélarflassið endurkastaðist af því eins og sólarljósið af snjóbreiðu. Svo hvít var ég á veturnar að flugvélar hringsóluðu yfir höfði mér, haldandi að ég væri lendingarljós við flugbrautarenda. Djúpviturt fólk tjáði mér að ég þyrfti bara að fá lit einu sinni og svo myndi þetta vera ekkert mál eftir það. Minn besti árangur varð samt aldrei meira en nokkrar freknur. Loks tókst mér að brenna í framan og varð eldrauð eins og humar. Aha, sögðu hinir djúpvitru, fyrst verður þú rauð og svo kemur brúnkan í ljós! Ég beið og beið, en viti menn: þegar rauði liturinn hvarf kom sá hvíti bara aftur í ljós. Engin brúnka fyrir Svövu. Heimsóknir á sólarstrandir leiddu í ljós þá bráðskemmtilegur staðreynd að ég hef hreinlega ofnæmi fyrir sólinni og fæ glæsilegt sólarexem ef ég gæti mín ekki. Hið ótrúlega gerðist reyndar í fyrra, á Unglingalandsmóti UMFÍ (var þar með dóttur minni sem var að keppa, er hvorki unglingur né íþróttfrík) fékk ég smá lit í andlitið. Það er þó erfitt að gleðjast yfir þessum árangri þegar einkadóttir mín og erfingi sprangar um með gullinbrúnan hörundslit meiri hluta ársins. Það þarf varla annað en að kveikja á lampa nálægt henni, þá er hún orðin eins og súkkulaði. Ég sá þennan mun á húðlit okkar mæðgna í fyrsta sinn sem ég fór með ungabarnið í bað. Þegar ég lagði það á bláhvíta bringuna á mér sást þegar að húð þess var mun dekkri. Í kvöld kom svo téð einkadóttir heim í heiðardalinn og sýndi mér stolt bikinifarið sitt, enda þegar orðin súkkulaðisælubrún, þrátt fyrir kuldaskítaveður í sumarbyrjun. Er þetta réttlátt, ég bara spyr ? Mín eina huggun í þessu máli öllu er sú að ég get alltaf glatt vinkonur mínar þegar þær kvarta yfir því hvað þær eru gráar og guggnar. Þær þurfa ekki annað en að bera sig saman við mig og skapið batnar þá þegar. Reyndar ætti ég bara að hætta þessu röfli og sætta mig við það að ég er bara sérhönnuð fyrir íslenskar aðstæður og á ekki nálægt sólarljósi að koma. Er samt að vona að úti í Búlgaríu gerist kraftaverkið og ég fái jafnvel tíu freknur í ár !

Wednesday, May 31, 2006

Ótti að nóttu til

Þegar ég var barn var ég mjög myrkfælin. Mitt auðuga ímyndunarafl var fljótt að búa til drauga og ófreskjur úr minnsta skugga í herberginu mínu. Ég var líka dauðhrædd við tunglið, þegar það læddi geislum sínum inn um herbergisgluggann grúfði ég mig undir sæng og reyndi að láta sem minnst á mér bæra. Fimm ára gömul sá ég umslag Queen plötunnar Out of this world, en það skreytti stórt vélmenni sem kramdi hljómsveitarmeðlimina í höndum sér. Ég þorði ekki að vera úti ein í marga mánuði af ótta við að "stálkarlinn" næði mér. Ekki má gleyma sjúklegri hræðslu minni við kjarnorkusprengingar sem stafaði af sífelldum dómsdagsfréttum sem dundu á manni þegar kalda stríðið var í algleymingi. Ég kunni utanað leiðbeiningarnar í símaskránni um hvernig átti að bregðast við kjarnorkuárás og hafði af því miklar áhyggjur að vondu karlarnir myndu dúndra á okkur sprengjunni einmitt á hádegi fyrsta miðvikudag í mánuði þegar æfingar Almannavarna fóru fram. Með svo útsmoginni aðferð myndu þeir koma í veg fyrir að ég gæti notað leiðbeiningarnar og lifað af. Ég svaf illa á næturnar fram til þrettán ára aldurs vegna kvíða og hræðslu, hefði í dag tafarlaust verið greind með kvíðaröskun. En nú er ég hundgömul og lífsreynd. Það kom samt ekki í veg fyrir að ég fengi vægt hjartaáfall af hræðslu áðan. Ég lá hér í rúminu í mesta sakleysi þegar undarlegir skruðningar og skrjáf heyrðist í eldhúsinu. Mig hefði grunað kanínuna um græsku ef hún hefði ekki legið á bringunni á mér, skelfingu lostin með sperrt eyru. Það leið rétt um ein mínúta, svo heyrðist sama hljóðið aftur en nú lauk því með smá dynk og skvampi í vatni. Með dúndrandi hjartslátt hökti ég fram í eldhús, skyndilega orðin aftur átta ára og hrædd við drauga. Nema hvað. Ég var með tvo afleggjara af gömlu jukkuplöntunni minni í skál inni í eldhúsi. Þeir höfðu s.s. dottið niður á gólf og þannig orsakað hin dularfullu hljóð. Þarf vart að taka fram að mér leið eins og heimsins mesta sauð þegar ég skreiddist aftur inn í rúm. Engir ærsladraugar í Möðrufellinu, bara plöntur í sjálfsmorðshugleiðingum. Hef greinilega ekki alveg læknast af hérahjartanu þó liðin séu mörg ár :-)

Tuesday, May 30, 2006

Best að ganga hægt um gleðinnar dyr í Flórída

Í leiðindum mínum og eirðarleysi vafra ég um veraldarvefinn í leit að skemmtiefni. Norskt vefblað gladdi mitt svarta hjarta með lítilli frétt um vandamál í ellismellaríkinu Flórída. Vandamálið er að mikil aukning hefur orðið í tíðni kynsjúkdóma meðal gamla fólksins. Orsökin er sú að nú bryðja allir karlar Viagra í tonnatali og stunda villt kynlíf með mörgum konum eins og á æskuárunum. Nú er því farin af stað fræðsla meðal gamla gengisins um hvernig á að nota vin okkar smokkinn. Get ekki annað en velt því fyrir mér hvernig það muni ganga, í ljósi þess hversu erfitt það getur verið að fá eldri borgara til að tileinka sér nýjungar. Minningar um foreldra vinkvenna sem aldrei gátu þekkt muninn á Rec og Play á videoinu svífa hjá, svo og minningin um tilraunir mínar til að kenna mömmu að nota græjurnar sínar. Verður örugglega næsta stríð Bush stjórnarinnar á eftir Íraks vitleysunni, að berjast við að róa eldri kynslóðina niður og kenna þeim rétta notkun hlífðarbúnaðar :-)

Monday, May 29, 2006

Minniháttar meirihluti

Ég get ekki beint sagt að ég sé að kæla kampavínið og kasta upp konfetti eftir að hafa frétt hverjir mynduðu nýjan meirihluta í borgarstjórn. En get ekki sagt að þetta komi mér á óvart. Ljótur mun leiða herfilega ljótan. Gaman gaman. Held í þá von að peningaskápur muni detta í hausinn á þeim á leiðina á fyrsta fundinn. Má alltaf láta sig dreyma...

Sunday, May 28, 2006

Lokatölur smokatölur

Ég var ekki bænheyrð. Það er ljóst að ekki aðeins eru guðirnir geggjaðir, þeir eru heyrnalausir líka.

Guðríður í Kópavogi

Er barnalegt af mér að hafa hlegið eins og vitleysingur þegar Ríkissjónvarpið var að taka viðtal við Gunnar Birgisson og birti svo á skjánum að hann héti Guðríður og væri í Samfylkingunni ?

Guð og allar góðar vættir hjálpi okkur....

Ég ligg á bæn. Ég bið heitt til allra heilagra og einnig ekki svo heilagra vera um að Björn Ingi detti út úr borgarstjórn. Ég bið til BAALs, Óðins, Múhameðs og jafnvel Lúsifers glæsimennisins á neðri hæðinni, látið næstu tölur sýna að hann sé dottinn út. Amen.

Saturday, May 27, 2006

Eru allar kanínur kynóðar ?

Í æsku minni átti ég gullfallega gráa kanínu sem ég af ótrúlegri hugmyndaauðgi skírði Grána. Gráni var í fyrstu nokkuð áttavilltur og virtist halda að hann væri hundur frekar en kanína. Hann lá gjarnan í leyni undir sófa og urraði grimmdarlega, síðan nýtti hann hvert tækifæri sem gafst til að glefsa í hælana á þeim sem í sófanum sátu. Síðar róaðist hann og fór að borða gulrætur eins og kanína er siður. Með tímanum fór hann einnig að sýna annað sígilt kanínueinkenni, nefnilega mikla kynorku. Hann réðist á allt sem fyrir varð og riðlaðist á því. Meðal fórnarlamba voru fætur, handtöskur og skór gesta. Ég man eftir því að hafa dregið kanínuna með hraði undan eldhúsborði þegar hún var að renna sér á fætur vinkvenna mömmu, sem til allrar lukku virtust oftast telja að Gráni væri bara að vera vinalegur. Hámarkinu náði Gráni samt þegar hann stökk á Míu, köttinn hennar Helenar systur, og átti við hana ljúfan ástarfund. Mér er það ennþá ráðgáta að kötturinn skyldi hafa látið sér þetta lynda ? Ef líffræðin hefði ekki verið á móti þessu sambandi hefði verið assgoti gaman að sjá þau afkvæmi sem komið hefðu út úr þessu. Köttur með löng eyru og dindil ? Kjötætukanína með langt skott og hvassar klær ? Gráni lést níu ára gamall, saddur lífdaga og var kynóður alveg fram í andlátið. Nú hef ég eignast aðra kanínu, einnig karlkyns, en sú hefur ekki sýnt neina takta í þessa átt. Ef honum Brad Pitt (svo nefndur til að ég gæti sagst vera með Brad Pitt í rúminu osfrv.) er réttur fótur, leggst hann bara niður og heldur að fóturinn ætli að klappa honum. Skór, töskur og annað vekja heldur engar hvatir hjá honum. Ég hef að vísu ekki boðið honum kött ennþá, en ég held að þessi kanína sé kynköld. Miðað við þetta dýr er orðstír tegundarinnar í kynferðisgeiranum mjög með orðum ýktur. Spurningin er, hvor er undantekningin, Brad eða Gráni ? Þrátt fyrir skort á beinum sönnunum tel ég reyndar að Gráni hafi verið stoltur fullrúi kanína þessa heims, en Brad er sennilega bara náttúrulaus. Það er greinilega ekki nóg að vera nefndur eftir fola.

Thursday, May 25, 2006

Ævintýri á hækjuför

Þar sem ég er nú orðin hressari í vinstri löppinni hef ég aðeins aukið ferðir mínar út úr húsi, en að vísu hefur það kostað slæma verki í hægri löpp á eftir. Það að komast út er samt þjáninganna virði ! Ég hef því neytt nokkra sakleysingja til að keyra mig í ýmsa leiðangra. Þegar ég skellti mér niður á Laugarveginn á föstudaginn síðasta varð ferðin þó aðeins meira ævintýri en ég hafði reiknað með. Helen systir hafði af góðsemi hjartans boðist til að keyra mig niður í bæ að skoða sérstaka heilsusandala sem ég ágirnist mjög um þessar mundir. Við systur vorum komnar á staðinn rétt rúmlega tvö í glampandi sólskini og fengum strax bílastæði rétt hjá búðinni. Sú ótrúlega heppni hefði strax átt að fylla mig grunsemdum, allt var hreinlega of gott til að vera satt. Enda fór fljótlega að bera á vandræðum. Þegar við systur stigum inn í búðina tilkynnti Helen að hún sæi ekki neitt. Mér þóttu þessar fréttir frekar óþægilegar en þegar hún hélt samt áfram inn í búðina hélt ég að þetta hefði verið einhver vitleysa. Ég haltraði því að heilsuskónum og fór að máta. Þá fór gamanið heldur að kárna. Helen kuðlaði sig saman á litlum kolli, flissaði af og til og gelti smá. Full grunsemda spurði ég hana hvort hún hefði borðað nóg fyrir ferðina. Já já, sagði sykursýkissjúklingurinn til 32 ára og gelti glaðlega. Nú voru góð ráð dýr. Ég ákvað að draga hana þegar inn í næstu sjoppu og gefa henni sykur, enda augljóst að þarna var um sígilt blóðsykurfall að ræða. Erfiðlega gekk þó að koma henni þessa fimmtán metra að sjoppunni, enda tókst henni á þessari stuttu leið að hitta tvo sem þekktu hana og reyndu að tala við hana. Með miklu hækjuhoppi og látum tókst mér að koma henni í sjoppuna og byrja að dæla í hana kók og súkkulaði. Mér til sárrar skapraunar virtist hún ekkert skána, auk geltsins og flissins var hún farin að fá kippi í hendurnar. Loks kallaði ég á sjúkrabíl og þá lagaðist hún auðvitað um leið. Bíllinn var samt farinn af stað og við létum indæla sjúkraflutningamenn tékka á henni, fyrst þeir voru nú mættir á staðinn. Ég náði meira að segja að daðra aðeins við þá. Við keyrðum svo að Aktu taktu þar sem ég mokaði í hana samloku og hékk hún eðlileg þar sem eftir var dags. Víst er að eftir þessa reynslu mun ég ekki hætta mér upp í bíl án þess að gera blóðsykurspróf á ökumanninum. Svona ævintýri eru frekar óþægileg fyrir hækjuhöktara. Var samt fyndið að heyra hana gelta....

Tuesday, May 23, 2006

Síbrotakonan margbrotna og brotgjörn ævintýri hennar

Einu sinni var kona sem var venjuleg í alla staði. Hún þráði að vera öðruvísi, vera einstök, vera ofurhetja. Hún reyndi margt til að ná þessu takmarki, en það var sama hvað hún reyndi, hún var alltaf jafn venjuleg. Þar til einn daginn að hún rak höfuðið í spýtu og braut við það hægri ökklann. Brotið var alveg stórfenglegt. Beinin voru kubbuð í smá bita og vöktu röntgenmyndirnar aðdáun hjá geislafræðingum og læknum sem öll óskuðu eftir að fá áritað eintak. Loksins hafði konan náð að slá í gegn. Vinir, ættingjar og aðrir áhugasamir hópuðust að sjúkrasænginni til að sjá dýrðina. Það sem meira var, konan uppgötvaði að brotið færði henni ofurhetjukrafta. Á nóttunni, þegar saklausar sálir sváfu rótt, sveif hún um borgina á annarri hækjunni í leit að illvirkjum. Þegar hún rakst á glæpamenn barði hún þá niður með hinni hækjunni og hringdi svo í þakkláta lögregluna sem lét fjarlægja farlama kvikindin. Konan hafði aldrei verið svona hamingjusöm á ævi sinni. En svo gerðist hið óumflýjanlega. Brotið greri og við það hurfu ofurkraftarnir. Aðdáendurnir hurfu, hversdagslífið tók við og brotakonan varð bara venjuleg á ný. Hvað var nú til ráða ? Eftir mikið japl, jam og fuður tókst brotakonunni að brjóta vinstri ökklann. Í þetta sinn í fjölda vitna viðurvist. Vart þarf að taka fram að aðdáun fólks varð þegar endurvakin, enda um listagott brot að ræða. Opið beinbrot, hvorki meira né minna ! Á spítalanum var henni tekið fagnandi. Allir sérfræðingar spítalans sátu saman með tárin í augunum og rifjuðu upp fyrra brot og dæstu: ef bara allir væru svona góðir í beinbrotum eins og þessi kona. Síbrotakonan lá ánægð í rúmi sínu og fann hvernig ofurkraftarnir streymdu um líkamann á ný. Hún ákvað þegar að nýta krafta sína aftur í þágu hins góða og sveif af stað á hækjunni við fyrsta mögulegt tækifæri. Í þetta sinn einbeitti hún sér að því að berja niður alþingismenn og borgarfulltrúa. Þakklátur almenningur hlóð á hana lofi í sjónvarpi, útvarpi og öðrum fjölmiðlum. Aðdáendabréfin fylltu póstkassann og stofnaður var sértrúarsöfnuður með síbrotakonuna sem guðlega yfirveru. Síbrotakonan sveif yfir borginni á hækjunni sinni og brosti blíðlega. Hún ætlaði aldrei aftur að yfirgefa sína þegna og sökkva í fen meðalmennskunnar. Næst myndi hún brjóta hægri hendina, síðan þá vinstri og svo framvegis, og svo framvegis. Nóg var af beinum að brjóta. 206 í einum kroppi. Síbrotakonan var hamingjusöm. Ekki niðurbrotin lengur. Margbrotinn persónuleiki hennar sveif inn í sólarlagið með söng á vörum og á jörðu niðri tóku allir undir.

Tuesday, March 14, 2006

Kynferðisleg áreitni á vinnustað


Helga vinnufélagi að ´klípa í rassinn á mér